Doktorsvörn í Norrænni trú - Ingunn Ásdísardóttir
Aðalbygging
Hátíðarsalur
Doktorsefni: Ingunn Ásdísardóttir
Heiti ritgerðar: Jötnar í blíðu og stríðu: Jötnar í fornnorrænni goðafræði. Ímynd þeirra og hlutverk (e. JǪTNAR IN WAR AND PEACE: The Jǫtnar in Old Norse Mythology: Their Nature and Function)
Andmælendur: Dr. Thomas DuBois prófessor við Háskólann í Wisconsin - Madison og dr. Jens Peter Schjødt prófessor við Háskólann í Árósum.
Leiðbeinandi: Dr. Terry Gunnell, prófessor í þjóðfræði við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands
Aðrir í doktorsnefnd: Dr. John Lindow prófessor emeritus í fornnorrænum fræðum við Kaliforníuháskóla, Berkeley og dr. Ármann Jakobsson prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Hugvísindasvið Háskóla Íslands.
Doktorsvörninni stýrir: Guðbjörg Vilhjálmsdóttir prófessor í náms- starfsráðgjöf og deildarforseti Félags- og mannvísindadeildar
Ágrip af rannsókn:
Markmið doktorsrannsóknarinnar var að skoða þær verur sem nefnast jötnar í heimildum um fornnorrænar goðsagnir, óháð eldri fræðilegum rannsóknum eins og kostur er, þar sem svo til allar eldri rannsóknir taka mjög sterkt mið af því sjónarhorni sem ríkjandi er í heimildunum, en það byggist á því viðhorfi að guðir og menn séu „við“ en jötnar eru skilgreindir sem „hinir“, sem andstæðingar, jafnvel óvinir. Þetta er einkum áberandi í goðsögulegum verkum Snorra Sturlusonar, Gylfaginningu og Skáldskaparmálum. Í tilraun til að losa jötna undan þessu sjónarhorni og komast nær ímynd þeirra og því hlutverki sem þeir gegna í fornnorrænum goðsögnum eru birtingarmyndir þeirra í eddukvæðum og dróttkvæðum skoðaðar á hlutlausum forsendum og allar vísanir til þeirra í þessum goðsagnaheimildum greindar á nýjan leik án áhrifa frá fyrri rannsóknum.
Helstu niðurstöður þessarar greiningar eru þær að mörg kvæðanna virðast geyma sérkennilega jákvæða, jafnvel virðulega, ímynd jötna þar sem þeir birtast allt að því sem jafningjar goðanna (í sumum tilfellum goðunum fremri og jafnvel æðri), jafnir þeim að stærð og líkamsburðum. Þeir standa framarlega í menningarlegu tilliti og hafa aðgang að auðlindum sem goðin ágirnast. Þeir búa einnig yfir sköpunarmætti og ráða yfir kunnáttu í fjölkynngi og fornum fræðum en hvoru tveggja virðist hafa verið ákaflega eftirsótt og mikilsmetin þekking.
Ingunn Ásdísardóttir er fædd árið 1952 á Egilsstöðum. Hún lauk BA prófi í ensku og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 1981 og meistaraprófi í þjóðfræði frá sama skóla árið 2005. Á árunum 1981-1985 stundaði Ingunn leikstjórnarnám í Þýskalandi og hefur unnið bæði með atvinnu- og áhugaleikurum. Ingunn er einnig mikilvirkur þýðandi og hefur þýtt fjölda verka á íslensku, bæði fagurbókmenntir og fræðirit. Árið 2014 hlaut Ingunn Íslensku þýðingaverðlaunin fyrir Ó sögur um djöfulskap eftir færeyska rithöfundinn Carl Johan Jensen. Ingunn á eina dóttur, Ásdísi Grímu, og dóttursoninn Úlf Kára.