Skip to main content
20. desember 2016

Auður lýkur doktorsgráðu frá tveimur háskólum

""

Auður H. Ingólfsdóttir varði doktorsritgerð sína "Climate Change and Security in the Arctic. A feminist analysis of values and norms shaping climate policy in Iceland" í Háskólanum á Lapplandi þann 16. desember síðastliðinn. Um er að ræða sameiginlega doktorsgráðu frá Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og Félagsvísindasviði Háskólans á Lapplandi.

Leiðbeinendur voru Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild, og Lassi Heininen, prófessor í málefnum norðurslóða við Háskólann í Lapplandi. 

Andmælendur voru þau Dr. Teemu Palosaari og Dr. Annica Kronsell. Dr. Lassi Heininen stjórnaði athöfninni.

Rannsóknarefni Auðar voru loftslagsbreytingar og öryggismál á Norðurslóðum. 

Þrátt fyrir að loftslagsbreytingar ógni bæði náttúru og samfélögum manna hefur alþjóðasamfélagið verið svifaseint að bregðast við. Hvaða pólitísku og efnahagslegu hagsmunir og menningarlegu gildi koma í veg fyrir að við grípum til aðgerða?

Auður leitar svara við þessari spurningu í doktorsrannsókn sinni. Hún beitir tilviksrannsókn til að skoða áhrif loftslagsbreytinga, pólitíska orðræðu og undirliggjandi gildi þessarar orðræðu í einu ríki á Norðurslóðum, Íslandi.

Rannsóknin byggist á kenningum feminískrar mótunarhyggju þar sem hugtök úr femínisma og kynjafræði eru notuð sem greiningartæki. Gögnin sem stuðst er við samanstanda af stefnumarkandi skjölum, viðtölum við fólk sem hefur beitt sér í umræðu um loftslagsmál og ræðum stjórnmálamanna.

Tilviksrannsóknin sýnir að þrátt fyrir að fólk upplifi loftslagsbreytingar sem ógn á Íslandi þá sé ógnin óljós og fjarlæg og litlar rannsóknir eru til um samfélagsleg áhrif hennar. Eftir greiningu á stefnumótun og orðræðu um loftslagsmál á Íslandi er niðurstaðan sú að þau undirliggjandi gildi sem vísa veginn í opinberri stefnumörkun eru hvorki afgerandi karllæg né kvenlæg. Rannsóknin dregur hins vegar fram mikilvægi þess að horfa heildstætt á umræðuna í samfélaginu og setja orðræðu um loftslagsbreytingar í samhengi við ríkjandi orðræðu um öryggi og efnahagsþróun.

Auður H. Ingólfsdóttir er með BA-gráðu í alþjóðafræði við University of Washington (Seattle), próf í hagnýtri fjölmiðlun frá HÍ og MA-gráðu í alþjóðasamskiptum frá Fletcher School of Law and Diplomacy, Tufts University (Boston). Hún hefur starfað sem lektor við Háskólann á Bifröst frá árinu 2010. Áður starfaði hún m.a. sem blaðamaður (1995-1997), sérfræðingur í umhverfisráðuneytinu (2002-2003), sem sjálfstæður ráðgjafi í umhverfismálum (2003-2006, 2007) og sem sérfræðingur á vegum íslensku friðargæslunnar í Sri Lanka og á Balkansskaga (2006-2008).

Doktor Auður H. Ingólfsdóttir brautskráðist með sameiginlega doktorsgráðu
Doktor Auður H. Ingólfsdóttir brautskráðist með sameiginlega doktorsgráðu