Doktorsvörn í sagnfræði: Margrét Gunnarsdóttir
Aðalbygging
Hátíðasal
Föstudaginn 25. ágúst 2023 fer fram doktorsvörn við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði Háskóla Íslands. Þá ver Margrét Gunnarsdóttir doktorsritgerð sína í sagnfræði, Ísland og danskt krúnuvald á Norður-Atlantshafi: Fyrstu skref frjálsrar verslunar 1751–1791. Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.
Andmælendur við vörnina verða Helgi Skúli Kjartansson, prófessor emeritus í sagnfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og Sveinn Máni Jóhannesson, nýdoktor við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands.
Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Önnu Agnarsdóttur, prófessors emerita í sagnfræði við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd Guðmundur Jónsson og Már Jónsson, prófessorar í sagnfræði við Háskóla Íslands.
Sverrir Jakobsson, deildarforseti Deildar heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði, stjórnar athöfninni.
Um rannsóknina
Í ritgerðinni er fjallað um áform um aukið hlutverk Íslands í verslun á Norður-Atlantshafi á árunum 1751–1791. Í umskiptatíð á alþjóðavettvangi sem hófst með sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjamanna, voru uppi áform um að stuðla að valdajafnvægi og bættum utanríkissamskiptum með frjálsri verslun. Æskilegt þótti að stefna einnig að verslunarfrelsi á Íslandi og aðgerðir dönsku krúnunnar í því efni eru sett í samhengi við alþjóðlega viðskiptasamninga á níunda áratugnum. Menningar- og réttararfur þjóðveldistímans, sem einkenndist af pólitísku frelsi, hafði undirliggjandi þýðingu. Samhliða stefnumótun frjálsrar verslunar voru því gefin út ýmis fornrit með hugmyndafræðilegt gildi sem styrktu valdastoðir danska erfðakonungsdæmisins og bentu á rætur siglinga- og verslunarfrelsis. Hægfara innleiðing frjálsrar verslunar á Íslandi sýndi framfarahug danskra stjórnvalda og krúnu og samvinnuanda hennar gagnvart nágrannaríkjum um verslunaráform á Norður-Atlantshafi.
Um doktorsefnið
Margrét Gunnarsdóttir er með B.A.-gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands og M.A.-gráðu frá sama skóla. Margrét starfar sem sérfræðingur í þjóðlendurannsóknum á Þjóðskjalasafni Íslands en var áður um árabil sögukennari í framhaldsskóla.
Margrét Gunnarsdóttir.