Aurora ýtt úr vör í þágu framfara
Í dag var ýtt úr vör nýjum áfanga í fjölþjóðlegu samstarfi evrópskra háskóla sem Háskóli Íslands mun leiða til næstu fjögurra ára. Samstarfið er sérstaklega styrkt af Evrópusambandinu og mun gera háskólunum sem þátt taka kleift að efla háskólamenntun, rannsóknir og nýsköpun í þágu samfélaga. Samstarfsnetið heitir Aurora og að því standa níu evrópskir háskólar í fremstu röð, sem allir leggja mikla áherslu á sjálfbæra þróun, samfélagslega ábyrgð og nýsköpun.
Aurora samstarfið hefur verið við lýði undanfarin sjö ár en það hlaut fyrir skemmstu rösklega 14 milljóna evra styrk frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, jafnvirði rúmlega tveggja milljarða króna, til áframhaldandi samvinnu háskólanna. Þetta er innan áætlunar sem nefnist European Universities Initiative. HÍ fær stærstan hluta styrksins, eða um sautján prósent þar sem skólinn leiðir Aurora-samstarfið en Jón Atli Bendiktsson, rektor HÍ, er forseti þess.
„Meginmarkmið Aurora-samstarfsins er að efla færni nemenda og styrkja hugarfar þeirra til að takast á við brýnar og hnattrænar áskoranir auk þess að beina sjónum að nýsköpun í þágu samfélagslegra framfara,“ sagði Jón Atli þegar hann gangsetti samstarfið formlega í morgun í Hátíðasal Háskóla Íslands að viðstöddum háskólaráðherra, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur.
„Á nýja styrktímabilinu, Aurora 2030, verður aukin áhersla á rannsóknasamstarf háskólanna allra. Auk þess verður áfram áhersla á nýsköpun í námi og kennslu, sem og þróun sameiginlegra námskeiða og námsbrauta sem styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna,“ sagði háskólarektor.
„Meginmarkmið Aurora-samstarfsins er að efla færni nemenda og styrkja hugarfar þeirra til að takast á við brýnar og hnattrænar áskoranir auk þess að beina sjónum að nýsköpun í þágu samfélagslegra framfara,“ sagði Jón Atli þegar hann gangsetti samstarfið formlega í morgun í Hátíðasal Háskóla Íslands að viðstöddum háskólaráðherra, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur.
Áslaug Arna háskólaráðherra tók einnig til máls á fundinum í morgun en á honum voru fulltrúar allra háskólanna í netinu auk fjölda innlendra og erlendra gesta. Samstarfsháskólarnir í Aurora eru, auk Háskóla Íslands, Vrije Universiteit Amsterdam (VU), Universität Innsbruck (UIBK), Universität Duisburg-Essen (UDE), Copenhagen Business School (CBS), Palacký University Olomouc (UP), Universitat Rovira i Virgili (URV), Université Paris Est Creteil (UPEC), og Università Federico II di Napoli (UNINA).
Efla færni til að takast á við áskoranir
Fram kom í máli háskólarektors í morgun að áherslur innan Aurora verði á fjórum sviðum sem er ætlað að stuðla að samfélagslegum umbótum með þátttöku nemenda og starfsfólks háskólanna allra auk ytri aðila.
Í fyrsta lagi leggur Aurora áherslu á að kennsla, rannsóknir og samfélagsleg nýsköpun opni þverfræðilegar leiðir til að mæta samfélagslegum áskorunum. Markmiðið er að þróa kennsluaðferðir sem efla nemendur við að takast á við alþjóðleg viðfangsefni í fjölbreyttum heimi.
Önnur áhersla Aurora snýst um að efla stoðþjónustu í rannsóknum og skapa þannig grundvöll fyrir alþjóðlegt samstarf og miðlun þekkingar. Þetta á ekki síst við síst við um fjölbreyttan hóp sem er að hefja akademískan feril sinn.
Þriðja áhersla Aurora er að styrkja tengslin við fleiri samstarfsskóla og aðra innan og utan Evrópu og efla með því fjölbreyttar rannsóknir. Aurora mun leggja áherslu á samstarfsverkefni í Mið- og Austur-Evrópu en einnig að koma á tengslum við fjölbreytta samstarfsaðila víða um heim.
Fjórða áhersla Aurora liggur á sviði sjálfbærni sem mun drífa samstarfið áfram á samsvarandi hátt og áður. Aurora mun setja sér ný og metnaðarfull markmið í sjálfbærni í menntun, rannsóknum og öllu samstarfi, í samræmi við markmið Evrópusambandsins fyrir 2030 og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Aurora mun einnig vinna að sjálfbærri og vistvænni starfsemi innan hvers háskóla fyrir sig, til þess að minnka kolefnisspor þeirra.
Myndir frá upphafsfundi hins nýja samstarfstímabils, Aurora 2030, má sjá hér að neðan.