Aurora háskólasamstarfið hlýtur áfram fjármögnun undir forystu HÍ
Aurora samstarfið, sem Háskóli Íslands er hluti af, hefur hlotið 14,4 milljónir evra, jafnvirði rúmlega tveggja milljarða króna, í styrk frá Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fyrir áframhaldandi samvinnu háskóla innan áætlunarinnar European Universities Initiative. Þetta gerir Aurora og Háskóla Íslands kleift að treysta samstarfið enn frekar í átt að því markmiði að efla háskólamenntun til samfélagslegra áhrifa.
Háskóli Íslands leiðir Aurora samstarfið næstu fjögur árin sem styrkurinn nær til. Umsóknin hlaut góða umsögn, 90 af 100 stigum mögulegum, og byggir á þeim mikla árangri sem náðst hefur á fyrstu árum samstarfsins, árin 2020-2023.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og forseti Aurora, er að vonum ánægður með tíðindin:
Ég er afar ánægður að Aurora samstarfið hafi fengið áframhaldandi styrk til fjögurra ára frá Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Þetta sýnir mikið traust í garð Aurora og markmiðs okkar að þjálfa frumkvöðlahugsun og færni hjá fjölbreyttum hópi nemenda til að takast á við stórar og flóknar samfélagslegar áskoranir. Þessi nýi styrkur gerir okkur kleift að vinna áfram náið með samstarfsskólum okkar í Evrópu og víðar.
Aurora samstarfið mun einblína á fjögur áherslusvið sem er ætlað að stuðla að samfélagslegum umbótum með þátttöku nemenda og starfsfólks háskólanna auk ytri aðila.
Menntasýn Aurora fyrir samfélagsleg áhrif
Fyrsta áhersla Aurora er að kennsla, rannsóknir og samfélagsleg nýsköpun skapi grundvöll fyrir þverfræðilegar nálganir sem geta mætt samfélagslegum áskorunum samtímans. Markmið Aurora er að þróa kennsluaðferðir sem efla nemendur til að takast á við viðfangsefni í alþjóðlegum og fjölbreyttum heimi.
Framúrskarandi rannsóknir og nýsköpun
Önnur áhersla Aurora er að efla stoðþjónustu í rannsóknum og skapa grundvöll fyrir alþjóðlegt samstarf og miðlun þekkingar, ekki síst meðal fjölbreytts hóps einstaklinga sem eru að hefja sinn akademíska feril.
Samstarf og samfélagsþátttaka
Þriðja áhersla Aurora er að halda áfram að styrkja tengslin við fleiri samstarfsskóla og aðra aðila innan og utan Evrópu til að efla fjölbreyttar rannsóknir og annað samstarf. Aurora samstarfið mun leggja áherslu á samstarfsverkefni í mið- og austur Evrópu en einnig að koma á tengslum við fjölbreytta samstarfsaðila víða um heim.
Frumkvöðlar í sjálfbærni
Fjórða og síðasta áhersla Aurora liggur á sviði sjálfbærni sem mun áfram verða drifkraftur samstarfsins. Aurora mun setja sér ný og metnaðarfull markmið í sjálfbærni í gegnum menntun, rannsóknir og samstarf, í samræmi við markmið Evrópusambandsins fyrir 2030 og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Aurora samstarfið mun vinna að sjálfbærri og vistvænni starfsemi innan hvers háskóla til þess að minnka kolefnisspor þeirra.
Um Aurora
Aurora samanstendur af eftirfarandi níu háskólum sem auk Háskóla Íslands eru: Vrije Universiteit Amsterdam (VU), University of Innsbruck (UIBK), University of Duisburg-Essen (UDE), Copenhagen Business School (CBS), Palacký University Olomouc (UP), Universitat Rovira i Virgili (URV), Université Paris Est Creteil (UPEC), og University of Napoli Federico II (UNINA)
Auk þess eru sjö samstarfsaðilar, bæði háskólar og aðrir, sem eru University of East Anglia, South-West University “Neofit Rilski”, Pavol Jozef Šafárik University in Košice, the University of Tetova , Kharkiv National University, European Forum Alpbach og Information Centre on Academic Mobility and Equivalence.
Aurora var eitt af 24 háskólabandalögum sem voru styrkt af Erasmus+ frá 2020 til 2023. Í mati Framkvæmdastjórnar ESB á miðbiksskýrslu Aurora, sem birt var í nóvember 2022, sagði meðal annars:
Aurora háskólabandalagið hefur náð eftirtektarverðum árangri og getur verið til fyrirmyndar um það sem hægt er að ná fram í slíku samstarfi. Það hefur sýnt fram á umtalsverð áhrif af starfinu og frekari möguleika til þess.
Aurora felur í sér fjölbreytt tækifæri fyrir nemendur og starfsfólk í námi, kennslu og rannsóknum. Nánar um Aurora samstarfið.