Doktorsvörn við Sagnfræði- og heimspekideild: Rúnar Leifsson
Aðalbygging
Hátiðasalur
Þriðjudaginn 29. maí næstkomandi fer fram doktorsvörn við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Þá ver Rúnar Leifsson doktorsritgerð sína í fornleifafræði sem nefnist Ritual Animal Killing and Burial Customs in Viking Age Iceland. Andmælendur eru Anne Pedersen, fornleifafræðingur við Þjóðminjasafn Danmerkur, og James Morris, lektor við UCLAN.
Doktorsritgerðin er unnin undir leiðsögn Orra Vésteinssonar, prófessors í fornleifafræði. Aðrir í doktorsnefnd eru Anne Karin Hufthammer og Neil Price.
Svavar Hrafn Svavarsson, forseti Sagnfræði- og heimspekideildar, stjórnar athöfninni.
Um rannsóknina
Rannsóknin grundvallast á greiningu allra tiltækra dýrabeina úr íslenskum víkingaaldarkumlum. Með því er ljósi varpað á dráp og greftrun dýra á grafreitum víkingaaldar hérlendis. Gögn frá öllum kumlateigum landsins, sem og úrtak frá Noregi, eru endurskoðuð á gagnrýnin hátt með það fyrir augum að draga fram einkenni þessara siða og setja þá í félagslegt og sögulegt samhengi. Rannsókin er framlag til aukins skilnings á þróun íslensks samfélags á 10. öld.
Doktorsefnið
Rúnar Leifsson lauk B.A.-prófi í fornleifafræði við Háskóla Íslands árið 2004 og MSc.-prófi í zooarchaeology við University of York árið 2005. Á námstímanum hlaut hann doktorsnemastyrk frá Rannsóknarsjóði Rannís og hefur verið stundakennari við Háskóla Íslands meðfram námi. Þá sat hann eitt misseri við Universitetet i Bergen og hefur auk þess stundað rannsóknir á Íslandi, í Noregi og í Bretlandi. Hann starfar nú hjá Minjastofnun Íslands.
Rúnar Leifsson