Um 80 þúsund einstaklingar af landinu öllu þáðu boð um að taka þátt í rannsóninni Blóðskimun til bjargar - þjóðarátak gegn mergæxlum en 148 þúsund einstaklingum, sem fæddir eru árið 1975 eða fyrr, var boðið að taka þátt. Rannsóknin er á vegum Háskóla Íslands, Krabbameinsfélags Íslands og Landspítala og er markmiðið að rannsaka áhrif skimunar á afdrif einstaklinga með einkennalaust forstig mergæxlis.
„Það er einstakt hversu vel landsmenn hafa brugðist við og tekið þátt í þessari mikilvægu vísindarannsókn. Ég vil koma á framfæri þakklæti til allra sem hafa lagt okkur lið,“ segir Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands sem leiðir rannsóknina. Þess má geta að kynningarherferðin Blóðskimun til bjargar – þjóðarátak gegn mergæxlum hlaut Áruna, verðlaun ÍMARK fyrir árangursríkustu herferð ársins.
Að sögn Sigurðar Yngva hafa fram til þessa fimm þátttakendur í rannsókninni greinst með mergæxli, rúmlega 20 með einkennalaust mergæxli og nokkur hundruð með forstig mergæxlis.
„Þeir einstaklingar sem greinst hafa með mergæxli vegna þátttöku sinnar í rannsókninni hafa fengið viðeigandi meðferð mun fyrr enn ella hefði verið mögulegt. Það eykur líkur á að hægt sé að draga úr áhrifum sjúkdómsins og bæta lífsgæði þeirra til frambúðar,“ segir Sigurður Yngvi sem fjallar um þessa rannsókn í þáttaröðinni Fjársjóður framtíðar. Hann talar þar einnig almennt um rannsóknir á krabbameini.
Sigurður Yngvi Kristinsson
„Það er einstakt hversu vel landsmenn hafa brugðist við og tekið þátt í þessari mikilvægu vísindarannsókn. Ég vil koma á framfæri þakklæti til allra sem hafa lagt okkur lið.“
Mergæxli og forstig þess
Mergæxli er krabbamein í beinmerg og einkenna sjúkdómsins verður oft ekki vart fyrr en hann hefur haft alvarleg áhrif á heilsuna. Árlega greinast um 25 manns með sjúkdóminn hér á landi og alls um 120 þúsund manns á heimsvísu. Samfara auknum rannsóknum á sjúkdómnum og nýjum og betri lyfjum hafa horfur sjúklinga með mergæxli batnað gríðarlega síðastliðin ár.
Góðkynja einstofna mótefnahækkun er forstig mergæxlis en hjá einstaklingum með þetta forstig mælast viss prótein í blóði sem kallast einstofna mótefni. Forstig mergæxlis er þó ekki krabbamein og flestir sem eru með forstigið fá aldrei mergæxli. Um 1% einstaklinga með forstig mergæxlis fær mergæxli á hverju ári en á hverjum tíma eru u.þ.b. 4-5% Íslendinga yfir 50 ára aldri með forstig mergæxlis.
Rannsóknin er framkvæmd til þess að meta áhrif skimunar fyrir forstigi mergæxlis á horfur einstaklinga og jafnframt til þess að finna bestu mögulegu greiningarferli og eftirfylgni einstaklinga með forstigið, sem og almenn áhrif skimunar af þessu tagi á lífsgæði.