Alþjóðamálastofnun hlýtur ársfundarverðlaun HÍ
Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands hlýtur verðlaun skólans fyrir frumkvæði og forystu en þau voru afhent á ársfundi HÍ í Hátíðasal Aðalbyggingar í dag að viðstaddri Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þetta er í fimmta sinn sem verðlaunin eru afhent en þau eru veitt hópum eða teymum sem þykja hafa sýnt sérstakt frumkvæði og forystu við uppbyggingu framúrskarandi starfs innan skólans. Handhafar ársfundarverðlauna HÍ eru valdir í sameiningu af rektor og forsetum allra fimm fræðasviða Háskóla Íslands.
Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands leiðir saman innlenda og erlenda rannsakendur en markmið stofnunarinnar er að auka samstarf fræðafólks, atvinnulífs, frjálsra félagasamtaka og opinberra aðila á sviði alþjóðamála. Rannsóknarsetur um smáríki, Rannsóknasetur um norðurslóðir og Höfði friðarsetur eru sjálfstæðar einingar innan Alþjóðamálastofnunar. Samstarfsaðilar stofnunarinnar eru m.a. utanríkisráðuneytið og Reykjavíkurborg, sem eiga sæti í stjórn Alþjóðamálastofnunar, en meðal annarra samstarfsaðila má nefna forsætisráðuneytið, Alþingi, skrifstofu forseta Íslands, Sjálfbærnistofnun, Mannnréttindastofnun og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála innan Háskóla Íslands.
Stofnunin á enn fremur í góðu samstarfi við systurstofnanir sínar á Norðurlöndum og erlenda háskóla á borð við MIT og Harvard, Háskólann í Victoria í Kanada, Háskólann á Möltu, Kaupmannahafnarháskóla, Háskólann í Vilníus og Oslóarháskóla. Stofnunin hefur aflað fjölmargra alþjóðlegra rannsóknarstyrkja og leiðir nú meðal annars Horizon Europe verkefni undir akademískri stjórn Max Conrad, prófessors við Stjórnmálafræðideild, nokkur Erasmus+ verkefni og Nordplus, svo að eitthvað sé nefnt.
Stendur fyrir fjölbreyttum námskeiðum, fundum og ráðstefnum um alþjóðamál
Alþjóðamálastofnun hefur á undanförnum árum náð framúrskarandi árangri og til vitnis um það er fjöldi námskeiða sem stofnunin skipuleggur í samstarfi við innlenda og erlenda aðila, skóla og atvinnulíf. Einnig gengst stofnunin fyrir margvíslegum ráðstefnum, umræðufundum, fyrirlestrum og viðburðum sem endurspegla umræðu um alþjóðamál á hverjum tíma og bera þekkingu og dugnaði stjórnenda og starfsfólks Alþjóðamálastofnunar glæsilegt vitni. Sem dæmi um fjölbreytt viðfangsefni stofnunarinnar má nefna námskeið fyrir upprennandi leiðtoga á sviði afvopnunarmála og alþjóðasamninga, rannsóknir á norðurslóðum, samfélagshraðalinn Snjallræði, friðarráðstefnu Höfða friðarseturs, sumarskóla í smáríkjafræðum og námskeið í tengslum við samstarfsverkefnið INPEACE.
Á síðasta ári gekkst Alþjóðamálastofnun fyrir á fjórða tug viðburða um jafn fjölbreytt viðfangsefni og innrásina í Úkraínu, uppgang Kína á alþjóðasviðinu, stöðu smáríkja í heiminum, lýðræði og upplýsingaóreiðu, stöðu kvenna í Belarús, áskoranir í efnahagsmálum heimsins, utanríkisstefnu Íslands, flóttafólk og öryggismál á norðurslóðum.
„Með starfi sínu hefur Alþjóðamálastofnun aflað sér trausts bæði hér heima og erlendis sem er í senn vitnisburður um vandað faglegt starf og forsenda enn frekari þróunar starfseminnar,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, þegar verðlaunin voru afhent á ársfundi skólans að viðstöddu fjölmenni.