Akademískur þroski og ítölsk menningararfleifð í hjarta Napólí
Aurora er samstarf rannsóknaháskóla innan Evrópu sem vinna saman að því að þróa alþjóðlega háskólamenntun og Háskóli Íslands hefur tekið þátt í samstarfinu frá upphafi. Abdullah, meistaranemi í tölvunarfræði, og Grace A. Kakama, doktorsnemi í umhverfis- og auðlindafræði, sátu árlega ráðstefnu Aurora í maí síðastliðnum í gegnum Aurora Student Ambassador verkefnið og hér á eftir fer reynslusaga þeirra af samstarfinu. Hægt er að skrá sig í Ambassador-verkefni þessa skólaárs hér.
Fortíð og nýsköpun í Napólí
Háskóli Íslands sendi nemendur í fyrsta skiptið á árlega ráðstefnu Aurora á grundvelli Ambassador-verkefnisins í vor. Ráðstefnan veitti okkur tækifæri til að taka þátt í gagnlegum umræðum og vinnustofum og skapa menningartengsl sem stuðla að áframhaldandi velgengni samstarfsins. Með þátttöku okkar ýttum við undir sterkari tengsl þvert á landamæri og studdum við framvindu alþjóðlegra markmiða í menntun.
Í ræðu við setningarathöfn ráðstefnunnar lagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og þáverandi forseti Aurora, áherslu á þrjár grunnstoðir allra menntastofnana: samvinnu, alþjóðavæðingu og samfélagsáhrif. Ávarp hans féll vel að áherslum ráðstefnunnar sem voru stuðningur við samstarfsverkefni, þróun alþjóðlegrar samvinnu og þýðingarmikið framlag háskólanna til aukinnar velsældar í samfélögum.
Federico II háskólinn hélt ráðstefnuna en það er elsta ríkisrekna mennta- og rannsóknastofnun heims á háskólastigi. Ráðstefnuborgin, hin líflega Napólí, endurspeglaði vel þema ráðstefnunnar sem var nýsköpun sem byggist á sterkum sögulegum grunni. Grískir landnemar stofnuðu borgina á 8. öld fyrir Krist og hún býr að arfleifð sem staðist hefur árþúsundir. Þetta kraftmikla samspil fortíðar og nútíðar setti svip sinn á ráðstefnuna alla og minnti þátttakendur á að framtíð menntamála mótast óhjákvæmilega af djúpstæðum skilningi á sameiginlegri sögu okkar.
Framtíð menntunar í Evrópu mótuð
Stærsti hluti dagskrár ráðstefnunnar snerist um sameiginlegar alþjóðlegar námsleiðir og samræður um hvernig evrópsk háskólanet geta ýtt undir samfélagsleg áhrif háskóla, átt samráð við hagsmunaaðila og eflt frumkvöðlastarf í samfélaginu. Eitt af aðalviðfangsefnunum hverfðist um að skoða hlutverk borgaravísinda og þátttökulýðræðis sem drifkrafts við að stuðla að samfélagslegri þátttöku og nýsköpun í menntun. Þau sem tóku til máls á ráðstefnunni lögðu mörg hver áherslu á hlutverk evrópskra háskólaneta við að knýja áfram samfélagsbreytingar og stuðla að nýsköpun í námi og kennslu.
Skuldbinding til sjálfbærni
Á ráðstefnunni var jafnframt hugað að sjálfbærri framtíð og þar m.a. byggt á fyrri vinnu innan Aurora. Þátttökuskólarnir undirrituðu allir heildstæða sjálfbærniáætlun sem kveður á um hvernig Aurora-skólarnir hyggjast vinna saman að því að draga úr umhverfisáhrifum í starfi sínu. Helstu þættir hennar snerta sameiginlegt átak og skuldbindingu til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda auk sameiginlegra aðgerða í þágu sjálfbærni. Áætlunin undirstrikar skuldbindingu Aurora um að efla umhverfislega ábyrgð innan skólanna allra.
Rödd nemenda
Af öðrum hápunktum ráðstefnunnar má nefna pallborð nemenda sem nýttist okkur afar vel. Pallborðið undirstrikaði hversu mikilvægu hlutverki stúdentar gegna innan Aurora og hvernig þeir stuðla að framgangi markmiða samstarfsins. Rætt var um virkni nemenda í ýmsum verkefnateymum Aurora, ekki síst framlag þeirra og frumkvæði í mismunandi verkefnum. Einnig var fjallað um þær áskoranir sem nemendur og verkefnateymi standa frammi fyrir og hvernig aðildarskólarnir geta unnið saman að því að sigrast á þeim.
Varanleg áhrif
Að fá tækifæri til að sækja árlega ráðstefnu Aurora var mikilvæg reynsla, bæði á persónulegan og akademískan máta. Sýn okkar á alþjóðlegt samstarf og háskólamenntun víkkaði og gerði okkur enn staðfastari í að leggja okkar af mörkum í að auka tækifæri til náms á alþjóðavettvangi. Ráðstefnan veitti okkur ómetanlega innsýn í málaflokkinn og gaf okkur færi á að stækka tengslanetið. Hún styrkti okkur auk þess í að vera talsmenn mikilvægis gæða í öllu akademísku starfi og samskiptum ólíkra menningarheima á vegum Aurora-samstarfsins.