Skip to main content

Doktorsvörn í stjórnmálafræði - Birgir Guðmundsson

Doktorsvörn í stjórnmálafræði - Birgir Guðmundsson - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
12. febrúar 2021 14:00 til 16:00
Hvar 
Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 12. febrúar fer fram doktorsvörn Birgis Guðmundssonar við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Doktorsverkefnið ber heitið Political communication in a digital age. Defining characteristics of the Icelandic media system (Pólitísk boðskipti á stafrænum tímum. Ný einkenni á íslensku fjölmiðlakerfi). Vörnin fer fram í Veröld – húsi Vigdísar kl. 14:00 og verður streymt.

Leiðbeinandi verkefnisins er Ólafur Þ. Harðarson prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands en andmælendur eru Mark Ørsten prófessor við Hróarskelduháskóla og Bengt Johannsson prófessor við Gautaborgarháskóla. Í doktorsnefnd voru auk Ólafs Þ. Harðarsonar þeir Þorbjörn Broddason prófessor emeritus við Háskóla Íslands og Helge Østbye prófessor við háskólann í Bergen.

Maximilian Conrad deildarforseti Stjórnmálafræðideildar stýrir athöfninni.

Um doktorsefnið

Birgir Guðmundsson er dósent við Háskólann á Akureyri þar sem hann kennir fjölmiðla- og stjórnmálafræði. Hann er með BA hon próf í sögu og stjórnmálafræði frá Essex háskóla í Bretlandi og MA gráðu í stjórnmálafræði frá Manitoba háskóla í Kanada. Birgir var um langt árabil blaðamaður, fréttastjóri og ritstjóri á dagblöðum en fór að kenna við Háskólann á Akureyri upp úr síðustu aldamótum. Samhliða kennslu og rannsóknum hefur Birgir unnið að ýmsum faglegum málum blaðamanna í samstarfi við Blaðamannafélag Íslands og var m.a. formaður dómnefndar Blaðamannaverðlauna fyrsta áratuginn sem þau voru veitt. Birgir hefur sinnt ýmsum stjórnunarstörfum á sviði viðskipta og félagasamtaka á umliðnum árum.


Ágrip

Eðlisbreyting hefur orðið á fjölmiðlakerfinu og allri boðmiðlun á Íslandi síðasta áratuginn og þar með á tenglsum stjórnmála og fjölmiðlunar, sem síðan hefur  ásamt ýmsum fleiri þáttum leitt til breytinga á flokkakerfi, stjórnmálum, og pólitískri umræðu. Þetta er meðal þess sem tekist er á við í doktorsverkefninu en þar eru greind helstu einkenni pólitískrar boðmiðlunar á Íslandi á grundvelli frumgagna og sett í samhengi við ráðandi fræðilegar kenningar. Þrjú megin svið eru könnuð. Í fyrsta lagi er kortlögð fjölmiðlanotkun stjórnmálamanna og hvernig þeir meta mikilvægi einstakra miðlunarleiða. Þannig fengust upplýsingar um blandað boðmiðlunarkefi (hybrid media) þar sem tvinnast saman miðlunarrök netsamskipta annars vegar og miðlunarrök hefðbundinnar fjölmiðlunar. Í öðru lagi var fagmennska fjölmiðla skoðuð og settur fram greiningarrammi og mat á fagmennsku í fjölmiðlum á stafrænum tímum. Í þriðja lagi var samfylgd fjölmiðla og stjórnmálaafla eða hugmyndafræði metin.

Niðurstöðurnar sýna að helstu einkenni pólitískrar boðmiðlunar á Íslandi eru blandað kerfi fjölmiðlakerfi (hybrid media system), að blaðamennska einkennist í vaxandi mæli af fagmennsku skipulagsheilda (organizational professionalism) og að skynjuð samfylgd stjórnmála og fjölmiðla (political parallelism) sé mjög mikil. Þessi einkenni eru dregin fram og undirstrikuð af tæknivæðingu, markaðsvæðingu og ákveðinni tegund fagvæðingar og enn fremur  mótuð af sér íslenskum aðstæðum,  ekki síst smæð íslenska fjölmiðla- og stjórnmálakerfisins og stuttu tímabili breytinga.  Þrátt fyrir sér íslensk einkenni í þróuninni, er hreyfiafl breytinganna alþjóðlegt og hægt að líta til Íslands um vísbendingar um líklega þróun annars staðar.  

Doktorsvörn Birgis Guðmundssonar við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

Doktorsvörn í stjórnmálafræði