Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor við Læknadeild
„Rannsóknin mun veita gríðarlega miklar upplýsingar um forstig mergæxla og almennt um mergæxli. Aldrei hefur verið framkvæmd stærri eða ítarlegri rannsókn hjá heilli þjóð,“ segir Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor í blóðsjúkdómum og sérfræðingur við Landspítala, sem fer nú fyrir stórum hópi vísindamanna og nemenda við Háskóla Íslands og Landspítala sem rannsakar forstig mergæxla og framvindu sjúkdómsins í mannslíkamanum.
Í tengslum við rannsóknina hleyptu Sigurður Yngvi og samstarfsfólk af stokkunum þjóðarátakinu Blóðskimun til bjargar haustið 2016 en auk Háskólans og Landspítalans koma Krabbameinsfélagið og Perluvinir – félag mergæxlissjúklinga á Íslandi, að átakinu.
Ætlunin er að rannsaka hvort ávinningur sé af því að skima fyrir forstigi mergæxlis og þar með fyrir mergæxli. „Það gerðum við með því að bjóða til þátttöku öllum einstaklingum sem búsettir eru á Íslandi og fæddir eru 1975 eða fyrr,“ segir Sigurður Yngvi sem ræðir þetta verkefni og rannsóknir á krabbameini í nýjum þætti í vísindaröðinni Fjársjóður framtíðar. Þetta er þriðja röðin með þessu nafni en sú síðasta keppti um gullverðlaun á einni þekktustu vísindakvikmyndahátíð Evrópu, AFO í Olomouc í Tékklandi.
Mergæxli er ólæknandi sjúkdómur í beinmerg og einkenna sjúkdómsins verður oft ekki vart fyrr en hann hefur haft alvarleg áhrif á heilsuna. Árlega greinast um 20 til 25 manns með sjúkdóminn hér á landi og alls um 200 þúsund manns í heiminum öllum.
Sigurður Yngvi Kristinsson
„Í stað þess að hefja skipulega skimun ætlum við að rannsaka gildi skimunar fyrir forstigi mergæxla.“
„Í stað þess að hefja skipulega skimun ætlum við að rannsaka gildi skimunar fyrir forstigi mergæxla. Við munum með niðurstöðum þessarar rannsóknar geta svarað nokkrum mikilvægum spurningum, eins og hvort skimun sé hagkvæm, hversu oft þurfi að fylgjast með einstaklingunum, hvaða áhrif það hafi á lífsgæði einstaklinga að hafa vitneskju um forstig krabbameina og hvort unnt sé að lækna mergæxli með því að meðhöndla það fyrr en nú er gert um allan heim,“ segir Sigurður Yngvi.
Rannsóknaverkefnið hlaut tvo risastyrki frá erlendum aðilum. Samtökin The International Myeloma Foundation í Bandaríkjunum styrktu rannsóknina um 300 milljónir króna og undir lok árs 2016 fékk rannsóknarhópurinn 180 milljónir króna frá Evrópska rannsóknarráðinu.
Slíka styrki fá einungis vísindamenn í allra fremstu röð og samkeppnin um þá er gríðarhörð.
„Þessi styrkur er gríðarlega mikilvægur fyrir okkur sem stöndum að Blóðskimun til bjargar. Með honum getum við ráðið fleiri vísindamenn að verkefninu, til dæmis munum við ráða doktorsnema, hjúkrunarfræðinga og líffræðinga,“ segir Sigurður Yngvi, sem er einn afkastamesti vísindamaður Háskóla Íslands.
Fyrir utan vitneskjuna um mergæxli veiti rannsóknin mikilvægar upplýsingar um krabbamein almennt og krabbameinsleit eða skimanir. „Í raun er þetta einstakt tækifæri sem við höfum hér á landi til að láta gott af okkur leiða og við munum örugglega fá mikilvæga vitneskju um forstig mergæxlis sem mun hjálpa sjúklingum framtíðarinnar um allan heim,“ segir Sigurður Yngvi.