Doktorsvörn í matvælafræði - Magdalena Stefaniak Viðarsson
Aðalbygging
Hátíðasalur
Miðvikudaginn 6. desember næstkomandi ver Magdalena Stefaniak Viðarsson doktorsritgerð sína í matvælafræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Mat á lífvirkni fjölsykruútdrátta af sjávaruppruna. Evaluation of bioactive properties of marine-derived polysaccharide extracts.
Andmælendur eru dr. Maher Abou Hachem, dósent við Danmarks Tekniske Universitet - DTU, og dr. Berglind Eva Benediktsdóttir, dósent við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands.
Í doktorsnefnd Magdalenu sátu dr. María Guðjónsdóttir, dósent í Matvæla- og næringarfræðideild, dr. Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, klínískur prófessor við Læknadeild, dr. Kristberg Kristbergsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild, og dr. Sesselja Ómarsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild.
Guðjón Þorkelsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni sem fram fer í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 9:30.
Ágrip af rannsókn
Kolvetni skipa meginsess í lífefni sjávar. Fjölsykrur eru meðal mikilvægustu byggingasteina ýmissa sjávarlífvera, svo sem þangi og þara, auk nokkurra hryggleysingja (sæbjúgu og ígulker). Fjölsykrur sem upprunnar eru úr hafinu hafa verið notaðar í ýmsum tilgangi, s.s. við matargerð, til næringarefnagerðar og lyfjagerðar. Þrátt fyrir miklar framfarir í rannsóknum á sjávartengdum fjölsykrum er mörgum spurningum enn ósvarað hvað varðar líffræðilega eiginleika þeirra.
Tilgangur verkefnisins var að rannsaka fjölsykrur af sjávaruppruna og afla frekari upplýsinga og þekkingar á eiginleikum þeirra, með áherslu á hugsanlega eiginleika þeirra til ónæmisstýringar.
Útdrættirnir sem voru til rannsóknar voru fengnir úr sjávarlífverum s.s. brúnþörungum (Saccharina latissima, Laminaria digitata og Laminaria hyperborea), ásamt rauðfóta sæbjúgum (Cucumaria frondosa). Útdrættirnir voru fengnir með ýmsum útdráttaraðferðum (vatns-, etanóls- og ensímútdrætti) sem leiddi til afurða með mikinn breytileika í bæði efnasamsetningu og lífvirkni.
Hefðbundnar efnamælingar voru notaðar til að mæla fjölfenól og fjölsykrusamsetningu, en einnig voru andoxandi eiginleikar útdráttanna metnir með svokallaðri „oxygen radical absorbance capacity“ (ORAC) aðferð. Þar að auki voru eiturefnaáhrif efnanna rannsökuð til að meta öryggi útdráttanna gagnvart THP-1-mónósýtum.
Útdrættirnir úr þaranum og sæbjúgunum juku losun bólgumyndandi (TNF-a and IL-6), og bólguhamlandi (IL-10) frumuboða, sem getur gefið í skyn að efnin megi nota í ónæmisstýrandi tilgangi. Ónæmisstýrandi eiginleikar efnanna eru þó sterklega háðir fjölsykrusamsetningu og fjölfenól samsetningu þeirra, ásamt andoxandi eiginleikum þeirra.
Greiningar á efnasamsetningu efnanna samhliða frumuprófunum tengir saman fjölda vísindagreina, s.s. matvælafræði, næringarfræði, líftækni og ónæmisfræði, og veitir því yfirgripsmeiri þekkingu en áður á þeim efnum sem finna má í fæðu manna og hvaða áhrif þau hafa á líkamann.
Um doktorsefnið
Magdalena útskrifaðist með meistarapróf í Medical biotechnology árið 2004 frá University of Wroclaw í Póllandi. Magdalena hóf störf hjá DeCode genetics sem vísindamaður (research associate) árið 2006 við genotype-deild fyrirtækisins. Við tóku rannsóknir og síðar doktorsstaða við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, en samhliða því vann hún einnig að verkefnum hjá Matís og TaraMar til skemmri tíma. Meirihluti doktorsverkefnisins er þó unninn við Blóðbankann í Reykjavík. Magdalena hefur nýlega verið ráðin til starfa við ónæmisfræðideild Landspítalans og mun hún hefja störf þar fljótlega eftir útskrift. Magdalena er gift Helga Viðarssyni og eiga þau dótturina Elínu Maríu, sem er fædd 2011.
Magdalena Stefaniak Viðarsson