Doktorsvörn í mannfræði - Eyrún Eyþórsdóttir
Aðalbygging
Hátíðasalur
Föstudaginn 14. janúar 2022 mun Eyrún Eyþórsdóttir verja doktorsritgerð sína í mannfræði við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands. Doktorsritgerðin ber heitið Afkomendur Brasilíufaranna: Íslensk sjálfsmyndasköpun í Brasilíu. Vörnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands kl. 14:00 og er öllum opin.
Ritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Kristínar Loftsdóttur, prófessors í mannfræði við Háskóla Íslands. Auk hennar voru í doktorsnefnd dr. Ólöf Garðarsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, og dr. Margaret Willson, dósent í mannfræði og skandinavískum fræðum við University of Washington, Seattle í Bandaríkjunum.
Andmælendur eru dr. Terje Mikael Hasle Joranger, sagnfræðingur við Innflytjendasafnið í Ósló í Noregi, og dr. Ruben Oliven, prófessor í mannfræði við Universidade Federal do Rio Grande do Sul, Porto Alegre í Brasilíu.
Doktorsvörninni stýrir dr. Ólafur Rastrick, varadeildarforseti Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideildar.
Um doktorsefnið
Eyrún Eyþórsdóttir lauk B.A. prófi í mannfræði við Háskóla Íslands og M.A. prófi í félagsfræði við sama háskóla. Hún starfar sem lektor, við námsbraut í lögreglufræði, við Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri. Eyrún lauk jafnframt námi við Lögregluskóla ríkisins árið 2003 og hefur hún starfað meira og minna sem lögreglumaður frá þeim tíma.
Ágrip
Í ritgerðinni er fjallað um afkomendur lítils hóps Íslendinga sem fluttist til Brasilíu árin 1863 og 1873. Rannsókninni er einkum ætlað að varpa ljósi á með hvaða hætti íslenskur uppruni mótar sjálfsmyndir afkomenda Brasilíufaranna í samtímanum. Sjálfmyndasköpun byggð á íslenskum uppruna er skoðuð í samhengi við kenningar um fólksflutninga, hugmyndir um menningararfleifð og hvítleika. Þrátt fyrir að einkum sé horft til samtímans í rannsókninni var saga Brasilíufaranna jafnframt skoðuð út frá sögulegum gögnum, þar sem sjónum var m.a. beint að félagslegum og efnahagslegum bakgrunni Brasilíufaranna sjálfra.
Rannsóknin sýnir að eftir að Íslendingarnir settust að í Brasilíu undir lok 19. aldar töpuðu þeir þekkingu á íslenskri tungu og héldu ekki í íslenskar hefðir. Litlar minjar um Brasilíufarana er því að finna meðal afkomenda þeirra í samtímanum. Um 130 árum eftir að Íslendingarnir settust að í Brasilíu hóf engu að síður hópur afkomendanna að leggja rækt við hugmyndir um íslenskan uppruna. Í kjölfarið var komið á laggirnar skipulögðu félagastarfi með það að markmiði að hlúa að þessum menningararfi og skapa tengsl við Ísland. Þennan nýja áhuga á íslenska upprunanum má skilja í ljósi sköpunar þjóðernissjálfsmyndar í Brasilíu sem byggir m.a. á hugmyndum um hvítleika og efnahagslega stöðu.
Rannsóknin var unnin með eigindlegum aðferðum, m.a. viðtölum við Brasílíubúa af íslenskum uppruna og vettvangsathugun í Brasilíu, auk greiningar á sögulegum gögnum.
Hlekkur á streymi: https://livestream.com/hi/DoktorsvornEyrunEythorsdottir
Föstudaginn 14. janúar 2022 mun Eyrún Eyþórsdóttir verja doktorsritgerð sína í mannfræði.