Átján fá styrki til náms og rannsókna úr Watanabe styrktarsjóðnum
Fimmtán nemendur og fræðimenn við Háskóla Íslands og þrír nemendur og fræðimenn við japanska háskóla hljóta styrki úr Watanabe styrktarsjóðnum við Háskóla Íslands í ár. Styrkjum var úthlutað úr sjóðnum við hátíðlega athöfn í HÍ í dag.
Alls fá níu nemendur við HÍ styrki til skiptinámsdvalar við sjö samstarfsskóla HÍ í Japan á skólaárinu 2024-2025. Þá hljóta tveir japanskir nemendur styrki vegna námsdvalar við HÍ. Styrkir til fræðimanna nýtast þeim hins vegar til rannsóknardvalar ýmist við japanskar vísindastofnanir eða Háskóla Íslands. Stjórn sjóðsins samþykkti styrkveitingar fyrir samanlagt u.þ.b. 12 milljónir króna í ár.
Þetta er í fjórtánda sinn sem styrkjum er úthlutað úr sjóðnum en hann hefur það að markmiði að styrkja fræðileg tengsl milli Háskóla Íslands og Japans. Sjóðurinn grundvallast á fimm milljóna bandaríkjadala gjöf frumkvöðulsins og Íslandsvinarins Toshizo Watanabe til Háskóla Íslands, en um er að ræða eina stærstu peningagjöf sem einstaklingur hefur fært skólanum.
Styrkþegar og fulltrúar þeirra veittu styrkjunum viðtöku á athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands í dag. Stofnandi sjóðsins, Toshizo Watanabe, átti því miður ekki heimangengt að þessu sinni. Jón Atli Benediktsson rektor stýrði athöfninni og afhenti styrkina ásamt Kristínu Ingvarsdóttur, lektor við Mála- og menningardeild og formanni stjórnar Watanabe styrktarsjóðsins. Þau fluttu einnig stutt ávörp ásamt sendiherra Japans á Íslandi, Ryotaro Suzuki, og Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og sendiherra og stjórnarmanni í Watanabe styrktarsjóðnum. Öll brýndu þau fyrir styrkhöfum að njóta dvalarinnar sem allra best og vera meðvituð um þau tækifæri sem væru fólgin í að hljóta styrkinn og stunda nám eða rannsóknir við erlenda háskóla um tíma.
Auglýst var eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum í upphafi árs og bárust sjóðnum 32 umsóknir að þessu sinni. Eftirtaldir hlutu styrki:
Nemendur Háskóla Íslands sem hljóta styrki til skiptinámsdvalar við samstarfsskóla HÍ í Japan
- Árni Valur Þorsteinsson, BA-nemi í japönsku máli og menningu, hlaut styrk til náms við Osaka Gakuin háskóla.
- Áróra Gunnarsdóttir, BA-nemi í félagsfræði, hlaut styrk til náms við International Christian University.
- Ásgeir Rafn Sigurðsson, BA-nemi í sálfræði, hlaut styrk til náms við Seinan Gakuin háskóla.
- Bjarki Már Ólafsson, BA-nemi í japönsku máli og menningu, hlaut styrk til náms við International Christian University.
- Elvar Pierre Kjartansson, BA-nemi í japönsku máli og menningu, hlaut styrk til náms við Nagoya- háskóla.
- Heiðrún Gréta Viktorsdóttir, BA-nemi í japönsku máli og menningu, hlaut styrk til náms við Kyoto- háskóla.
- Þórhildur Bogadóttir, BA-nemi í japönsku máli og menningu, hlaut styrk til náms við Kansai Gaidai háskóla.
- Ægir Björn Frostason, BA-nemi í japönsku máli og menningu, hlaut styrk til náms við Kwansei Gakuin háskóla.
- Vincent Elijiah Merida, doktorsnemi í umhverfis- og auðlindafræði, hlaut styrk til náms við Kyoto- háskóla.
Japanskir nemendur sem hljóta styrki til námsdvalar við Háskóla Íslands
- Haki Hohjoh, BA-nemi í sagnfræði við Tokyo-háskóla.
- Seina Egawa, BA-nemi í opinberri stefnumótun við International Christian University.
Fræðimenn við Háskóla Íslands sem fá styrki til rannsóknardvalar í Japan
- Alberto Caracciolo, nýdoktor í jarðfræði, hlýtur styrk til dvalar við JAMSTEC.
- Benjamin David Hennig, prófessor í landfræði, hlýtur styrk til dvalar við Ritsumeikan-háskóla og Tohoku-háskóla.
- Branislav Bédi, verkefnastjóri í íslensku sem öðru máli, hlýtur styrk til dvalar við Tokai-háskóla.
- Geir Sigurðsson, prófessor í kínverskum fræðum og þvermenningarlegri heimspeki, hlýtur styrk til dvalar við Meiji-háskóla.
- Gregory Phipps, prófessor í enskum bókmenntum, hlýtur styrk til dvalar við Sophia-háskóla.
- Hanna Ragnardóttir, prófessor í fjölmenningarfræðum, hlýtur styrk til dvalar við Asahikawa City háskóla.
Fræðimaður við japanskan háskóla sem fær styrk til rannsóknardvalar við Háskóla Íslands
- Stefanie Stadler, prófessor í fjölmenningarlegum samskiptum við Doshisha-háskóla.
Stjórn Watanabe styrktarsjóðsins skipa Kristín Ingvarsdóttir, lektor við Mála- og menningardeild og formaður stjórnar, Toshizo "Tom" Watanabe, stofnandi sjóðsins, og Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og sendiherra.