Skip to main content
2. desember 2024

Á áttunda tug doktora brautskráður frá HÍ 

Á áttunda tug doktora brautskráður frá HÍ  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hátíð brautskráðra doktora við Háskóla Íslands var fagnað í þrettánda sinn í Hátíðasal skólans í dag, 2. desember, en þar voru 73 doktorar sem lokið hafa prófi frá skólanum á síðustu tólf mánuðum heiðraðir með gullmerki skólans. 

Hátíðin var fyrst haldin á aldarafmælisári Háskóla Íslands, 2011, og alla jafna er hún haldin á fullveldisdaginn. Vegna þingkosninga var ákveðið að færa hátíðina yfir á 2. desember og hana sóttu bæði nýútskrifaðir doktorar og leiðbeinendur þeirra ásamt fjölda gesta sem samfögnuðu með þeim. 

Doktorarnir 73 koma af öllum fimm fræðasviðum skólans og í hópnum eru 34 karlar og 39 konur. Sameiginlegar doktorsgráður með öðrum háskólum eru tvær talsins auk þess sem á árinu brautskráðist einn nemandi sameiginlega frá tveimur deildum skólans. Þá eru 36% doktoranna með erlent ríkisfang. Brautskráðir doktorar frá stofnun Háskóla Íslands telja nú á annað þúsund en sá áfangi náðist í hitteðfyrra að þúsundasti doktorinn brautskráðist frá skólanum. 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, ávarpaði doktorsnemana og færði þeim hamingjuóskir frá skólanum og þá stýrði Ingibjörg Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, afhendingu gullmerkja skólans við athöfnina. 

Enn fremur flutti Anna Þóra Hrólfsdóttir, doktor í matvælafræði, ávarp fyrir hönd brautskráðra doktora. „Samstarf háskóla við atvinnulífið er ekki bara mikilvægt heldur nauðsynlegt, þar sem það dýpkar ekki aðeins skilning okkar á raunverulegum áskorunum heldur eykur það einnig hagnýtt gildi rannsókna okkar allra. Í heimi þar sem sjálfbærni, nýsköpun og tækniframfarir eru í brennidepli verða rannsóknir sífellt mikilvægari. Á sviði matvælafræðinnar, eins og á fjölmörgum öðrum fræðisviðum, er þörfin fyrir nýjar lausnir brýn, hvort sem það snýst um að nýta auðlindir á skilvirkari hátt, þróa vistvænar framleiðsluaðferðir, eða að leysa vandamál tengd loftslagsbreytingum og fæðuöryggi,“ sagði Anna Þóra í ræðu sinni.

Þá ávarpaði Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix, gesti við athöfnina en hún er meðal þeirra nærri 200 doktora sem á undanförnum tveimur áratugum hafa lokið prófi frá skólanum með stuðningi Háskólasjóðs h/f Eimskipafélags Íslands. Sjóðurinn fagnar 60 ára afmæli í ár og hefur stutt fjölbreyttan hóp doktorsnema til afreka víða í samfélaginu og um allan heim. 

Doktorar leggja mikið til vísindastarfs Háskóla Íslands

Doktorsnám hefur eflst gríðarlega í Háskóla Íslands á þessari öld og til marks um það voru fjórir nýir doktorar brautskráðir frá háskólanum árið 2001, en undanfarinn áratug hafa þeir að meðaltali verið um 70 á ári. Þetta má m.a. þakka öflugum styrktarsjóðum eins og Háskólasjóði h/f Eimskipafélags Íslands og góðum árangri í styrkjasókn á erlendum vettvangi. 

„Öflugt doktorsnám við Háskóla Íslands hefur styrkt stöðu hans sem alþjóðlega viðurkennds rannsóknaháskóla. Doktorsnám við skólann er eftirsótt af innlendum og erlendum nemendum og verkefnin eru iðulega unnin í alþjóðlegu samstarfi. Um leið gerir það skólanum kleift að sinna hlutverki sínu sem stærsti og breiðasti háskóli þjóðarinnar, háskóli sem brautskráir nemendur á öllum námsstigum á 5 fræðasviðum og í 26 deildum,“ segja þau Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Ingibjörg Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, í ávarpi sínu í riti sem gefið er út í tilefni hátíðarinnar. Þar er að finna yfirlit yfir brautskráða doktora á tímabilinu 1. desember 2023 til 1. desember 2024 og tölfræði um þróun doktorsnáms við HÍ á undangengnum árum. 

Háskóli Íslands óskar þeim stóra og glæsilega hópi sem lokið hefur doktorsnámi frá skólanum undanfarna 12 mánuði innilega til hamingju með áfangann og velgengni í þeim verkefnum sem taka við að lokinni útskrift.

Nýir doktorar sem áttu heimangengt á athöfnina ásamt rektor, aðstoðarrektor vísinda, forsetum fræðasviða, Eddu Sif Pind Aradóttur, framkvæmdastýru Carbfix, og Vigdísi Hrafnkelsdóttur, framkvæmdastjóra Háskólasjóðs Hf. Eimskipafélags Íslands.