Doktorsvörn: Klara Þorsteinsdóttir

Aðalbygging
Hátíðasalur
Klara Þorsteinsdóttir ver doktorsritgerð sína í félagsfræði við við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild. Ritgerðin ber heitið The Normalization of Silencing: The Interplay between Nurses' Experience of Working Conditions and Gender Equality Ideals. Vörnin fer fram í hátíðarsal Háskóla Íslands kl. 13:00 og er öllum opin.
Andmælendur eru Dr. Steen Baagøe Nielsen prófessor í félagsfræði við Hróarskelduháskóla og Dr. Guðmundur Ævar Oddsson prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri.
Leiðbeinandi er Ingólfur V. Gíslason prófessor.
Unnur Dís Skaptadóttir, deildarforseti Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideildar stýrir athöfninni.
Vörnin fer fram á ensku og er öllum opin.
Um efni ritgerðar
Þótt talið sé að á Íslandi sé kynjajafnrétti með því mesta í heimi og að hugmyndin hafi mótað síðari tíma þjóðarvitund, er vinnumarkaðurinn mjög kynskiptur. Það á sérstaklega við þar sem konur eru í meirihluta, svo sem í kennara- og umönnunarstéttum. Karlar eru nú um 5% hjúkrunarfræðinga, sem er lágt hlutfall samanborið við lönd sem Ísland hefur verið talið standa jafnfætis í kynjajafnrétti, svo sem hin Norðurlöndin. Frá árinu 2020 hefur körlum í hjúkrun fjölgað úr 2% sem er að miklu leyti vegna komu erlendra karlkyns hjúkrunarfræðinga til landsins. Hjúkrun hefur gegnum tíðina verið tengd köllun og fórnfýsi, þar sem viljinn til að hjálpa og annast aðra er talinn einn helsti þáttur í ímynd stéttarinnar. Vera má að hugtakið umhyggja, sem hefur á sér blæ kvenlægni í merkingunni undirgefni, sé lykilþáttur í því að letja karla á Íslandi frá að hefja feril í hjúkrun. Starfsaðstæður hjúkrunarfræðinga á Íslandi einkennast af undirmönnun og fjöldi þeirra hættir störfum vegna vinnutengdra heilsufarsvandamála. Með hliðsjón af kynjahallanum í hjúkrunarstéttinni er meginmarkmið verkefnisins að kanna upplifun þátttakenda af samspili vinnuskilyrða og hugmynda um kynjajafnrétti á Íslandi, með áherslu á valdatengsl og líðan í starfi. Í því skyni voru tekin viðtöl við 31 hjúkrunarfræðing á Landspítalanum. Í þessari ritgerð eru forsendur þær að jafnrétti kynja í fagstétt verði að skilja og skoða í samhengi vinnuskilyrða, heilsuverndar og faglegrar viðurkenningar og virðingar.
Leiðbeinandi var Dr. Ingólfur V. Gíslason, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Aðrir í doktorsnefnd voru Dr. Annadís Greta Rúdólfsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, og Dr. Gísli Kort Kristófersson, prófessor við Háskólann á Akureyri.
Aðrar upplýsingar
Klara Þorsteinsdóttir er fædd í Neskaupstað 1954. Hún lauk BS-námi og MS-námi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands og BA-námi og MA-námi í félagsfræði frá sama skóla. Hún hefur lengst af starfað sem hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum.