270 milljónir til rannsókna á gláku
Gauti Jóhannesson, augnlæknir og dósent við Háskóla Íslands, hefur fengið stóran rannsóknarstyrk frá sænsku vísindastofnuninni Vetenskapsrådet til að rannsaka nýja meðferð við gláku. Styrkurinn er til fjögurra ára og nemur tæpum 270 miljónum íslenskra króna. Veittir voru styrkir til 30 verkefna að þessu sinni og var styrkur Gauta sá hæsti í Svíþjóð.
Styrkurinn verður nýttur til rannsóknarinnar „Swedish Glaucoma Nicotinamide Trial“ sem er stór fjölsetra slembiröðuð klínísk rannsókn sem framkvæmd er á fjölda augndeilda í Svíþjóð. Í rannsókninni verður nýgreindum og áður meðferðarlausum glákusjúklingum slembiraðað í meðferð með nikotínamíði, sem er ein tegund B3 vítamíns, í háum skömtum eða lyfleysu. Sjúklingunum verður síðan fylgt eftir í tvö ár og hraði sjónsviðsskerðingar á milli hópanna rannsakaður.
Reyna að bremsa glákuferlið á nýjan hátt
Gauti er dósent í augnsjúkdómafræði við Læknadeild Háskóla Íslands en starfar einnig sem dósent við Háskólann í Umeå og yfirlæknir augndeildarinnar við háskólasjúkrahúsið í Umeå. Hann segir að styrkurinn hafi verið ákaflega kærkominn og muni nýtast vel í komandi rannsóknum.
„Gláka er augnsjúkdómur sem veldur því að sjóntaugin hrörnar og veldur stigvaxandi skaða á sjóntaugarósi og getur að lokum valdið blindu. Öll núverandi meðferð snýst um að lækka augnþrýsting með augndropum, geislameðferð eða skurðlækningum en þrátt fyrir lágan þrýsting heldur mörgum sjúklingum áfram að versna og talsverður fjöldi verður blindur þrátt fyrir meðferð. Þörfin fyrir öðruvísi meðferð er því mikil og við bindum miklar vonir við að nikotinamíðmeðferð geti varið sjóntaugina og hægt á glákuferlinu á annan hátt en augnþrýstingslækkandi meðferð. Það voru því miklar gleðifregnir að heyra að okkur var veittur þessi risastyrkur því það mun gera okkur kleift að framkvæma þessa stóru rannsókn. Vonandi getur hann einnig auðveldað aukið samstarf á milli augndeildanna í Reykjavík og Umeå,“ segir Gauti Jóhannesson.