Doktorsvörn í mannfræði - Stephanie Matti
Aðalbygging
Hátíðasalur
Þriðjudaginn 22. nóvember ver Stephanie Matti doktorsritgerð sína Stjórnun á fordæmalausri áhættu: Óstöðugar fjallshlíðar á Íslandi og Grænlandi (Managing unprecedented risk: Unstable slopes in Iceland and Greenland). Vörnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands kl. 14:00 og er öllum opin. Hægt verður að fylgjast með streymi hér.
Leiðbeinandi er dr. Helga Ögmundardóttir, dósent við Háskóla Íslands. Aðrir í doktorsnefnd eru dr. Guðfinna Aðalgeirsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, dr. Uta Reichardt við Háskóla Íslands, and dr. Miriam Cullen, dósent við Kaupmannahafnarháskóla.
Andmælendur eru dr. Kristoffer Albris, lektor við Kaupmannahafnarháskóla og dr. Deanne Bird hjá ríkisstjórn Viktoríu-fylkis í Ástralíu.
Vörninni stýrir dr. Ólafur Rastrick, deildarforseti Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideildar.
Um doktorsefnið
Steph Matti er frá Ástralíu. Eftir grunnnám fluttist hún til Genfar í Sviss þar sem hún lagði stund á meistaranám í alþjóðastjórnmálum. Steph starfaði í yfir sex ár við mannúðarmál meðal annars fyrir Sameinuðu Þjóðirnar og fjölmörg mannréttindasamtök í Pakistan, Afganistan, Myanmar, Ítalíu og Sviss. Árið 2018 fluttist Stephanie til Íslands til að hefja doktorsnám sitt við Háskóla Íslands. Samhliða námi hefur hún starfað sem jöklaleiðsögumaður sem hluti af rannsókn sinni ásamt því að vera meðlimur í Hjálparsveit skáta í Kópavogi. Steph kynntist eiginmanni sínum hérlendis og ætlar sér að dvelja hér eitthvað áfram.
Ágrip
Loftslagsbreytingar valda sífellt fleiri og alvarlegri tegundum náttúruvár og umhverfistengdar hættur koma nú betur í ljós á landsvæðum sem hafa jafnvel aldrei áður þurft að kljást við slíkt. Doktorsritgerð þessi hefur það markmið að auka skilning á því hvernig viðbragðsáætlanir og aðgerðir eru framkvæmdar þegar um er að ræða óþekktar loftslagstengdar hættur. Rannsóknin felst í því að kanna hinar ýmsu félagslegu hliðar þeirrar vár sem stafar af sprungunni í Svínafellsheiði, m.a. út frá staðbundinni þekkingu á nýjum hættum af þessu tagi, kanna áhrif viðbragðsáætlana á sálfélagslega líðan, skoða þau samskipti um vána sem eiga sér stað milli ólíkra hópa og að varpa ljósi á áætlanir um brottflutning fólks af hættusvæðinu.
Notuð var etnógrafísk aðferð, með aðferðafræðilegri nálgun grundaðrar kenningar, og var gögnum safnað með hálfopnum viðtölum, þátttökuathugunum, skjalarýni, sem og víðtækri könnun á heimildum á viðkomandi rannsóknasviði. Einnig var gerður samanburður á því tilviki sem er í brennidepli rannsóknarinnar við annað sambærilegt tilvik, þ.e. viðbrögð og áætlanir sem gripið var til þegar flóðbylgjur af völdum framhlaups urðu í Karrat- og Uummannaqfjörðum á Grænlandi. Rannsóknin var gerð frá september 2018 til maí 2022.
Þriðjudaginn 22. nóvember ver Stephanie Matti doktorsritgerð sína Stjórnun á fordæmalausri áhættu: Óstöðugar fjallshlíðar á Íslandi og Grænlandi (Managing unprecedented risk: Unstable slopes in Iceland and Greenland). Vörnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands kl. 14:00 og er öllum opin.