Doktorsvörn í umhverfis- og auðlindafræði - Mauricio Andrés Latapí Agudelo
Hátíðasalur og Zoom
Föstudaginn 9. apríl mun Mauricio Andrés Latapí Agudelo verja doktorsritgerð sína í Umhverfis- og auðlindafræði við Viðskiptafræðideild.
Doktorsritgerðin ber heitið Stefnumiðuð samfélagsábyrgð fyrirtækja í orkugeiranum: Rannsókn á áhrifum stefnumiðaðrar samfélagsábyrgðar á norræn orkufyrirtæki (Strategic social responsibility of companies in the energy sector: A study of the impact of strategic social responsibility on energy companies).
Vörnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 14:00 og verður henni streymt.
Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Láru Jóhannsdóttur, prófessors við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd dr. Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands og dr. Metter Morsing yfirmaður UN PRME viðmiða Sameinuðu þjóðanna um ábyrga menntun stjórnenda.
Andmælendur við vörnina verða dr. Johannes Meuer, dósent við ETH Zurich og dr. Konstantinos Chalvatzis, prófessor við University of East Anglia.
Dr. Gylfi Magnússon, deildarforseti Viðskiptafræðideildar mun stýra athöfninni.
Um doktorsefnið
Mauricio Latapí fæddist í Mexíkóborg árið 1986. Fyrir doktorsnámið lauk Mauricio MS-gráðu í Umhverfis- og auðlindafræði frá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Áður en hann flutti til Íslands stundaði hann nám í byggingarverkfræði við National Autonomous University of Mexico (UNAM) og starfaði við umhverfis- og auðlindaráðuneytið í Mexico; í deild sem hefur með sjálfbærar samgöngur að gera.
Til að fá nánari upplýsingar um verkefnið er hægt að hafa samband við Mauricio með því að senda póst á netfangið mal25@hi.is.
Ágrip
Doktorsritgerð Mauricio samanstendur af fjórum fræðigreinum. Fyrst er saga og þróun samfélagslegrar ábyrgðar sem hugmyndafræði skoðuð með það að markmiði að greina helstu þætti og atburði sem mótað hafa helstu skilgreiningar og skilning á hugmyndafræðinni. Þá er samfélagsleg ábyrgð í orkugeiranum skoðuð nánar með það að markmiði að bera kennsl á og flokka hvata sem stuðla að því að orkufyrirtæki innleiði áherslur samfélagslegrar ábyrgðar. Í framhaldinu er kafað nánar í orsakir þess að norræn orkufyrirtæki innleiði samfélagslega ábyrgð, þ.e. hvata sem liggja þar til grundvallar, auk þess sem greindar eru hindranir sem koma í veg fyrir innleiðingu á áherslum samfélagslegrar ábyrgðar hjá orkufyrirtækjunum.
Fræðilegt framlag ritgerðarinnar er bæði til stofnanakenninga og hugmyndafræði um samfélagslega ábyrgð en ritgerðin leggur grunn að frekari rannsóknum á þessu sviðum sem og frekari þróun hugmyndafræði um samfélagslega ábyrgð í orkugeiranum. Ritgerðin hefur einnig þýðingu þegar kemur að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun þar sem krafist er skýrs skilnings á því að hvaða hvatar stuðla að innleiðingu á áherslum samfélagslegrar ábyrgðar og hvaða hindranir eru þar í veginum hjá orkufyrirtækjum. Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja og innleiðing orkufyrirtækja á slíkum áherslum skiptir verulegu máli þar sem umskipti yfir í endurnýjanlega orkugjafa og sjálfbær þróun orkugeirans hefur bein og óbein áhrif á innleiðingu flest allra heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Föstudaginn 9. apríl mun Mauricio Andrés Latapí Agudelo verja doktorsritgerð sína í Umhverfis- og auðlindafræði við Viðskiptafræðideild.