Skip to main content

Megindleg sálfræði

Megindleg sálfræði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Megindleg sálfræði, kjörsvið í hagnýtri sálfræði, veitir nemendum alhliða þjálfun sem miðast við að öðlast færni í að beita megindlegum aðferðum við hagnýt verkefni, hafa nýjustu þekkingu á þeim aðferðum, þekkja kosti þeirra og annmarka og geta fjallað um ofangreint í ræðu og riti.

Undirstaða vísindalegrar jafnt sem hagnýtrar þekkingar er í dag byggð á megindlegum aðferðum. Mikil eftirspurn er eftir megindlegri færni: Hún er undirstaða fræðilegra rannsókna, opinberrar ákvarðanatöku og umræðu í þjóðfélaginu. Mikilvægar ákvarðanir byggja í dag á sífellt flóknari meginlegri nálgun. 

Útskrifaðir nemendur hafa gengið að störfum hjá opinberum stofnunum svo sem Hagstofu Íslands og Menntamálastofnun, sérfræðistörfum hjá rannsóknarstofnunum háskólanna og hjá fyrirtækjum í einkageiranum. Einnig er í boði doktorsnám að loknu meistaraprófi í megindlegri sálfræði.

Í náminu er áhersla á sálmælingar, mat á sálfræðilegum mælitækjum og megindlegar rannsóknir. Áhersla er á að nemendur öðlist þekkingu og færni á sviði þáttalíkana, fái einhverja forritunarreynslu, öðlist góðan grunn í tölfræðiumhverfinu R og RStudio og séu færir um að fylgja hraðri þróun á þeim sviðum. 

Námskeið

Auka lokaverkefnis eru fimm skyldunámskeið í Megindlegri sálfræði.

Líkön fyrir undirliggjandi breytur kynna fjölbreyttar aðferðir til að vinna með undirliggjandi breytur svo sem mælingar á persónuleika, viðhorfum, tilfinningum og öðrum mannlegum eiginleikum.
Í fyrra námskeiðinu er grunnur slíkra líkana kynntur og unnið með kenningar og tilgátur í staðfestandi þátta- og formgerðarlíkönum.
Í síðara námskeiðinu eru tvennskonar viðfangsefni: A) líkön sem gefa traustar einstaklingsniðurstöður og B) langtímalíkön fyrir þroska eða þróun einstaklinga, líkön fyrir samspil breyta yfir tíma og líkön fyrir örar mælingar með snjalltækjum—slík líkön njóta vaxandi vinsælda m.a. í klínískum rannsóknum á meðferð. 

Gerð sjálfsmatskvarða fjallar um sjálfsmatskvarða, gerð þeirra og fræðilegar undirstöður. Áherslan er á að nemendur hljóti raunhæfa þjálfun í gerð slíkra kvarða og kunni að bregðast við helstu álitamálum sem upp geta komið. 

Málstofa I og II byggja á frjálsri umræðu um helstu sérsvið og viðfangsefni megindlegrar sálfræði. Nemendur kynna ýmis álitamál byggt á greinum í fræðiritum og stuðla að opinni umræðu í hópnum. Í síðara námskeiðinu bætast við ýmis álitamál í úrvinnslu með R, myndræn framsetning og hvernig sé eðlilegast að túlka og taka afstöðu til flókinna tölfræðilegra niðurstaðna. Annars árs nemendur kynna lokaverkefni sín. 

Mikill fjöldi valnámskeiða er í boði, m.a. grunnnámskeið í tölvunarfræði, R námskeið, stærðfræðigreining, slembilíkön, aðfallsgreining hlutfalla, lifunargreining og ýmsar tölvuaflsháðar aðferðir svo sem endurúrtaka, klasagreining og trjáaúrvinnsla.

Sjá nánari upplýsingar um kjörsviðið Megindleg sálfræði og inntökuskilyrði í Kennsluskrá HÍ.

Sjá einnig upplýsingar um nauðsynleg fylgigögn með umsókn og umsókn um framhaldsnám við HÍ.

Tengt efni
Megindleg sálfræði