Skip to main content

Doktorsvörn í stjórnmálafræði

Doktorsvörn í stjórnmálafræði - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
7. mars 2019 14:00 til 16:00
Hvar 

Hátíðarsal Háskóla Íslands

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Heiti ritgerðar: Kjarni árangurs í þróunarsamvinnu. Vatnsveitur í sveitahéruðum í Namibíu (e.Essence of Performance in Development. Rural Water Supply in Namibia)

Fimmtudaginn 7. mars ver Erla Hlín Hjálmarsdóttir doktorsritgerð sína í stjórnmálafræði „Kjarni  árangurs í þróunarsamvinnu. Vatnsveitur í sveitahéruðum Namibíu“ (e. Essence of Performance in Development. Rural Water Supply in Namibia). 

 

Andmælendur eru dr. Henning Melber og dr. Anna Mdee. Dr. Melber er rannsóknastjóri hjá Norrænu Afríkustofnuninni í Uppsala. Hann gegndi áður stöðu prófessors við Pretoríuháskóla í Suður-Afríku, stöðu forstöðumanns Namibísku hagstefnustofnunarinnar í Windhoek, Namibíu, og stýrði Miðstöð Afríkurannsókna við Free State Háskólann í Bloemfontein, Suður-Afríku. Dr. Anna Mdee sem er dósent í þróunarfræðum við Leedsháskóla en sérsvið hennar eru vatnsmál og virkni þróunarsamvinnu.

                                                                                                                                 

Leiðbeinandi er dr. Ómar Hlynur Kristmundsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

 

Aðrir í doktorsnefnd eru dr. Jónína Einarsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands og dr. Stephen Morse, prófessor við Surrey háskóla og forstöðumaður Systems Analysis for Sustainability, rannsóknarstofnunar í sjálfbærni.

 

Rannsóknin er margþátta tilviksrannsókn sem leitast við að svara þeirri meginspurningu hvernig ólíkir þættir hafa áhrif á árangur í þróunar­samvinnuverkefnum fyrir vatnsveitur í sveitahéruðum í Afríku. Lögð er áhersla á þverfræðilega nálgun við skoðun á þessum tilvikum, m.a. er byggt á krítískum stjórnunarkenningum, stjórnunarhyggju og almanna­valskenningum.

Rannsóknin byggir á fjórum raundæmum sem spanna allt frá samfélagslegum kringumstæðum í Namibíu upp á alþjóðlegt svið þróunarsamvinnu. Miklar áskoranir má finna við samfélagsstjórnun vatns­auðlindarinnar, en samspil félags-, stjórnmála- og sögulegra þátta hafa áhrif á hvernig til tekst með innleiðingu. Sögulegur arfur aðskilnaðarstefnunnar er ríkur og dæmi eru um að pólitísk afskipti hafi áhrif á árangur verkefna. Eitt raundæmið skoðar staðbundna þætti við innleiðingu verkefna í Kunene héraði í norðvestur Namibíu. Héraðið hefur sérstöðu hvað varðar landfræðilega einangrun og þjóðernishópa sem jaðarsettir eru í namibísku samfélagi. Þróunarsamvinnuverkefni í héraðinu hafa reynst erfið í framkvæmd og hafa haft jákvæð og neikvæð hliðaráhrif s.s. ofbeit og mengun. Rýni á ólíkum nálgunum alþjóðlegra þróunarsamvinnustofnana sem komu að verkefnum í Namibíu leiddi í ljós styrk hverrar nálgunar, staðbundið framlag gat skipt miklu og heildrænni stuðningur til vatnsgeirans var einnig vel til þess fallinn að styðja við stofnanalega innviði.

Loks er kastljósinu beint að þeim áhrifum sem krafan um árangur hefur á stofnanahegðun og neikvæð áhrif mikillar áherslu á árangursmælingar í þróunarsamvinnu, sem nefnd hefur verið „mælingaárátta“. Kenning Ritzer um McDonalds-væðingu sem byggir á hámörkun skilvirkni, útreiknanleika og fyrirsjáanleika er mátuð við faglegt starf í þróunarsamvinnu og nýtt hugtak er sett fram fyrir þá tilhneigingu að stækka upp smærri lausnir, sem er nefnt skammtastækkun í anda McDonalds-væðingar. Stöðlun og faghyggja valda því jafnframt að tilhneiging er til stofnanaeinsleitni, sem veldur því að stofnanir mótast í sama form með tímanum. Stofnanir bregðast einnig við mælingaáráttu með ólíkum hætti og er formgerðarflokkun sett fram fyrir ólíkar gerðir stofnanahegðunar, sem koma til vegna áhættu vegna mistaka, kostnaðaráhættu, og innri og ytri ósamhverfu í árangursmælingum.

Rannsóknin sýnir glöggt að mikill fjöldi þátta hefur áhrif á árangur þróunarsamvinnu en stöðlun og ákall um árangur verður til þess að einstak­lingar og stofnanir bregðast við með því að aðlaga sig að þeim árangursmælingum sem settar eru á oddinn. Flækjustig þróunarstjórnsýslu veldur því að alhæfingar eru erfiðleikum bundnar en kallað er eftir frekari rann­sóknum til þess að greina algengi hliðarverkana vegna mælingaáráttu. Stofnanir þróunarsamvinnu eru jafnframt hvattar til að taka meiri áhættu í rekstri og ákvörðunum til að forðast stofnanaeinsleitni, McDonalds-væðingu, og neikvæðar afleiðingar hinnar ríkjandi áherslu á árangursstjórnun.

Erla  sem er fædd árið 1972 er frá Brekku í Skagafirði en býr í Reykjavík. Hún lauk BA prófi í stjórnmála- og fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands árið 1996, og meistaragráðu í stjórnsýslufræðum (MPA) frá Dalhousie háskóla í Kanda árið 1999. Erla lauk jafnframt viðbótardiplóma í alþjóðasamskiptum frá Háskóla Íslands árið 2009. Samhliða námi hefur hún sinnt kennslu við Háskóla Íslands og gegndi stöðu rannsóknarstjóra Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Hún starfar nú sem sérfræðingur í þróunarsamvinnu í utanríkisráðuneytinu. Erla er gift dr. Davíð Bjarnasyni og saman eiga þau þrjá syni, Harald Bjarna, Óskar Víking og Stefán Orra.

 

Erla Hlín Hjálmarsdóttir ver doktorsritgerð sína í stjórnmálafræði „Kjarni  árangurs í þróunarsamvinnu. Vatnsveitur í sveitahéruðum Namibíu“

Kjarni árangurs í þróunarsamvinnu. Vatnsveitur í sveitahéruðum í Namibíu