Bernharð Pálsson gerður að heiðursdoktor við DTU

Bernharð Örn Pálsson, gestaprófessor í kerfislíffræði við Háskóla Íslands og prófessor við Kaliforníuháskóla í San Diego í Bandaríkjunum, var á dögunum kjörinn heiðursdoktor við DTU (Danmarks Tekniske Universitet) í Danmörku að viðstaddri Maríu Danadrottningu. DTU er ekki einungis einn allra öflugasti háskóli á Norðurlöndum heldur einn virtasti tækniháskóli í heiminum. DTU er nú í sæti 125 á heimslista Times Higher University Ranking (THE) yfir þá háskóla sem fremstir standa.
Aðeins einum öðrum Íslendingi hefur hlotnast sá heiður að verða heiðursdoktor við DTU en það var verkfræðingurinn Lauritz Sigvald Jóhannesson sem fékk heiðursdoktorsnafnbót frá skólanum árið 1951. Lauritz Sigvald (1877–1953) varð frægur fyrir að hanna Pulaski Skyway í New Jersey, mikið brúarmannvirki sem liggur milli Newark og Jersey borgar og nær yfir Passaic- og Hackensack-árnar.
Bernharð Pálsson hefur verið einn helsti frumkvöðull á sviði kerfislíffræði í heiminum í áraraðir og verið þar leiðandi í nærri aldarfjórðung. Rannsóknir hans mörkuðu upphaf nýrra tíma í lífvísindum snemma á öldinni en Bernharð leiddi m.a. kerfislíffræðisetur við Háskóla Íslands um hríð sem fékk í tvígang háa styrki frá Evrópska rannsóknaráðinu (ERC) snemma á öldinni.
María Danadrottning var viðstödd hátíðina í DTU þar sem Bernharð Pálsson tók við viðurkenningunni. MYND/DTU
Veitti kerfislíffræðisetri DTU forstöðu í 12 ár
Bernharð veitti kerfislíffræðisetri DTU forstöðu í á annan áratug, frá árinu 2010 til 2022, með óvenju glæsilegum árangri. Sá árangur hefur ekki síst skilað sér í háum alþjóðlegum rannsóknastyrkjum til skólans, afar áhugaverðum rannsóknaniðurstöðum og fjölda uppgötvana og sprotafyrirtækja innan DTU. Að sögn Bernharðs fékk DTU styrki á þeim tíma sem hann leiddi setrið sem samsvara um 84 milljörðum íslenskra króna. Setrið sjálft flokkast alþjóðlega undir iðnaðarörverufræði og er í þriðja sæti í heiminum öllum á því sviði samkvæmt viðurkenndri alþjóðlegri röðun (THE).
„Um fjörutíu sprotafyrirtæki hafa orðið til í tengslum við starfið í kerfislíffræðisetrinu,“ segir Bernharð, „en áður en það kom til var ekki afgerandi áhugi á sprotum innan háskólans. Þessi fyrirtæki hafa safnað því sem samsvarar um 500 milljónum bandaríkjadala í eigið fé.“
Bernharð segir að þessi nýja nafbót sé einn mesti heiður sem honum hafi hlotnast á löngum ferli sem vísindamaður. Þess má geta að drjúgur hluti af rannsóknum innan kerfislíffræðiseturs DTU hefur byggst á því að breyta virkni lifandi fruma á þann veg að fá þær til að framleiða alls kyns ensím, ekki síst til notkunar í lyf og í fjölþættum iðnaði. Þannig hefur t.d. að sögn Bernharðs stór hluti af allri framleiðslu á insúlíni í Danmörku flust yfir í sérhæfðar umbreyttar bakteríufrumur í framhaldi af grundvallarþróun innan DTU.
„Bernharð er einn fremsti sérfræðingur heims í tölvugreiningu á frumuefnaskiptum og hefur ásamt rannsóknarhópi sínum verið brautryðjandi í endurgerð efnaskiptakerfa á erfðamengi og þróun tölvulíkana fyrir efnaskipti baktería,“ sagði Anders O. Bjarklev, rektor DTU, í rökstuðningi sínum við athöfnina í Kaupmannahöfn fyrir helgi.
„Eitt mikilvægasta framlag Bernharðs hefur verið að samþætta kerfislíffræði, líffræði og efnaskiptaverkfræði til að þróa verkfæri sem hægt er að nota til að hanna og hámarka framleiðslu í örverufrumum.”
Bjarklev sagði að sýn, metnaður og sköpunarþróttur Bernharðs í starfi forstöðumanns kerfislíffræðisetursins hefði ekki aðeins haft mikil áhrif á það hvernig starfað sé að rannsóknum og nýsköpun við DTU heldur einnig á danska líftækni almennt séð.
Þess má geta að þetta er ekki eina heiðursnafnbótin sem Bernharð hefur hlotið um dagana því hann er einnig heiðursdoktor frá Chalmers-háskóla í Svíþjóð enda vann hann mikið með þeim skóla á sínum tíma.
Bernharð í kerfislíffræðisetrinu við DTU, sem hann kom að því að hanna. MYND/Úr einkasafni
Margverðlaunaður vísindamaður í fremstu röð
Bernharð Pálsson hefur lengst af starfað í Bandaríkjunum þar sem hann hefur verið búsettur en hann hefur komið að rannsóknum hérna megin Atlantsála, m.a. hérlendis, í Svíþjóð og í Danmörku. Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir rannsóknir sínar undanfarna áratugi. Bernharð er meðal annars meðlimur í bandarísku verkfræðiakademíunni og höfundur meira en 800 vísindagreina og 46 einkaleyfa sem er einstakt.
Hann var um langa hríð á lista Clarivate Analytics en sá listi nær til þess eins prósents vísindamanna innan hverrar fræðigreinar sem mest er vitnað til í vísindagreinum sem birtast í alþjóðlegum vísindatímaritum. Listinn byggist á gögnum úr gagnabankanum Web of Science. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og prófessor við Rafmagns- og tölvuverkræðideild, er á þessum lista núna. Jón Atli hefur einnig verið kjörinn í bandarísku verkfræðiakademíuna eins og Bernharð en þeir eru einu Íslendingarnir sem hafa náð þeim einstaka árangri.
Bernharð Pálsson hefur verið einn helsti frumkvöðull á sviði kerfislíffræði í heiminum í áraraðir og verið þar leiðandi í nærri aldarfjórðung. Rannsóknir hans mörkuðu upphaf nýrra tíma í lífvísindum snemma á öldinni.

Gríðarleg sókn í rannsóknum í kerfislíffræði
Margir kunna að spyrja sig að því hvað kerfislífræði sé en heitið eitt er enn mörgum framandi. Kerfislíffræði (e. systems biology) er fræðigrein í lífvísindum sem leitast við að skilja lífverur og líffræðilega ferla sem samverkandi kerfi. Kerfislíffræðin sameinar aðferðir úr líffræði, lífefnafræði, verkfræði, stærðfræði, tölvunarfræði og eðlisfræði til að byggja líkön af því hvernig frumur, gen, prótein og efnaskipti starfa saman í flóknum kerfum eða stórum netum.
Í stað þess að skoða einstaka hluta lífveru út af fyrir sig, eins og eitt gen eða eitt prótein, snýst kerfislíffræði um að skoða hvernig margir þættir vinna saman og hafa áhrif hver á annan – t.d. hvernig genastýring, efnaskiptaferlar og boðflutningskerfi mynda samþætta heild.
Gítarleikarinn og vísindamaðurinn Bernharð Pálsson
Bernharð Pálsson er fæddur árið 1957, sonur Ernu Arnar og Páls Vígkonarsonar. Hann lauk stúdensprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð en hann hóf þar nám einungis fimmtán ára gamall. Að loknu stúdentsprófi hélt hann hingað í Háskóla Íslands þar sem hann lagði stund á nám í efnaverkfræði en einungis var boðið upp á tveggja ára nám við skólann á þeim tíma. Bernharð hélt því strax vestur um haf að námsárunum loknum í HÍ og lauk B.sc.-gráðu í efnafræði frá Kansasháskóla. Hann útskrifaðist í framhaldinu með doktorsgráðu frá Háskólanum í Wisconsin.
Bernharð þykir einstaklega metnaðarfullur og kraftmikill vísindamaður og mikill fræðilegur leiðtogi við rannsóknir auk þess að vera afar farsæll stjórnandi stórra teyma. Bernharð þykir öflugur skákmaður en hann tefldi talsvert á yngri árum. Ekki eru margir sem vita að Bernharð er líka öflugur gítarleikari og nam þá list samhliða veru sinni í MH. Bernharð hefur spilað á gítar frá unga aldri, og gerir enn, bæði á klassískan gítar og rafmagnsgítar og er jafnvígur á klassíska tónlist og rokk þegar því er að skipta.
Bernharð Örn Pálsson tekur við heiðursdoktorsnafnbót frá DTU. MYND/DTU