Árangur og áhugahvöt - kveikjum neistann!
Samtök atvinnulífsins og Háskóli Íslands undirrituðu þann 1. júní sl. samning um stofnun Rannsóknarseturs um menntun og hugarfar (e. Research Center for Education and Mindset) sem hefur aðsetur við Menntavísindasvið HÍ og við starfsstöð Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum. Við sama tækifæri var undirritaður samningur um fyrsta verkefnið sem rannsóknarsetrið mun standa að í samvinnu við Vestmannaeyjabæ og Samtök atvinnulífsins.
Hermundur Sigmundsson, prófessor við Háskóla Íslands, mun leiða rannsóknir á vegum setursins ásamt teymi fræðimanna við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og NTNU háskóla í Noregi þar sem Hermundur starfar einnig. Rannsóknir á vegum setursins munu beinast að grunnfærni í læsi og lestri, stærðfræði, náttúrufræði. Einnig verður lögð áhersla á rannsóknir á tengslum hreyfingar og vitsmunastarfsemi og á mikilvægi ástríðu, gróskuhugarfars og flæðis í skólaumhverfinu. Sérstök áhersla er á að efla samstarf við atvinnulíf, sveitarfélög og skóla á landsbyggðinni. Rannsóknarsetrið mun miðla kunnáttu og niðurstöðum til samfélagsins og sinna ráðgjöf fyrir sveitarfélög. Einnig gæti setrið komið að þróun á kennsluefni í lestri, stærðfræði og náttúrufræði fyrir yngstu stig grunnskóla eða elstu stig leikskóla.
„Fyrsta verkefnið sem rannsóknarsetrið ræðst í er gríðarlega áhugavert rannsóknar- og þróunarverkefni við grunnskólann í Vestmannaeyjum“, segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, en hún mun taka sæti í stjórn setursins. „Það er tilkomið að frumkvæði Hermundar Sigmundssonar og öflugra kennara og skólastjórnenda í Eyjum sem ætla að leiða saman hesta sína til að vinna að því að nýta markvissa eftirfylgni og raunhæft námsmat til að styðja við námsárangur allra barna.“ Hún bendir einnig á að áherslur Hermundar á tengsl hreyfingar og áhugahvatar á námsárangur séu mikilvægar og að þarna gefist tækifæri til að rannsaka og þróa betur skólastarf í þeim anda. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, lýsir yfir ánægju um þennan samningi og segir: „Við Háskóla Íslands leggjum við mikla áherslu menntarannsóknir og þróun skólastarfs. Starf rannsóknasetursins styrkir þá áherslu. Ég fagna einnig samstarfi við Samtök atvinnulífsins í þessu verkefni.”
„Fyrsta verkefnið sem rannsóknarsetrið ræðst í er gríðarlega áhugavert rannsóknar- og þróunarverkefni við grunnskólann í Vestmannaeyjum“, segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, sem undirritar hér samstarfssamning við Samtök atvinnulífsins ásamt þeim Jóni Atla Benediktssyni rektor og Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra SA. MYND/Björn Gíslason
Samtök atvinnulífsins munu taka þátt í fjármögnun rannsóknarverkefna á vegum setursins. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir að miklu skiptir að efla alla menntun, nám og færni til framtíðar: „Við hjá Samtökum atvinnulífsins höfum lagt ríka áherslu á menntamálin og stígum nú spennandi skref í samstarf við fræðasamfélagið. Það er aðkallandi mál að þróa skólastarfið í takt við breytta tíma. Menntun er undirstaða sterks atvinnulífs og heilbrigðs fyrirtækjareksturs.“
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, segir að rannsóknar- og þróunarverkefnið sem ber yfirskriftina Kveikjum neistann! sé vitnisburður um þann mikla metnað og grósku sem einkennir starf grunnskólans. „Þetta verkefni byggist á samvinnu kennara, skólastjórnenda, nemenda og foreldra og það er ómetanlegt að fá til liðs við okkur fræðafólk frá háskólanum. Hermundur hefur talað fyrir ákveðnum grundvallarbreytingum á skipulagi skóladagsins, raunhæfu námsmati og markvissri eftirfylgd. Þessar hugmyndir urðu að samtali um heildstætt rannsóknar- og þróunarverkefni og markmiði er fyrst og fremst að gera gott skólastarf enn betra.“
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra er sérstakur verndari rannsóknar- og þróunarverkefnisins í Eyjum. Hún fagnar samstöðu skólasamfélagsins í Vestmanneyjum, háskólans og atvinnulífsins um að skipuleggja heildstæða rannsókn á lykilþáttum menntunar með hagsmuni nemenda í huga: „Það er ljóst að aðilar þessa samstarfs deila framtíðarsýn nýrrar menntastefnu til ársins 2030 og mikilvægi markvissrar hagnýtingar menntarannsókna til umbóta í skólastarfi. Þetta er gríðarlega spennandi og ég hlakka til að fylgjast með þeim lærdómi sem verður dreginn af verkefninu.“