Skip to main content

Doktorsvörn í sagnfræði: Dalrún Kaldakvísl Eygerðardóttir

Doktorsvörn í sagnfræði: Dalrún Kaldakvísl Eygerðardóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
27. júní 2022 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Mánudaginn 27. júní 2022 fer fram doktorsvörn við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Þá ver Dalrún Kaldakvísl Eygerðardóttir doktorsritgerð sína í sagnfræði, „Huldufreyjur. Ráðskonur í sveit á síðari hluta 20. aldar“. Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.

Andmælendur við vörnina verða dr. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og dr. Vilhelm Vilhelmsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Norðurlandi vestra

Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Erlu Huldu Halldórsdóttur, prófessors við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd dr. Guðmundur Jónsson, prófessor við Hugvísindasvið, og dr. Unnur Dís Skaptadóttir, prófessor við Félagsvísindasvið.

Steinunn Kristjánsdóttir, forseti Sagnfræði- og heimspekideildar, stjórnar athöfninni.

Um rannsóknina

Doktorsverkefni Dalrúnar,  „Huldufreyjur. Ráðskonur í sveit á síðari hluta 20. aldar“, byggist á sögu ráðskvenna  sem störfuðu á íslenskum sveitaheimilum á síðari hluta 20. aldar. Rannsóknin grundvallast á viðtölum sem tekin voru við fjörutíu og eina fyrrum ráðskonu í sveit; konur sem margar hverjar höfðu starfað sem ráðskonur á tveimur eða fleiri bæjum, alls á 72 sveitabæjum. Viðtölin gera kleift að segja sögu ráðskvenna á grunni sjónarhorns þeirra sjálfra. Í rannsókninni er rakið hvaða störf ráðskonur höfðu með höndum á sveitaheimilum og  viðhorf þeirra til verkskyldna  sinna. Aukinheldur er fjallað um félagslega stöðu ráðskvenna, hvorutveggja með hliðsjón af stöðu þeirra áður en þær hófu störf sem ráðskonur og einnig frá ráðskonutíð þeirra. Í því sambandi er sjónum sérstaklega beint að stöðu einstæðra mæðra, sem voru stærsti einstaki hópur kvenna sem sinnti ráðskonustarfinu. Þar að auki er fjallað um takmörkuð réttindi ráðskvenna í vistinni, á starfsvettvangi þeirra, sveitaheimilinu.

Um doktorsnefnið

Dalrún Kaldakvísl Eygerðardóttir er með BA-gráðu í sagnfræði og BA-gráðu í kvikmyndafræði frá Háskóla Íslands. Hún er einnig með meistaragráðu í sagnfræði frá sama skóla. Dalrún er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur, auk þess sem hún vinnur við fiskirannsóknir hjá rannsóknarfyrirtækinu Laxfiskum. Hún hefur gefið út eina fræðibók. 

Dalrún Kaldakvísl Eygerðardóttir.

Doktorsvörn í sagnfræði: Dalrún Kaldakvísl Eygerðardóttir