Doktorsvörn í líffræði - Charles Christian Riis Hansen
Askja
Stofa 132
Streymi: https://livestream.com/hi/doktorsvorncharleschristianriishansen
Doktorsefni: Charles Christian Riis Hansen
Heiti ritgerðar: Hafernir í tíma og rúmi. Stofnerfðafræði og áhrif mikillar fækkunar hjá Haliaeetus albicilla (White-tailed eagles in time and space. Population genetics and the aftermath of severe bottlenecks in Haliaeetus albicilla)
Andmælendur:
Dr. Frank Hailer, dósent við Cardiff University, Bretlandi
Dr. Jón Hallsteinn Hallsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands
Leiðbeinandi: Dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands
Einnig í doktorsnefnd:
Dr. M. Thomas P. Gilbert, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla
Dr. Agnar Helgason, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands og yfirmaður Mannfræðideildar Íslenskrar erfðagreiningar
Doktorsvörn stýrir: Dr. Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands
Ágrip
Áhrif stofnstærðarsveiflna á erfðabreytileika og hegðun breytileika í litlum stofnum hefur verið vel lýst. Fjölmargar rannsóknir í líffræði hafa verið gerðar á erfðabreytileika stofna en sjaldan hafa sýni verið greind fyrir og eftir slíkar niðursveiflur, sem kallaðar hafa verið erfðafræðilegur flöskuháls, og því eru áhrifin oft greind eftir breytingarnar annaðhvort með líkanagerð eða með samanburði við stofna sem hafa ekki farið í gegnum slíkan flöskuháls. Haförninn er ein margra tegunda sem hefur fækkað mikið vegna áhrifa mannsins. Tegundin er útdauð á mörgum svæðum en haferninum fer nú fjölgandi. Til að rannsaka áhrif flöskuhálsa og erfðabreytileika hjá haförnum á Íslandi og í nálægum löndum voru þrjár rannsóknir gerðar á erfðamengjum tegundarinnar. Í fyrsta lagi var erfðabreytileiki og saga stofna á Íslandi og í fjórum nálægum löndum metin með því að greina erfðamengi hvatbera hjá núlifandi örnum. Náttúrulegt val virðist hafa viðhaldið breytileika í hvatberamengjunum innan stofna. Í öðru lagi var árangur fjögurra aðferða til að greina Z-kynlitninginn í erfðamengjum arnanna metinn, en greining á breytileika m.t.t. til meginlitninga er mikilvæg þar sem stofnstærð þeirra er mismunandi og þeir geta átt ólíka þróunarsögu. Þriðja og ítarlegasta rannsóknin var um aðgreiningu í erfðamengjum stofna við Norður-Atlantshaf, þ.e. frá Íslandi, Grænlandi og fjórum öðrum löndum á meginlandi Evrópu. Í samanburði á um hundrað ára gömlum sýnum, fengnum úr söfnum, og nýjum sýnum greindust skýr áhrif af flöskuhálsum á breytileika erfðamengjanna, bæði innan og milli stofna. Rannsóknin leiddi einnig í ljós hluta af þróunarsögu þessara ólíku stofna.
Um doktorsefnið
Charles Christian Riis Hansen fæddist 1987 og ólst upp í Kaupmannahöfn hjá foreldrum sínum Lars og Gerd. Hann lauk grunn- og meistaranámi í líffræði frá Kaupmannahafnarháskóla þar sem hann kynntist konu sinnu Idu, sem studdi hann vel í doktorsnámi hans. Í námi sínu sérhæfði Charles sig í erfðafræði og þróunarfræði og var viðfangsefni hans í meistaraverkefni stofnerfðafræði sauðnauta. Þær rannsóknir leiddu til þess að hann hóf doktorsnám til að rannsaka svipuð verkefni.
Charles Christian Riis Hansen