Átta í framboði til embættis rektors Háskóla Íslands

Ellefu umsóknir bárust um embætti rektors Háskóla Íslands fyrir tímabilið 1. júlí 2025 til 30. júní 2030, en umsóknarfrestur rann út föstudaginn 31. janúar sl. Þessi sóttu um starfið (í stafrófsröð):
- Björn Þorsteinsson, prófessor við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði á Hugvísindasviði Háskóla Íslands
- Ganna Pogrebna, prófessor, Executive Director of AI and Cyber Futures Institute, Bathurst, Orange, Sydney, Canberra, Ástralíu
- Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands og aðstoðarrektor vísinda og samfélags
- Kolbrún Þ. Pálsdóttir, dósent við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda og forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands
- Magnús Karl Magnússon, prófessor við Læknadeild á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands
- Mahdi Teymuri Garakani, rannsóknamaður við Institute for Research in Fundamental Sciences, Teheran, Íran
- Oluwafemi E Idowu, prófessor í Healthcare Leadership and Strategy, og Chief Academic Officer / Provost við Oxford Business College, Oxford, Englandi
- Remco Polman, Pro Vice-Chancellor Research & Executive Dean, við Institute of Health and Wellbeing, Federation University, Melbourne, Ástralíu
- Sashidharan Komandur, dósent við Inland Norway University of Applied Sciences (HINN), Rena, Noregi
- Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands
- Theresa C. Balser, prófessor við Raunvísindadeild University of Calgary, Calgary, Alberta, Kanada
Háskólaráð fundaði í dag og fór yfir niðurstöðu millifundanefndar ráðsins sem falið var að meta hvaða umsækjendur uppfylla skilyrði um embættisgengi. Samkvæmt reglum skólans eru þeir einir embættisgengir sem hafa prófessorshæfi, leiðtogahæfileika og skýra og metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir háskólann, ríka samskiptahæfni og víðtæka reynslu af stjórnun og stefnumótun. Niðurstaðan varð sú að átta umsækjendur teljast uppfylla skilyrði um embættisgengi. Þau eru:
- Björn Þorsteinsson, prófessor við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði á Hugvísindasviði Háskóla Íslands
- Ganna Pogrebna, prófessor, Executive Director of AI and Cyber Futures Institute, Bathurst, Orange, Sydney, Canberra, Ástralíu
- Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands og aðstoðarrektor vísinda og samfélags
- Kolbrún Þ. Pálsdóttir, dósent við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda og forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands
- Magnús Karl Magnússon, prófessor við Læknadeild á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands
- Oluwafemi E Idowu, prófessor í Healthcare Leadership and Strategy, og Chief Academic Officer / Provost við Oxford Business College, Oxford, Englandi
- Remco Polman, Pro Vice-Chancellor Research & Executive Dean, við Institute of Health and Wellbeing, Federation University, Melbourne, Ástralíu
- Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands
Háskólaráð hefur jafnframt skipað kjörstjórn vegna rektorskosninganna. Í kjörstjórn sitja: Víðir Smári Petersen, prófessor við Lagadeild, formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor við Lagadeild, Ebba Þóra Hvannberg, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, Gréta Dögg Þórisdóttir, nemandi við Lagadeild, Jens Ingi Andrésson, nemandi við Lagadeild, og Sverrir Guðmundsson, verkefnisstjóri á vísinda- og nýsköpunarsviði.
Nánar um framkvæmd kosninganna
Samkvæmt 6. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands hefur kjörstjórn fyrir hönd háskólaráðs umsjón með gerð kjörskrár, ákveður kjördag, annast framkvæmd kosningarinnar, úrskurðar í kærumálum vegna hennar, sér um utankjörfundaratkvæðagreiðslu og annað er að kosningunni lýtur.
Samkvæmt 7. gr. reglnanna skal rektorskjör skal fara fram eigi síðar en sjö vikum eftir að umsóknarfrestur rennur út, þ.e. fyrir 21. mars nk.
Atkvæðisrétt við rektorskjör hefur bæði starfsfólk og nemendur sem hér segir:
Starfsfólk: Öll þau sem skipuð eru eða ráðin í starf við háskólann og stofnanir hans í samræmi við gildan ráðningarsamning hafa atkvæðisrétt. Þau sem eru í 75% starfshlutfalli eða hærra hafa heilt atkvæði í kosningunum en þau sem eru í 37-74% starfshlutfalli hafa hálft atkvæði. Starfshlutfall sem er lægra en 37% veitir ekki atkvæðisrétt. Atkvæðisrétt hefur einnig akademískt starfsfólk á samstarfsstofnunum Háskóla Íslands, sem starfa á grundvelli sérlaga og fara þau með hálft atkvæði. Stofnanirnar sem um ræðir eru Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Landsbókasafn – háskólabókasafn.
Nemendur: Allir nemendur, sem skrásettir eru í Háskóla Íslands við upphaf kjörfundar, hafa atkvæðisrétt.
Atkvæði starfsfólks vega 70% í kjörinu og atkvæði nemenda 30%.
Eins og áður sagði skal rektorskjör fara fram eigi síðar en sjö vikum eftir að umsóknarfrestur rennur út og verður kjördagur auglýstur tryggilega innan háskólans. Kosning er rafræn og skal kjörfundur standa í rúman sólarhring frá kl. 9 árdegis fyrri daginn til kl. 17 síðdegis síðari daginn. Talning atkvæða hefst strax að kjörfundi loknum.
Sá umsækjandi telst hafa hlotið tilnefningu í embætti rektors sem hlýtur meirihluta gildra atkvæða í kosningunum. Ef enginn fær svo mörg atkvæði skal kjósa að nýju viku eftir að úrslit fyrri umferðar liggja fyrir um þá tvo sem flest atkvæði fengu.
Það kemur svo í hlut menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra að skipa háskólarektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs að loknum kosningunum. Nýr rektor Háskóla Íslands tekur við embætti 1. júlí nk. og er skipunartíminn til 30. júní 2030 sem fyrr segir.
Nánari upplýsingar um rektorskjör er að finna í 6. grein reglna fyrir Háskóla Íslands og í verklagsreglum um undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag rafrænnar kosningar til embættis rektors Háskóla Íslands og gerð rafrænnar kjörskrár.
Settar verða upp upplýsingasíður á innri vef skólans, Uglu, og íslenskum og enskum vefsíðum skólans þar sem kjósendur geta kynnt sér frambjóðendur og fyrirkomulag kosningarinnar.