Skip to main content
9. september 2020

Almenningur virkjaður í gagnaöflun um hvali

""

„Þær jákvæðu breytingar hafa átt sér stað á Íslandi að áhugi og eftirtekt almennings á hvölum hefur verið að aukast, bæði meðal ferðamanna sem gjarnan koma hingað í þeim eina tilgangi að sjá hvali en jafnframt meðal Íslendinga. Við teljum að þessi aukni áhugi feli í sér tækifæri til að fá almenning með okkur í lið,“ Þetta segir Edda Elísabet Magnúsdóttir, nýdoktor í líffræði við Háskóla Íslands og verkefnisstjóri WhaleBase-verkefnisins. Hún hefur ásamt tölvunarfræðingum og fleiri líffræðingum unnið að nýrri vefsíðu um hvali sem hefur það markmið að virkja bæði sérfræðinga og almenning um allt land í að afla betri gagna um hvalagengd í kringum landið.

„Í hafinu umhverfis Ísland er að finna dýrmætt og afar fjölbreytt lífríki þar sem hvalir spila stórt hlutverk. Vegna lífshátta þeirra er sérlega krefjandi að safna gögnum um hvali enda lifa þeir allt sitt líf í sjó og oft úti á reginhafi og því aðgengi að þeim takmarkað. Mat á útbreiðslu og fjölda hvala fela gjarnan í sér kostnaðarsama leiðangra sem þó aðeins gefa skyndimynd af fjölda og útbreiðslu hvala hverju sinni. Þar sem hvalir sjást reglulega frá landi, allan ársins hring, og verða gjarnan á vegi sjómanna og annarra sjófarenda er gífurlega verðmætt að efla leiðir til að safna upplýsingum um hvali frá þeim hópi fólks“ segir Edda, aðspurð um tilurð verkefnisins.

Ætlunin er því að byggja upp kerfi sem hvetur almenning til að afla gagna um hvali við Ísland. „Svokölluð borgaravísindi (e. Citizen Science) er einstaklega skilvirk leið til að stuðla að öflun gagna í vísindalegum tilgangi sem annars hefðu ekki verið aðgengileg vísindunum. Á sama tíma gefst einstakt tækifæri til að miðla áreiðanlegri fræðslu og upplýsingum um hvali til almennings,“ segir Edda og bendir á að nokkuð löng hefð sé fyrir því að almenningur og áhugafólk komi að talningu fugla og sela hér á landi. Áhugi almennings til að leggja slíkt af mörkum sé töluverður hér, ekki síst í smærri byggðarlögum þar sem íbúar eru oft í miklum tengslum við náttúruna.

Edda við hvalarannsoknir asamt samstarfsfolki

Edda ásamt samstarfsfólki við hvalarannsóknir við Íslandsstrendur.

Breytingar á lífríki kalla á aukna gagnaöflun

Edda hefur allan sinn háskólanáms- og vísindaferil sinnt rannsóknum á hvölum, m.a. samskiptum þeirra í undirdjúpunum og hegðun þeirra á mismunandi árstímum. „Við höfum orðið vör við verulegar breytingar á atferli og fjölda hvala umhverfis landið síðustu ár. Þessar breytingar haldast í hendur við breytingar í vistkerfi sjávar á norðurslóðum. Lítið er hins vegar vitað um það hvernig loftslagsbreytingar munu hafa áhrif á hvalasamfélög á norðurslóðum og hvað þá vistkerfið í heild sinni. Ein þeirra breytinga sem við teljum okkur sjá er aukning ákveðinna tegunda á tilteknum svæðum og þá mögulega fækkun annarra. Jafnframt virðist vera aukning í hvalreka, bæði lifandi og dauðra hvala, og aukin tíðni þess að hvalir flækist í veiðarfærum. Þessar aðstæður hafa eflt okkur í að leita allra leiða til að safna öllum mögulegum upplýsingum sem geta leitt til aukinnar þekkingar og skilnings á hvölum við Ísland,“ segir hún.

Edda bætir við að kerfisbundnar hvalatalningar hafi farið fram nokkrum sinnum umhverfis landið en þær séu framkvæmdar innan skamms tímaramma og gefi því takmarkaðar upplýsingar. „Mikilvæg gögn um hvali hafa safnast á síðustu árum frá þeim afmörkuðu svæðum þar sem hvalaskoðun er virk stóran hluta árs og hafa reynst ótrúlega verðmætar fyrir vísindasamfélagið en vöntun er á betri upplýsingum frá öðrum svæðum umhverfis landið. Með þátttöku almennings í öflun upplýsinga um hvali umhverfis landið fæst mun breiðara gagnasafn á mun fjölbreyttari svæðum en áður hefur reynst gerlegt, bæði með athugunum af landi og skipum og smærri bátum,“ segir hún. 

Teymið sem unnið hefur að WhaleBase-verkefninu í sumar. Frá vinstri: Kári Halldórsson, aðjunkt í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík, tölvunarfræðingarnir Egill Ragnarsson og Ágúst Friðjónsson og Edda Elísabet Magnúsdóttir, nýdoktor í líffræði við Háskóla Íslands.

Þróa skráningar- og upplýsingakerfi með hvalavísi

Til þess að finna skilvirka leið til að safna saman upplýsingum frá hverjum þeim sem hefur séð til hvala og hefur áhuga á að deila þeim upplýsingum þarf notendavænt og aðgengilegt kerfi sem auðveldar slíka skráningu. Að slíku kerfi vinna Edda og samstarfsfólk innan WhaleBase-verkefnisins. „Þegar slík gögn fara að safnast upp myndast verulega verðmætur gagnagrunnur um viðveru hvala umhverfis landið. Til að efla þekkingu og skilning okkar á mikilvægum búsvæðum hvala víðs vegar í kringum landið á ólíkum árstíðum er mikilvægt að ná til þeirra sem reglulega sækja sjóinn alls staðar í kringum landið og þeirra sem dvelja í styttri eða lengri tíma einhvers staðar við ströndina og geta skráð hjá sér upplýsingar um þá hvali sem þau verða vör við,“ segir hún.

Kerfið verður fyrst um sinn í formi vefsíðu sem tveir nýútskrifaðir tölvunarfræðingar frá Háskóla Íslands, þeir Egill Ragnarsson og Ágúst Friðjónsson, hafa unnið að í sumar í samstarfi við Eddu og Kára Halldórsson, aðjúnkt í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík, og með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Þá koma hvalarannsóknateymi við Háskólann í Edinborg í Skotlandi og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík að verkefninu ásamt teymi sem hefur unnið að þróun á hvalavöktunarappinu WhaleAlert í Bandaríkjunum. 

„Egill og Ágúst hafa unnið að því að þróa WhaleBase-vefsíðuna frá grunni og byggja upp frumgerð af skráningar- og upplýsingakerfi til að skrásetja hvali sem sést hafa við landið. Þeir munu leggja mikið púður í áhugaverða framsetningu á gögnum sem safnast í gagnagrunninn og geta nýst almenningi og rannsakendum. Við vonumst til þess að frumgerð síðunnar með tölfræðilegri og landfræðilegri framsetningu á gögnum og hvalavísi með upplýsingum um hvernig megi þekkja tiltekna hvali í sundur komist í notkun á haustmánuðum,“ segir Edda. 

Hún bætir við að í framhaldi af prófunum verði sótt um frekari styrki til að halda verkefninu áfram og virkja gagnaöflunarkerfið á Íslandi. „Við væntum þess að WhaleBase-heimasíðan og gagnagrunnurinn muni byggjast á víðtæku neti tengiliða sem leggja til upplýsingar um hvali á sínum svæðum eða á ferðum sínum, hvort sem það er almenningur eða sérfræðingar.“

hvalur a sundi

„Svokölluð borgaravísindi (e. Citizen Science) er einstaklega skilvirk leið til að stuðla að öflun gagna í vísindalegum tilgangi sem annars hefðu ekki verið aðgengileg vísindunum. Á sama tíma gefst einstakt tækifæri til að miðla áreiðanlegri fræðslu og upplýsingum um hvali til almennings,“ segir Edda og bendir á að nokkuð löng hefð sé fyrir því að almenningur og áhugafólk komi að talningu fugla og sela hér á landi.

Kerfið getur nýst til að aðstoða hvali í neyð

Í framhaldinu verður skoðað hvort fýsilegt sé að yfirfæra heimasíðuna í smáforrit (app). „Við væntum þess að síðan muni nýtast sem upplýsingaveita um hvali, atferli og búsvæði þeirra við Ísland með áhugaverðri tölfræði sem gæti reynst mörgum gagnleg, hvort sem það er skólum, aðilum í ferðaþjónustunni, vísindamönnum eða almenningi. Markmið verkefnisins er jafnframt að byggja upp tenglsanet þeirra sem hafa áhuga á að safna upplýsingum um hvali og deila reynslu sinni. Þannig aukast tækifærin til ýmiss konar samstarfs vísindamanna, almennings og atvinnulífsins,“ segir Edda enn fremur.

Verkefnið geti þannig nýst sveitafélögum og atvinnulífi í uppbyggingu á náttúrutengdri ferðaþjónustu á nýjum svæðum, til stefnumörkunar og fræðslu um náttúruvernd og starfandi hvalaskoðunarfyrirtækjum og öðrum sem sinna vísindamiðlun til almennings, svo sem náttúrutengdum söfnum víða um land. Þá verði mikil áhersla á samstarf við smærri útgerðir og sjávarbyggðarlög sem oft eru í einstakri stöðu til að skrásetja ferðir hvala. 

„Stefnt er að því að síðan geti jafnframt aukið og auðveldað boðleiðir frá almenningi til viðbragðsteymis um hvali í neyð verði fólk vart við slík tilfelli,“ bætir Edda við.
Hún bendir jafnframt á að ef vel takist til safnist með tímanum gífurlega verðmæt gögn um fjölda hvala sem sjást við Ísland með tilliti til tegundasamsetningar á ólíkum svæðum, árstíðum og árum. „Með því móti fæst einstök yfirsýn sem hingað til hefur verið illfáanleg. Átak sem þetta er sérlega mikilvægt núna þar sem breytingar í hafinu verða sífellt sjáanlegri og því rík ástæða til að efla gagnaöflun um lífríki hafsins. Viðvera hvala, útbreiðsla og atferli gefa sterkar vísbendingar um ástand hafsins,“ segir hún að endingu. 

Hvalur stekkur