Doktorsvörn: Skattar og atvinna á Norðurlöndunum
Þriðjudaginn 2. júní 2015 varði Axel Hall doktorsritgerð sína við Hagfræðideild á Félagsvísindasviði: Skattar og atvinna á Norðurlöndunum.
Andmælendur voru Dr. Torben Andersen, prófessor í hagfræði við Háskólann í Árósum, og Dr. Per Lundborg, prófessor í hagfræði við Háskólann í Stokkhólmi.
Doktorsverkefnið
Skattar eru á hverjum tíma eitt af umdeildustu og viðkvæmustu viðfangsefnum á vettvangi stjórnmála. Fjármögnun hins opinbera og endurdreifing tekna er stjórnmálalegt viðfangsefni sem byggir á gildismati og skoðunum sem skorið er úr um í kosningum í lýðræðisríkjum. Norðurlöndin skipa sér í hóp þjóða ólíkum flestum öðrum þegar litið er til umfangs endurdreifingar tekna og skattlagningu.
Í þessari rannsókn er því haldið fram að Norðurlöndum hafi tekist að ná lægri fórnarskiptum á milli skilvirkni og jafnaðar með kerfi gildismats, skatta og útgjalda hins opinbera sem stuðlar að meiri vinnuaflsþátttöku en ella. Markmið þessarar ritgerðar er að bera saman skattkerfi Norðurlanda á vinnumarkaði og í kjölfarið að rannsaka áhrif ólíkra skattkerfa á atvinnu og vinnuframboð. Það hvernig aðferðir við skattlagningu vinnuafls hafa áhrif á vinnumarkað er eitt af því sem hefur reynst hvati þessarar rannsóknar.
Rannsóknin samanstendur af fjórum tengdum köflum sem falla innan sviða hagfræði, fjármála hins opinbera og vinnumarkaðar.
Í fyrsta kafla ritgerðarinnar er yfirlit yfir efni hennar, framlag og aðrar ritgerðir sem fjalla um svipað efni. Annar kafli rannsóknarinnar lýsir þróun tekjuskatts á Íslandi og tekjuskattskerfi hér á landið borið saman við skattkerfi annarra Norðurlanda. Þá er ennfremur búinn til nýr mælikvarði á stigmögnun og jöfnunaráhrif skattlagningar. Einn þáttur sem ákvarðar þessi áhrif er samspil jaðarskatta og skattleysismarka. Í rannsókninni er sýnt hvernig stigmögnun skattlagningar má ná fram með háum skattleysismörkum eða hækkandi jaðarsköttum eða blöndu beggja. Stigmögnunin sem er innbyggð í hið íslenska kerfi tekjuskatta reynist meiri en á hinum Norðurlöndunum vegna hárra skattleysismarka.
Í þriðja kafla er skoðað samspil jaðarskatta tekna og skattleysismarka annars vegar og atvinnu hins vegar. Þetta samspil er skoðað í samkeppnislíkani og leitaratvinnuleysislíkani.
Fjórði kaflinn (skrifaður með Gylfa Zoëga) leitast við að útskýra hið háa atvinnustig kvenna á Norðurlöndunum. Rannsóknin sýnir að há skatthlutföll á laun sem eru á Norðurlöndunum ættu, að öðru óbreyttu, að leiða til lægra atvinnustigs en í löndum sem eru með lág skatthlutföll. Hins vegar má rekja hátt atvinnustig kvenna til menningar þessara landa skilgreindrar sem gildismat og skoðanir fólks. Hér er því haldið fram að Norðurlöndin greini sig að frá öðrum löndum með því að setja aukið vægi á þátttöku kvenna á vinnumarkaði.
Rannsókninni lýkur með fimmta kafla þar sem innleidd er ófullkomin samkeppni í líkan fjórða kafla til að skýra hvernig atvinnustig getur haldist lágt í lengri tíma í kjölfar fjármálakreppu. Með því að nota kvarðaða útgáfu af samkeppnislíkani fjórða kafla með fákeppni reynist unnt að skýra hvernig hærri álagning í kjölfar fjármálakreppu geti skýrt hvers vegna aðlögun til fyrra atvinnustigs næst ekki í langan tíma. Hvati þessa rannsóknarhluta er fjármálakreppan sem hófst hér 2008 og kreppurnar í Noregi, Finnlandi og Svíþjóð í upphafi tíunda áratugsins eru notaðar til að kvarða líkanið.
Leiðbeinandi var dr. Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.
Ásamt honum sátu í doktorsnefnd dr. Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og dr. Vidar Christansen, prófessor í hagfræði við Háskólann í Osló.
Dr. Tór Einarsson, prófessor stjórnaði athöfninni.
Almennar upplýsingar
Axel Hall fæddist árið 1971 í Reykjavík. Hann stundaði nám í hagfræði við Háskóla Íslands 1991-1994 og útskrifaðist þaðan með B.Sc.- gráðu í hagfræði. Í kjölfarið stundaði hann frekara nám í stærðfræðilegri hagfræði og hagrannsóknum við London School of Economics og útskrifaðist þaðan með meistaragráðu 1995. Á árunum 1996-2006 starfaði Axel sem sérfræðingur á Hagfræðistofnun Háskóla Íslands auk stundakennslu í Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Frá 2006 hefur Axel starfað sem lektor við Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík.