Tungumálakennsla, MT


Tungumálakennsla
MT – 120 einingar
Tungumálakunnátta er mikilvæg í vaxandi fjölmenningarsamfélagi. Námið byggir á uppeldis- og kennslufræði og kjörsviði þess tungumáls sem þú velur. Námið er hagnýtt að hluta með kennslu á vettvangi.
MT gráða í tungumálakennslu uppfyllir öll skilyrði til að fá réttindi sem kennari í tungumáli kjörsviðs.
Skipulag náms
- Haust
- Kennsla erlendra tungumála og vettvangsnám 1
- Inngangur að kennslufræði
- Vor
- Kennsla erlendra tungumála og vettvangsnám 2
- Námskrá og skólaþróun í framhaldsskólum
Kennsla erlendra tungumála og vettvangsnám 1 (ÍET105F)
Nemendur kynnast kennsluaðferðum, verkefnagerð og námsmati í kennslu erlendra tungumála og eru þjálfaðir í að ígrunda eigin afstöðu til náms og kennslu. Gert er ráð fyrir að þátttakendur ígrundi, þrói og dýpki hugmyndir sínar um tungumálanám og kennslu þannig að þeir verði betur í stakk búnir til að kenna og þróa sig sem kennarar. Viðeigandi kenningar, hugtök og aðferðir varðandi nám og kennslu erlendra tungumála eru kynntar, rannsakaðar og ræddar.
Innan námskeiðsins kynnast nemendur umgjörð og innra starfi skóla. Auk þess fá nemendur nokkra þjálfun í kennslu sinnar greinar. Starfsþjálfun fer fram í framhaldsskólum með megináherslu á faggreinakennslu og tekur mið af starfstíma framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir umtalsverðri viðveru nemenda í skólum. Starfsþjálfun er skipulögð í samstarfi við valda skóla og felst m.a. í þátttöku í almennu skólastarfi, aðstoð við kennslu og æfingakennslu. Starfsþjálfun á haustmisseri er tengd námskeiðinu Inngangi að kennslufræði og skal þetta námskeið því tekið samhliða því.
Inngangur að kennslufræði (KEN104F)
Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist innsýn inn í íslenskar og alþjóðlegar rannsóknir og kenningar á sviði skólastarfs. Meginviðfangsefni námskeiðs eru kenningar um og rannsóknir á námi, samskiptum og kennsluháttum. Einnig eru kenningar um og rannsóknir á starfi og fagmennsku kennara, svo og lagaákvæði, siðareglur og þess háttar, meðal meginviðfangsefna námskeiðsins.
Við val viðfangsefna og skipulag námskeiðsins er tekið mið af því að meginstarfsvettvangur þeirra sem taka námskeiðið verður í framhaldsskóla.
Kennsla erlendra tungumála og vettvangsnám 2 (ÍET211F)
Nemendur kynnast kennsluaðferðum, verkefnagerð og námsmati í kennslu erlendra tungumála og eru þjálfaðir í að ígrunda eigin afstöðu til náms og kennslu. Gert er ráð fyrir að þátttakendur ígrundi, þrói og dýpki hugmyndir sínar um tungumálanám og kennslu þannig að þeir verði betur í stakk búnir til að kenna og þróa sig sem kennarar. Viðeigandi kenningar, hugtök og aðferðir varðandi nám og kennslu erlendra tungumála eru kynntar, rannsakaðar og ræddar.
Innan námskeiðsins kynnast nemendur umgjörð og innra starfi skóla. Auk þess fá nemendur nokkra þjálfun í kennslu sinnar greinar. Starfsþjálfun fer fram í framhaldsskólum með megináherslu á faggreinakennslu og tekur mið af starfstíma framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir umtalsverðri viðveru nemenda í skólum. Starfsþjálfun er skipulögð í samstarfi við valda skóla og felst m.a. í þátttöku í almennu skólastarfi, aðstoð við kennslu og æfingakennslu.
Starfsþjálfun á vormisseri er tengd námskeiðinu Námskrá og skólaþróun í framhaldsskólum og skal þetta námskeið því tekið samhliða því.
Námskrá og skólaþróun í framhaldsskólum (KEN213F)
Í námskeiðinu er fjallað um námskrárfræði og menntastefnu með áherslu á námskrár, nemendur og þróunarstarf í framhaldsskólum.
Viðfangsefnum í námskeiðinu er ætlað að þjálfa fagmannlegt verklag við mótun menntastefnu, námskrárgerð og skólaþróun í framhaldsskólum á Íslandi.
- Haust
- Að læra dönsku sem erlent mál
- Bókmenntaþýðingar
- Málnotkun og framsetning: Danska
- EinstaklingsverkefniV
- EinstaklingsverkefniV
- Norrænn módernismi og framúrstefna - frá Edith Södergran til óreiðu internetsinsVE
- Norræn öndvegisverk í bókmenntumV
- Tungumál og menning IV
- Vor
- Að kenna dönsku sem erlent mál
- Hvað eru námsgögn í tungumálakennslu?
- Málnotkun og framsetning í kennslu
- Danskt stjórnkerfi, saga og menningV
- EinstaklingsverkefniV
- EinstaklingsverkefniV
- Tungumál og menning II: Evrópsk menntahefðV
Að læra dönsku sem erlent mál (DAN010F)
Fjallað verður um kenningar um "intersprog". Nemendur kynnast villugreiningu og hvaða vísbendingar villur og málnotkun nemenda geta gefið um máltökuferlið. Einnig verða skoðaðar mállegar, félagslegar, sálfræðilegar og námslegar breytur sem áhrif hafa á málanám og málhæfni. Nemendur fá tækifæri til að skoða máltökuferlið nánar með eigin athugunum á ritmáli og talmáli nemenda sem eru að læra dönsku í íslenskum skólum.
Bókmenntaþýðingar (DAN702F)
Fjallað verður um þýðingar bókmennta milli íslensku og dönsku. Nemendur fá yfirlit yfir sögu dansk-íslenskra bókmenntaþýðinga og fá þjálfun í þýðingarýni með því að greina mismunandi þýdd verk frá ólíkum tímum. M.a. þurfa nemendur að geta áttað sig á þeim áskorunum sem þýðandinn stendur frammi fyrir og hvaða leiðir hann hefur til úrlausnar.
Málnotkun og framsetning: Danska (DAN703F)
Námskeiðið er bæði fræðilegt og hagnýtt. Nemendur rifja upp helstu reglur um danskt mál, málnotkun og stílbrögð. Þeir greina hvernig ólíkar textagerðir taka mið af mismunandi tilgangi tjáskipta. Áhersla verður einnig lögð á ritfærni nemenda á dönsku og þeir þjálfaðir í notkun hjálpargagna.
Einstaklingsverkefni (DAN805F)
Einstaklingsverkefni.
Einstaklingsverkefni (DAN901F)
Einstaklingsverkefni.
Norrænn módernismi og framúrstefna - frá Edith Södergran til óreiðu internetsins (NLF108F)
Í námskeiðinu verður saga módernisma og framúrstefnuhreyfinga á Norðurlöndunum könnuð og lesnir ýmsir lykiltextar norræns módernisma. Fjallað verður um komu framúrstefnuhreyfingar til Norðurlandanna, expressionisma, súrrealisma og fleiri stefna sem voru áberandi í Evrópu á millistríðsárunum. Einnig verður hugað að hópum skálda og listamanna sem störfuðu undir merkjum módernismans á Norðurlöndunumallt frá hópum eins og Heretica í Danmörku og Birtíngsmanna á Íslandi á eftirstríðsárunum til margvíslegra hreyfinga rithöfunda og annarra listamanna sem starfa í samtímanum, ekki síst á netinu.
Á námskeiðinu verður einnig fengist við grundvallarspurningar eins og þá hvernig módernisminn bregst við hinum "stóru frásögnum" nútímavæðingarinnar og hvort módernisminn sjálfur sé orðinn að hefð og stórri skýringarfrásögn í bókmenntasögunni.
Norræn öndvegisverk í bókmenntum (NLF109F)
Norræn öndvegisverk verða kynnt og rædd frá gagnrýnu sjónarhorni þar sem kanónu-hugtakið er í brennidepli. Úrval meginverka Norðurlanda verða kynnt, lesin og greind. Í tengslum við námskeiðið verður haldin málstofa í bókmenntum með þátttöku gagnrýnenda og rithöfunda af Norðurlöndunum.
Tungumál og menning I (MOM301F)
Viðfangsefni námskeiðsins eru margvísleg tengsl menningar og tungumála út frá hugmyndasögulegum, félags- og málvísindalegum forsendum. Gömul og ný heimsmál verða kynnt, tilurð þeirra, áhrif og afleiðingar. Fjallað verður um talmál og ritmál: Hvað er skrifað, hvers vegna og hvernig? Reglur og ólík viðhorf til tungumála eru rædd og velt verður upp spurningum um tengsl mannsins við hugsun og tungumál.
Að kenna dönsku sem erlent mál (DAN011F)
Í námskeiðinu verður fjallað um kenningar og rannsóknir sem snerta dönskukennslu, m.a. færniþættina fjóra ásamt kenningum um málfræði og málnotkun. Fjallað verður um tjáskipti sem forsendur þess að ná tökum á erlendu máli og hvernig nýta má nýja miðla til þess að gefa nemendum tækifæri til að tjá sig. Beint verður sjónum að nýjum kenningum um orðaforða og orðaforðatileinkun og hvernig hægt er að nota þessa þekkingu til að brúa bilið milli lesturs og hlustunar annars vega og talmáls og ritunar hins vegar. Nemendur kynna kenningar um bókmenntalestur og menningarmiðlun í málakennslu.
Hvað eru námsgögn í tungumálakennslu? (DAN201F)
Þegar námsgögn til tungumálakennslu /-náms eru samin er nauðsynlegt að líta til margra þátta, sem sumir hverjir virðast ekki mikilvægir í fljótu bragði. Sama gildir þegar námsgögn til tungumálakennslu/-náms er valið.
Í námskeiðinu verður litið til ýmissa þátta sem skipta máli við námsgagnagerð, og hvernig þessum þáttum hafa verið gerð skil í tímans rás. Hvaða þættir ráða mestu um ágæti og notagildi námsgagna í nútíma skóla? Hver eru áhrif námsgagnahöfunda?
Unnið verður með hugtök á borð við námsgögn, texta, myndir, hljóð, stafrænt efni, inntak, þyngdarstig, kennslu- eða notkunarleiðbeiningar og verkefni/viðfangsefni.
Fjallað verður um kenningar er varða sýn á tungumálið, tileinkun tungumála, kennslu- og námsaðferðir, menningar- og umhverfisþætti. Einnig verður hlutverk kennara/nemenda í kennslustofu/-rými tengt við val og notkun námsgagna greint. Enn fremur verður komið inn á hagnýti náms, sjálfræði í námi, einstaklingsmiðað nám, samvinnu í námi – og þá er ótalið markmið með náminu, ánægjustuðul, virkni nemenda og áhugahvöt.
Málnotkun og framsetning í kennslu (DAN806F)
Nemendur kynna sér og vinna með ýmsar aðferðir sem notaðar eru við kennslu og þjálfun í ritun. Námskeiðið er hugsað sem framhald af "Málfræði og ritun" þar sem nemendur geta nýtt sér fengna þekkingu, reynslu og þjálfun í þeim tilgangi að yfirfæra á kennslu.
Danskt stjórnkerfi, saga og menning (DAN802F)
Markmið þessa námskeiðs er að nemendur öðlist yfirsýn yfir sögulega, pólitíska og menningarlega þróun í dönskum stjórnarháttum á 20. öld og fram til dagsins í dag – með áherslu á tímabilið: Frá einveldi til fulltrúalýðræðis. Í námskeiðinu verður fjallað um danska velferðarmódelið og lýðræðislegt öryggisnet í ljósi þjóðarbúskapar, landafræði, lýðfræði og trúarbragða, aðstæðna á vinnumarkaði, stjórnmálakerfis, heilbrigðis- og menntunarkerfis, tengsla Danmerkur við alþjóðasamfélagið og almennra strauma í dönsku samfélagi. Nemendur munu kynna verkefni og ljúka námskeiðinu með skriflegu heimaverkefni.
Einstaklingsverkefni (DAN803F)
Einstaklingsverkefni.
Einstaklingsverkefni (DAN804F)
Einstaklingsverkefni.
Tungumál og menning II: Evrópsk menntahefð (MOM402M)
Evrópsk mennta- og umræðuhefð einkennist af sterkum tengslum háskóla og samfélags. Margir áhrifamestu hugsuða Evrópu á 19. og 20. öld störfuðu utan háskólanna og margir þeirra sem áttu hefðbundinn starfsferil innan háskólanna voru líka virkir samfélagsgagnrýnendur, skiptu sér af stjórnmálaumræðu dagsins og höfðu jafnvel talsverð áhrif. Í námskeiðinu lítum við á verk nokkurra valinna evrópskra hugsuða sem eiga það sameiginlegt að hafa verið áhrifamiklir jafnt í fræðunum sem á vettvangi samfélagsumræðunnar. Um leið hugleiðum við stöðu hins „evrópska“ – að hvaða leyti verk þessara hugsuða eru í eðli sínu evrópumiðuð og að hvaða marki við sjáum skilning á menningarlegri óvissu koma fram.
Hafðu samband
Þjónustuborð Hugvísindasviðs
s.525 4400 hug@hi.is.
Opið virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.
3. hæð Aðalbyggingar.
Sæmundargötu 2, 102 Reykjavík.
Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér þjónustuborð á Háskólatorgi.
Fylgstu með Hugvísindasviði

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.