Doktorsvörn í sagnfræði: Pontus Järvstad
Aðalbygging
Hátíðasalur.
Föstudaginn 7. júní fer fram doktorsvörn við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði Háskóla Íslands. Þá ver Pontus Järvstad doktorsritgerð sína í sagnfræði, Postwar Mnemonic Anti-Fascism: The Nordic Committees against the Greek Junta, 1967–1974.
Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.
Andmælendur við vörnina verða Hugo García, dósent við Óháða háskólann í Madrid, og Mogens Pelt, dósent við Kaupmannahafnarháskóla.
Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Vals Ingimundarsonar, prófessors í sagnfræði við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd Ragnheiður Kristjánsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, og Johan Lundin, prófessor við Háskólann í Malmö.
Sverrir Jakobsson, forseti Deildar heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði, stjórnar athöfninni.
Um rannsóknina
Doktorsritgerðin fjallar um starf þverþjóðlegrar norrænnar félagshreyfingar sem barðist gegn herforingjastjórninni í Grikklandi 1967–1974. Greind er sú pólitíska barátta sem hún háði og fjallað um þær aðgerðir sem hún stóð fyrir. Megináherslan er lögð á andfasíska þætti í starfsemi hreyfingarinnar, sem hafði mun víðtækari áhrif en ráða má af fyrri rannsóknum á pólitískri andstöðu gegn herforingjastjórninni. Á öllum Norðurlöndunum voru stofnaðar nefndir til að berjast fyrir endurheimt lýðræðis í Grikklandi og var litið á aðgerðir þeirra sem framhald á sögulegri baráttu gegn fasisma. Með því að taka slíka afstöðu gengu norrænir stjórnmálamenn og aðgerðasinnar stundum gegn ráðandi hugmyndafræði kalda stríðsins. Í ritgerðinni er því haldið fram að minni hafi gegnt lykilhlutverki í að viðhalda andfasískum frásögnum og endurnýja þær. Í þeim skilningi er ritgerðin framlag til fræðilegra rannsókna á andfasisma þar sem áhersla er lögð á hlutverk sameiginlegs minnis og menningarminnis í starfi pólitískra hreyfinga.
Um doktorsefnið
Pontus Järvstad er með BA- og MA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands þar sem hann hefur einkum fengist við stjórnmála,-félags- og hugmyndasögu.
Pontus Järvstad.