Skip to main content

Doktorsvörn í menntavísindum: Eva Harðardóttir

Doktorsvörn í menntavísindum: Eva Harðardóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
1. nóvember 2023 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur Háskóla Íslands

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Eva Harðardóttir ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Háskóla Íslands. Vörnin fer fram miðvikudaginn 1. nóvember kl. 13:00 í Hátíðarsal Háskóla Íslands og verður einnig streymt.

Hlekkur á streymi

Heiti ritgerðar: Að finna sig heima í hnattvæddum heimi: Borgaravitund, inngilding og menningarlegur margbreytileiki í íslensku menntakerfi

Andmælendur: Dr. Morten Timmermann Korsgaard dósent við Háskólann í Malmö, Svíþjóð, og dr. Karen Pashby prófessor við Manchester Metropolitan University, Englandi.

Aðalleiðbeinandi: Dr. Berglind Rós Magnúsdóttir prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. 

Meðleiðbeinandi: Dr. Ólafur Páll Jónsson prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Halla Björk Hólmarsdóttir prófessor við Oslo Metropolitan University, Noregi, og dr. Jo-Anne Dillabough prófessor við University of Cambridge, Englandi.     

Dr. Jón Ingvar Kjaran varaforseti Deildar menntunar og margbreytileika stjórnar athöfninni.

Verið öll velkomin.

Um  verkefnið:

Doktorsverkefnið byggir á þremur aðskildum en tengdum rannsóknum þar sem meginmarkmiðið var að skilja hvernig borgaravitund og inngilding birtast í tengslum við menningarlegan margbreytileika á íslenskum menntavettvangi. Rannsóknin byggir á greiningu á íslenskum stefnuskjölum, viðtölum við kennara sem og viðtölum við foreldra með stöðu innflytjenda og flóttafólks. Þá fór einnig fram fræðileg greining á þýðingu hnattrænnar borgaramenntunar sem inngildandi leiðar til þess að mæta menningarlegum margbreytileika í skólastarfi. Fræðilegur bakgrunnur verkefnisins byggir á gagnrýnum kenningum um hnattræna borgaramenntun (e. global citizenship education) auk þess sem stuðst var við hugmyndir Hönnu Arendt um hlutverk menntunar og mikilvægi þess að taka mið af og heimsækja (e. visiting) mismunandi sjónarmið ólíkra aðila.

Niðurstöður benda til þess að umfjöllun um borgaravitund og inngildingu í stefnumótunarskjölunum og frásögnum kennara endurspegli margþætta og oft mótsagnakennda orðræðu. Á sama tíma og kennarar lýstu mikilli samkennd og vilja til þess að styðja við nemendur með bakgrunn innflytjenda og flóttafólks studdust þeir einnig við ríkjandi og oft á tíðum útilokandi orðræðu með því að leggja áherslu á samlögun eða samkeppni á tilteknum sviðum eins og að tengja tungumálakunnáttu og hefðir með beinum hætti við möguleika til þátttöku og inngildingu. Frásagnir foreldranna í rannsókninni bentu til þess að þau upplifðu öll, þvert á ólíkan bakgrunn og stöðu í íslensku samfélagi, margþætta innri útilokun. Slík útilokun lýsti sér í því að hugmyndir þeirra, þekking og reynsla voru að jafnaði ekki tekin gild í samskiptum þeirra við kennara og íslenska foreldra sem leiddi til þess að þau upplifðu sig sem útlaga (e. outsiders) á vettvangi skólans. Þannig mátti greina skýra aðgreiningu og ójafna valdastöðu á milli íslenskra aðila annars vegar og innflytjenda og flóttafólks hins vegar. Lítill munur virtist vera á upplifun foreldra sem voru nýflutt til landsins og höfðu lítil eða engin tök á íslensku og þeirra sem höfðu búið lengi í landinu og höfðu góð tök á tungumálinu en slíkar niðurstöður stangast á við hugmyndir um inngildingu sem línulegt ferli á grunni tungumálahæfni.  

Í doktorsverkefninu er bent á mikilvægi þess að nálgast hugmyndir um borgaravitund og inngildingu á gagnrýninn og afmiðjaðan hátt. Í því felst að hugsa á heildrænan hátt um hlutverk menntunar í hnattvæddum heimi þar sem tekið er tillit til og byggt á menningarlegum margbreytileika. Hvatt er til þess að skólar leggi sérstaka rækt við að líta á hina „ungu og nýju“ borgara sem mikilvægan hlekk í því að móta heiminn til hins betra. Hvatt til þess að ráðandi aðilar á íslenskum menntavettvangi setji sig sjálf í hlutverk ‘gestsins’ í anda Arendt. Það er að segja þess sem sækist eftir því að hlusta á raddir innflytjenda og flóttafólks og nýta þau viðhorf til að endurskoða og þróa sýn á hvað það þýðir að vera borgari og að tilheyra í hnattvæddum heimi. Slíkt kallar á stuðning við kennara og kennaramenntun í anda gagnrýninnar kennslufræði þar sem tækifæri gefst til að kafa ofan í spurningar sem varða markmið menntunar umfram hið fyrirsjáanlega. Þá er einnig bent á mikilvægi þess rannsaka frekar þá mótsagnakenndu orðræðu sem birtist á vettvangi menntunar og greina með hvaða hætti hún getur haft áhrif á möguleika ólíkra hópa til inngildingar og þátttöku í íslensku samfélagi.

Um doktorsefnið

Eva Harðardóttir er menntaður uppeldis- og menntunarfræðingur með kennsluréttindi frá Háskóla Íslands. Hún lauk sameiginlegri meistaragráðu í menntunarfræðum með áherslu á alþjóðlega stefnumótun og stjórnun frá Deusto háskóla á Spáni og Árósarháskóla í Danmörku. Eva hefur sinnt kennslu og rannsóknum á Menntavísindasviði Háskóla Íslands með hléum frá því að hún lauk þaðan grunnnámi. Hún starfaði sem framhaldsskólakennari við Keili á árunum 2010 til 2012 og við Menntaskólann á Akureyri frá 2018 til 2020. Frá 2013 til 2016 starfaði Eva fyrir UNICEF í Malaví þar sem hún vann að mótun og innleiðingu menntastefnu og verkefna á sviði kynjajafnréttis- og menntamála í samvinnu við menntamálaráðuneytið í Malaví. Þá hefur hún einnig starfað sem verkefnastjóri fyrir GEST kynjafnréttisskóla GRÓ. Eva tók nýverið við sem stjórnarformaður félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi en hún var áður í stjórn félagsins. Eva hefur komið að fjölbreyttri námsefnisgerð og námskeiðshaldi fyrir kennara og fagfólk sem snýr sérstaklega að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og hnattrænni borgaravitund. Eva er formaður velferðar- og fræðslunefndar í Hveragerðisbæ þar sem hún býr ásamt eiginmanni sínum Lárusi Jónssyni, körfuknattleiksþjálfara og börnum þeirra, Heru Fönn og Alexander Hafsteini.

.

Doktorsvörn í menntavísindum: Eva Harðardóttir