ÓLAND KORTLAGT: Ráðstefna um hulduhöfundinn Eirík Laxdal
Edda
Fyrirlestrasal
„Óland kortlagt: Skáldskapur Eiríks Laxdals í íslensku og alþjóðlegu samhengi“ er yfirskrift athyglisverðrar ráðstefnu sem Árnastofnun og Bókmennta- og listfræðistofnun Háskóla Íslands standa fyrir í Eddu, húsi íslenskunnar, dagana 30.-31. ágúst. Sjá dagskrá á vefsíðu Árnastofnunar.
Markmiðið er að vekja athygli á vanmetnu framlagi Eiríks til íslenskra bókmennta og bókmenntasögu. Þrátt fyrir að verk hans hafi verið til umræðu meðal fræðafólks frá því um miðja nítjándu öld kannast furðumargir hvorki við nafn Eiríks né skáldverkin sem hann lét eftir sig. Ráðstefnan stendur frá 14.00 til 16.30 föstudaginn 30. ágúst og er svo framhaldið á laugardeginum frá 10.00 til 16.30. Hún er öllum opin og er aðgangur ókeypis.
Eiríkur Laxdal orti að minnsta kosti sjö rímur, meðal annars af Ingibjörgu alvænu og Hálfdani Barkarsyni, en er þó kunnari fyrir margbrotnar skáldsögur sínar, Sögu Ólafs Þórhallasonar og Ólandssögu, sem talið er að ritaðar séu undir lok átjándu aldar en voru lengi aðeins aðgengilegar í handritum. Árið 1987 kom fyrrnefnda sagan í fyrsta sinn út á bók. Hún er einum þræði þroskasaga unglingsins Ólafs sem elst upp í Skagafirði en flækist víða um land og kemst bæði í kynni við útlaga og huldufólk. Mislangar frásagnir þeirra sem Ólafur hittir slíta víða ferðasögu hans í sundur og nokkrar frásagnanna fela í sér enn aðrar sögur af fólki sem Ólafur hefur engin bein kynni af. Fyrir vikið er frásögnin lagskipt og ekki einfaldar málið þegar útúrdúrarnir fléttast inn í aðalsöguna og fara að hafa áhrif á skilning okkar á henni. Svipuðu máli gegnir um Ólandssögu sem kom í fyrsta sinn fyrir almenningssjónir árið 2006 en þar er sögusviðið Evrópa á miðöldum.
Þorsteinn Antonsson og María Anna Þorsteinsdóttir önnuðust útgáfur þessara tveggja skáldsagna og hafa verið leiðandi í umfjöllun um Eirík á seinustu áratugum. Nýlega hafa sögurnar einnig hlotið markverðan sess í viðamikilli evrópskri rannsókn á árdögum skáldsögunnar á Norðurlöndum. Lena Rohrbach, prófessor við Háskólann í Basel í Sviss, hefur leitt íslenskan hluta þessarar rannsóknar ásamt doktorsnemanum Maditu Knöpfle. Þau Þorsteinn, María Anna, Lena og Madita stíga öll á stokk í fyrirlestrasal Eddu á ráðstefnunni „Óland kortlagt“ en aðrir fyrirlesarar eru Aðalheiður Guðmundsdóttir, Ásdís Rósa Magnúsdóttir, Jón Karl Helgason, Katelin Marit Parson, Romina Werth, Rósa Þorsteinsdóttir og Sveinn Yngvi Egilsson. Þá mun skáldið Sjón flytja lokaávarp ráðstefnunnar en hann hefur um árabil verið meðal sporgöngumanna Eiríks hérlendis. Ráðstefnustjóri er Margrét Eggertsdóttir.
Árnastofnun og Bókmennta- og listfræðistofnun Háskóla Íslands efna til ráðstefnu um skáldskap Eiríks Laxdals í íslensku og alþjóðlegu samhengi.