Alsælar með skiptinámið í Singapúr
Þær Kristín Helga Jónsdóttir, Jarþrúður Pálmey Freysdóttir og Salvör Svanhvít Björnsdóttir, verkfræðinemar við HÍ, stunduðu skiptinám við National University of Singapore (NUS) á vormisseri 2022. Þær láta allar vel af námsdvölinni við skólann sem er talinn einn af fimm bestu háskólum Asíu. Samstarf Háskóli Íslands og NUS hófst árið 2020 með undirritun samnings um stúdentaskipti sem nær til fimm fræðasviða innan skólans, hugvísinda, félagsvísinda, verkfræði, raunvísinda, tölvunarfræði og umhverfisvísinda.
Kostur að fara í skiptinám við skóla þar sem enska er móðurmál
Kristín Helga segir hálfgerða tilviljun hafa ráðið því að hún valdi að sækja um skiptinám við NUS þegar hún var að skoða samstarfsskóla í boði á vefsíðu HÍ. „Ég hafði aldrei pælt mikið í Singapúr eða heyrt minnst á NUS en ég varð fljótt mjög heilluð af skólanum og hugmyndinni um að læra í einum af virtustu háskólum Asíu. Mér fannst heillandi að vera í alþjóðlegum skóla þar sem mikið er um skiptinema, talað og kennt er á ensku og mikið framboð er af áhugaverðum verkfræðiáföngum.“
Jarþrúður tekur undir með Kristínu varðandi kosti þess að fara í skiptinám til Singapúr þar sem enska er móðurmál og því hafi þær ekki þurft að læra nýtt tungumál og þannig verið auðveldara að aðlagast nýrri menningu og landi.
Salvör heimsótti Singapúr á ferð um Asíu og Suður Ameríku árið 2019 og ákvað að ef HÍ væri í samstarfi við háskóla í Singapúr myndi hún sækja um skiptinám þar. „Ég stunda nám í umhverfis- og byggingarverkfræði og National University of Singapore er númer tíu í heiminum á því sviði.“
Fólkið og vináttan stóð upp úr
Þær eru sammála um að það sem stóð upp úr námsdvölinni hafi verið allt fólkið sem þær kynntust og vináttan sem myndaðist milli þeirra þriggja. „Það sem stóð helst upp úr fyrir mér var hvað fólk er vinalegt. Held maður hafi eiginlega bara soldið áttað sig á því eftir á að allir hinir skiptinemarnir eru í nákvæmlega sömu stöðu og þú. Það þekkir enginn neinn svo það eru allir mjög til í að kynnast öllum og einnig að hjálpa hvoru öðru ef það er vandræði með eitthvað,“ segir Jarþrúður. Þær nefna einnig vináttuna sem myndaðist milli þeirra þriggja meðan á dvölinni stóð.
Salvör segir að það hafi verið ómetanlegt að fá að kynnast annars konar háskólaumhverfi en á Íslandi. Hún bjó í stúdentaíbúð á háskólasvæðinu með þremur öðrum skiptinemum. „Ég þurfti að bjarga mér sjálf í nýju landi og nýju umhverfi og eignaðist mikið af góðum vinum og minningum í leiðinni. Ég ferðaðist til Kambódíu, Malasíu, Taílands og Fillippseyja með þessum nýju vinum sem var ótrúlega skemmtilegt.“
Hundrað og fimmtíu hektara háskólasvæði
Það kom þeim á óvart hversu auðvelt reyndist að aðlagast nýju umhverfi og háskólalífi hinum megin á hnettinum. Þær höfðu alltaf nóg fyrir stafni enda möguleikar á að rækta áhugamál innan háskólans margir. „Á háskólasvæðinu voru sundlaugar, fótboltavöllur, körfuboltavöllur, tennisvöllur og margt fleira,“ segir Salvör. Hún bætir við að háskólasvæðið hjá NUS sé um 150 hektarar að stærð en svæði Háskóla Íslands sé u.þ.b. 10 hektarar. „Ég skráði mig í boxfélag fyrir byrjendur og einnig ljósmyndafélag. Flestir nemendur í háskólanum voru í að minnsta kosti einu félagi yfir önnina.“
Þær eru sammála um að námið í NUS hafi verið þónokkuð frábrugðið náminu í HÍ. Kristín Helga segir að það hafi verið minna um verkefnaskil yfir misserið en hún átti að venjast í HÍ. „Í staðinn fyrir t.d. vikuleg heimadæmaskil, eins og tíðkast oft í verkfræðinni í HÍ, þá voru kennarar oft með þrjú til fjögur verkefni yfir önnina sem töldu til lokaeinkunnar auk misserisprófa. Álagið var því minna yfir önnina í samanburði við HÍ en á sama tíma meiri pressa að fylgja námsefninu sjálfur eftir.“
Einkunnagjöf var einnig öðruvísi háttað þar sem lokaeinkunnir í NUS eru gefnar á svokallaðri Bell-kúrfu þannig að hver og einn fær einkunn í samanburði við hvernig hinir í áfanganum standa sig.
Setið úti allan veturinn að læra
„Það kom á óvart hvað íbúar Singapúr hata veðrið þar! Þau eyða helst öllum deginum inni í herbergi með góðri loftkælingu og fara einungis út til þess að koma sér á milli staða. Þeim fannst alveg furðulegt þegar við skiptinemarnir vorum t.d. úti í sólbaði,“ segir Salvör. Jarþrúður segir að það hafi verið sérstakt og skemmtilegt að geta setið úti að læra allan „veturinn“. Þær mæla allar klárlega með skiptinámi við NUS og eru sammála um að vel sé haldið utan um skiptinemana og margt í boði fyrir utan námið.
National University of Singapore (NUS) er í 19. sæti á Times Higher Education (THE) listanum og er jafnan talin einn af fimm bestu háskólum Asíu. Skólinn er í miðborg Singapúr og yfir 40 þúsund nemendur stunda þar nám í sautján deildum.
Nemendur í grunnnámi við HÍ geta sótt um að fara í skiptinám til NUS. Frestur til að sækja um skiptinám skólaárið 2023-2024 er 1. febrúar 2023.