Skip to main content
25. maí 2018

Á þriðja tug brautskráist úr Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna

Tuttugu og þrír nemendur með diplóma á meistarastigi í alþjóðlegum jafnréttisfræðum útskrifuðust frá Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSÞ) við Hugvísindasvið Háskóla Íslands í gær. Þetta er stærsti útskriftarhópur skólans hingað til en í honum eru fjórir karlar og nítján konur frá fjórtán löndum. Nemendur komu að þessu sinni frá samstarfslöndum Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu, Malaví, Mósambík, Úganda og Palestínu, auk nema frá Afganistan, Líbanon, Túnis og Nígeríu. Þá stunduðu nemendur frá Búrkína Fasó, Síerra Leóne, Kenía, Serbíu, Svartfjallalandi og Bosníu-Hersegóvínu í fyrsta sinn nám við skólann.

Þessi útskriftarárgangur er sá ellefti frá upphafi en skólinn tók til starfa á haustönn árið 2009 og eru útskrifaðir nemendur frá skólanum orðnir 109 talsins. Markmið skólans er að veita sérfræðingum frá þróunarlöndum, átakasvæðum og fyrrverandi átakasvæðum þjálfun á sínu sérsviði og gera þeim betur kleift að vinna að jafnri stöðu karla og kvenna í heimalöndum sínum.

Við útskriftina fluttu ávörp, Sturla Sigurjónsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, og Guðmundur Hálfdánarson, forseti Hugvísindasviðs. Þeir óskuðu báðir nemendum til hamingju með árangurinn og áfangann en Guðmundur þakkaði þeim sérstaklega fyrir að hafa auðgað háskólasamfélagið þessa vorönn.

Vigdís Finnbogadóttir, sem jafnframt er verndari Jafnréttisskólans, afhenti verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni sem kennd eru við hana. Verðlaunin komu í hlut Masha Durkalić frá Bosníu-Hersegóvínu fyrir rannsóknaráætlun sem ber heitið „Feminism Activism in Bosnia Herzegovina, Croatia and Serbia: Political Potentials for Social Change“. Leiðbeinandi hennar var Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. 
 

Amuron Freda Imma frá Úganda var valin af samnemendum sínum til að halda erindi fyrir hönd útskriftarnema. Hún gerði orð Mahatma Ghandi að sínum og sagði samnemendur sína þurfa að byrja á sjálfum sér til að koma af stað þeim breytingum sem þeir vildu sjá í heiminum. Þeirra biði sú ábyrgð að tala fyrir hönd þeirra sem ekki eru jafn lánsamir og útskriftarnemar skólans um aðgengi að námi og þekkingu. Af nógu væri að taka við að rétta hlut kvenna víða um heim. Hún sagði birtu stafa af þessum nemendahópi, þau hefðu kveikt á ljósi, eitt af öðru, sem þau myndu nú láta lifa áfram hvert í sínu heimalandi með sannfæringu sinni og staðfestu. 

Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Jafnréttisskólans, stýrði athöfninni og afhenti nemendum útskriftarskírteini ásamt Guðmundi Hálfdánarsyni og Vigdísi Finnbogadóttur.

Útskriftarhópurinn 2018 úr Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna glaðbeittur að lokinni athöfn.