Skip to main content

Hvers vegna var Guðmundur Kamban skotinn til bana?

Hvers vegna var Guðmundur Kamban skotinn til bana? - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
26. febrúar 2025 16:00 til 17:30
Hvar 

Edda

Fyrirlestrasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Jón Karl Helgason, prófessor við Íslensku- og menningardeild, heldur erindi sem nefnist „Hvers vegna var Guðmundur Kamban skotinn til bana?“ Erindið verður flutt í Eddu, húsi íslenskunnar, miðvikudaginn 26. febrúar kl. 16:00-17:30. Verið öll velkomin. 

Um erindið

Fyrir tæpum áttatíu árum, 5. maí árið 1945, var þekktur íslenskur rithöfundur, Guðmundur Kamban, myrtur í Danmörku. Hann var að snæða hádegisverð ásamt dóttur sinni og fleiri gestum gistiheimilis í Kaupmannahöfn þegar inn komu þrír andspyrnumenn og skipuðu honum að fylgja sér til yfirheyrslu. Kamban neitaði að fylgja mönnunum og breytti engu þótt þeir vektu athygli á að þeir væru vopnaðir og myndu að öðrum kosti skjóta hann til bana. „Skyd, jeg er ligeglad,“ á Íslendingurinn að hafa sagt oftar en einu sinni. Svo fór að foringi hópsins skaut Kamban til bana. Frá upphafi snerist umræðan um morðið einkum um meint tengsl Kambans við þýsk hernámsyfirvöld á stríðsárunum. Þegar frá leið beindist athyglin þó að einhverju marki að því hverjir banamenn skáldsins hefðu verið en dönsk yfirvöld lögðu sig fram um að halda hlífiskyldi yfir þeim. Fræðimenn sem fengu leyfi til að skoða gögn um málið í danska Þjóðskjalasafninu þurftu að skrifa undir yfirlýsingu þar sem þeir lofuðu að nefna enga á nafn sem málinu tengdust. Fyrir fáeinum árum var trúnaði á umræddum skjölum aflétt og haustið 2023 kom fram nafn banamannsins. Nöfn hinna hafa hins vegar ekki verið afhjúpuð og lítil umræða orðið um hver beri mesta ábyrgð á morðinu. Þá hafa fáir velt opinberlega fyrir sér hvers vegna skáldið mani komumenn til að skjóta. Miðvikudaginn 26. febrúar heldur Jón Karl Helgason, prófessor við Íslensku- og menningardeild HÍ, erindi um þetta efni á vegum Bókmennta- og listfræðastofnunnar Háskóla Íslands. Viðburðurinn, sem fer fram í fyrirlestrasal Eddu við Arngrímsgötu 5, er öllum opinn og hefst kl. 16.00.

Jón Karl Helgason prófessor.

Hvers vegna var Guðmundur Kamban skotinn til bana?