Doktorsvörn í mannfræði - Guðbjört Guðjónsdóttir
Aðalbygging
Hátíðarsalur
Doktorsefni: Guðbjört Guðjónsdóttir
Heiti ritgerðar: „Við erum ekki innflytjendur“: Reynsla Íslendinga í Noregi eftir hrunið 2008 (e.”We are Not Immigrants”: The Experiences of Icelandic Migrants in Norway After the 2008 Financial Crash)
Andmælendur: Dr. Marit Aure, prófessor við félagsvísindadeild UiT, The Arctic University of Norway, Tromsø, og Dr. Hanna Ragnarsdóttir, prófessor í fjölmenningarfræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Leiðbeinandi: Dr. Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands.
Aðrir í doktorsnefnd: Dr. Thomas Hylland Eriksen, prófessor í mannfræði við Háskólann í Oslo og Dr. Unnur Dís Skaptadóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands.
Doktorsvörninni stýrir: Dr. Hanna Björg Sigurjónsdóttir, varadeildarforseti Félags- og mannvísindadeildar.
Ágrip af rannsókn:
Í kjölfar efnahagshrunsins í október 2008 flutti aukinn fjöldi Íslendinga til Noregs í atvinnuleit. Markmið doktorsrannsóknarinnar var að skoða upplifun þessa íslenska hóps í Noregi, með áherslu á hvernig kyn, kynþáttur, þjóðerni og stétt skarast þegar kemur að reynslu fólks á faraldsfæti. Rannsókninni er ætlað að vera framlag til fólksflutningarannsókna, sem hafa aðeins að takmörkuðu leyti skoðað flutninga fólks innan hins hnattræna Norðurs, og að varpa ljósi á og gagnrýna hvernig „innflytjandinn“ er settur fram í almennri og akademískri orðræðu.
Rannsóknin byggir á mannfræðikenningum en hana má einnig staðsetja innan þverfaglegs sviðs fólksflutningarannsókna. Feminískar kenningar um samtvinnun og gagnrýnar kenningar um hvítleika og stétt voru nýttar til greiningar á reynslu og stöðu þátttakenda. Þrjár meginaðferðir voru notaðar: hálf-stöðluð viðtöl við Íslendinga í Noregi, þátttökuathuganir á samkomum Íslendinga í Noregi, og greining á íslenskri og norskri fjölmiðlaumfjöllun.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að samanborið við marga aðra innflytjendur voru þátttakendur rannsóknarinnar í ákveðinni forréttindastöðu í Noregi vegna íslensks þjóðernis síns og hvítleika. Niðurstöðurnar beina líka athygli að þeim mun sem finna má innbyrðis á milli Íslendinganna og hvernig þeir voru í ólíkri stöðu með tilliti til kyns, stéttar og tungumálakunnáttu. Rannsóknin undirstrikar jafnframt hvernig notkun innflytjandahugtaksins er háð samhengi. Þannig sögðu þátttakendurnir gjarnan að þeir teldust ekki innflytjendur því þeir væru norrænir og hvítir, en það kom þó fyrir að þeir samsömuðu sig við þetta hugtak, sérstaklega í aðstæðum þar sem þeim fannst þeir hafa mætt neikvæðu viðmóti eða verið útilokaðir. Notkun þátttakenda á innflytjendahugtakinu undirstrikar því neikvæða merkingu þess og hvernig það er tengt við að vera í viðkvæmri stöðu.
Um Guðbjörtu:
Guðbjört Guðjónsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1979. Hún lauk BA-prófi í mannfræði frá Háskóla Íslands árið 2004 og MA-prófi í mannfræði frá sama skóla árið 2010. Maki Guðbjartar er Aðalsteinn Guðmundsson tölvunarfræðingur og tónlistarmaður og sonur þeirra er Bjartur.
Guðbjört veitir frekari upplýsingar um doktorsrannsókn sína í síma 695 1768 eða í gegnum netfangið gug42@hi.is.
Guðbjört Guðjónsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1979. Hún lauk BA-prófi í mannfræði frá Háskóla Íslands árið 2004 og MA-prófi í mannfræði frá sama skóla árið 2010. Maki Guðbjartar er Aðalsteinn Guðmundsson tölvunarfræðingur og tónlistarmaður og sonur þeirra er Bjartur.