Skip to main content
14. desember 2022

Aurora fær lofsamleg viðbrögð við miðbiksskýrslu

Aurora fær lofsamleg viðbrögð við miðbiksskýrslu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Aurora-samstarfið, sem Háskóli Íslands á aðild að, fær framúrskarandi umsögn hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í nýrri samantekt um árangur samstarfsins. Um er að ræða mat á framvinduskýrslu fyrir fyrri helming styrkveitingartímabils sem nær til loka næsta árs. Framkvæmdastjórnin hrósar samstarfinu fyrir umtalsverðan árangur í sínum áhersluverkefnum.

Aurora-samstarfið fékk veglegan þriggja ára styrk frá Evrópusambandinu árið 2020 og varð með því eitt af svokölluðum European University háskólanetum sem ætlað er að efla samstarf evrópskra háskóla og styrkja þá til sóknar í samkeppni við háskóla annars staðar í heiminum. Styrkinn hafa Aurora-háskólarnir nýtt til að efla rannsóknir, nýsköpun og kennslu í þágu þeirra samfélaga þar sem þeir starfa og hefur Háskóli Íslands undanfarið leitt starf Aurora. 

Í mati framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á starfi Aurora Alliance segir m.a.: „Háskólanetið hefur náð eftirtektarverðum framförum og getur verið fyrirmynd um það sem hægt er að ná fram í slíku samstarfi. Það knýr með skýrum hætti áfram nýsköpun, bæði innan allra samstarfsháskólanna og sameiginlega.“

„Allir samstarfsháskólarnir hafa lagt hart að sér og gert sitt besta. Ég vil þakka öllu Aurora-samfélaginu kærlega fyrir framlag þess. Þetta mat staðfestir að við erum á réttri leið og mun hvetja öll sem taka þátt í Aurora-samstarfinu til að halda áfram á sömu braut á næstu árum,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og forseti Aurora.

Nú stendur yfir vinna við umsókn um áframhaldandi styrkveitingu frá Evrópusambandinu fyrir tímabilið 2023-2027 sem skila á í janúar. Ísland hefur tekið að sér forystuhlutverk í því ferli.

Um Aurora

Aurora er samstarfsnet öflugra evrópskra rannsóknaháskóla sem vinnur að kennsluþróun og nýsköpun í starfsemi háskóla til að mæta samfélagslegum áskorunum nútímans. Með þátttöku í Aurora öðlast starfsfólk Háskóla Íslands tækifæri til að kynnast nýjum kennsluaðferðum, taka þátt í viðburðum erlendis, laða að alþjóðlega nemendur í námskeið og finna evrópska samstarfsaðila í rannsóknum og kennslu. 

Frekari upplýsingar um Aurora-samstarfið

Gerast áskrifandi að fréttabréfi Aurora
 

""