Skip to main content

Doktorsvörn í menntavísindum: Hrafnhildur Snæfríðar- og Gunnarsdóttir

Doktorsvörn í menntavísindum: Hrafnhildur Snæfríðar- og Gunnarsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
6. desember 2024 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Hrafnhildur Snæfríðar- og Gunnarsdóttir ver doktorsritgerð sína í menntavísindum með sérhæfingu í gagnrýnum fræðum við Deild menntunar og margbreytileika við Háskóla Íslands.

Vörnin fer fram föstudaginn 6. desember kl. 13:00 í Hátíðasal Háskóla Íslands

Heiti ritgerðar: Ableísk valdatengsl og ósýnileg vinna fatlaðs fólks í COVID-19/Ableist Power Relations and Disabled People’s Invisible Work during COVID-19.

Andmælendur: Dr. Erika Katzman lektor við King‘s University College, Kanada og dr. Rebecca Lawthom prófessor við Háskólann í Sheffield, Englandi.

Aðalleiðbeinandi: dr. Ásta Jóhannsdóttir, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og meðleiðbeinandi dr. Lindsay O’Dell, prófessor við Open University, í Bretlandi.

Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Kristín Björnsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og dr. Laufey Löve, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Stjórnandi athafnar: Dr. Berglind Rós Magnúsdóttir prófessor við Deild menntunar og margbreytileika stjórnar athöfninni.

Öll velkomin

Um  verkefnið:

Á tímum hamfara og samfélagslegra áfalla er fatlað fólk í sérlega viðkvæmri stöðu.  Rannsóknir sýna að viðbragðsáætlanir og undirbúningur aðgerða miða jafnan fyrst og fremst við þarfir og reynslu ófatlaðs fólks. Fyrir vikið reynist stuðningur, sem virkjaður er á hættustund, fötluðu fólki iðulega óaðgengilegur og eykur jafnvel hættuna sem að því steðjar. Í COVID-19 faraldrinum sem geisaði í upphafi áratugarins reyndi mikið á samfélagslega innviði og þær opinberu stofnanir sem ber skylda til að standa vörð um réttindi og velferð fatlaðs fólks. Þrátt fyrir ábendingar alþjóðlegra stofnana og ákall samtaka fatlaðs fólks um mikilvægi þess að aðgerðir tækju mið af þörfum og réttindum fatlaðs fólks er margt sem bendir til þess að í raun hafi slíkt ekki verið gert.

Rannsóknin Ableísk valdatengsl og ósýnileg vinna fatlaðs fólks í COVID-19 beinir sjónum að reynslu fatlaðs fólks í faraldrinum. Markmið rannsóknarinnar var tvíþætt. Annars vegar að varpa ljósi á reynslu fatlaðs fólks í faraldrinum og auka með því fræðilegan skilning á ableísku regluverki og valdatengslum sem stuðla að undirskipun og jaðarsetningu fatlaðs fólks við aðstæður sem þessar. Hins vegar að stuðla að hagnýtri þekkingu sem nýst getur til að bæta viðbrögð í hamförum.

Niðurstöður leiddu í ljós að stuðningskerfi og viðbragðsáætlanir voru ekki undir það búin að mæta álaginu sem skapaðist í faraldrinum. Eldri brotalamir í þjónustu komu þá skýrt í ljós, svo sem langvarandi þjónustuskortur sem hafði grafið undan stuðningi, aukið ábyrgð fólks og í auknum mæli gert ráð fyrir ‚ósýnilegri‘ vinnu af þess hálfu. Krafan um ósýnilegt framlag fatlaðs fólks jókst til muna í faraldrinum þegar stuðningskerfi héldu að sér höndum og jók það mjög á erfiðleikana sem þátttakendur í rannsókninni stóðu frammi fyrir. Niðurstöður varpa ljósi á brotalamir í þjónustu við fatlað fólk og verklagi sem því tengist og undirstrika mikilvægi þess að umbótastarf sé unnið í samvinnu við fatlað fólk og með reynslu þess og forgangsröðun að leiðarljósi.

Rannsóknin er hluti af stærra rannsóknarverkefni sem nefnist Fötlun á tímum faraldurs og miðar að því að varpa ljósi á áhrif heimsfaraldursins á líf fatlaðs fólks á Íslandi. Rannsóknin var styrkt af Rannsóknasjóði Íslands (nr. 217502-052).

Um doktorsefnið:

Hrafnhildur Snæfríðar- og Gunnarsdóttir (f. 1981) lauk BSc-prófi í hjúkrunarfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2008, MS-prófi í kynjafræði frá Háskóla Íslands árið 2011 og Mphil gráðu í fötlunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2021. Hrafnhildur starfaði um árabil hjá Félagsvísindastofnun og Rannsóknarsetri í fötlunarfræði hefur því víðtæka reynslu á sviði rannsókna. Einnig starfar hún á líknardeild Landspítalans. Fræðileg áhugamál hennar eru á sviði aðferðafræði og krítískra fræða, einkum fötlunarfræða og kynjafræða.

Hrafnhildur Snæfríðar- og Gunnarsdóttir ver doktorsritgerð sína í menntavísindum með sérhæfingu í gagnrýnum fræðum við Deild menntunar og margbreytileika við Háskóla Íslands. Vörnin fer fram föstudaginn 6. desember kl. 13:00 í Hátíðasal Háskóla Íslands

Doktorsvörn í menntavísindum: Hrafnhildur Snæfríðar- og Gunnarsdóttir