Skip to main content

Doktorsvörn í læknavísindum - Sólveig Helgadóttir

Doktorsvörn í læknavísindum - Sólveig Helgadóttir  - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
6. janúar 2017 13:00
Hvar 

Aðalbygging

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Sólveig Helgadóttir ver doktorsritgerð sína í læknavísindumsem ber heitið: Bráður nýrnaskaði eftir hjartaskurðaðgerðir - tíðni, áhættuþættir, tengsl við aðra fylgikvilla við og eftir skurðaðgerð, lifun og langtímaáhrif á nýrnastarfsemi. Acute kidney injury following cardiac surgery - Incidence, risk factors, association with other perioperative complications, survival and renal recovery.

Andmælendur eru dr. Theis Tönnesen, prófessor í hjarta- og lungnaskurðlækningum við  Háskólasjúkrahúsið í Ósló, og dr. Sunna Snædal Jónsdóttir,  sérfræðingur í nýrnalækningum og lyflæknisfræði á Landspítala.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Tómas Guðbjartsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands. Auk hans sátu í doktorsnefnd dr. Gísli H. Sigurðsson og Runólfur Pálsson, báðir prófessorar við Læknadeild Háskóla Íslands, Arnar Geirsson, dósent við Yale-háskóla í Bandaríkjunum og sérfræðingur í hjartaskurðlækningum, og dr. Martin Ingi Sigurðsson, sérfræðingur í svæfingalækningum við Duke-háskóla í Bandaríkjunum.

Magnús Karl Magnússon, deildarforseti og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13.00.

Ágrip af rannsókn
Meginmarkmið rannsóknarinnar var að meta tíðni og áhættuþætti bráðs nýrnaskaða eftir hjartaaðgerðir á Íslandi, en árlega eru framkvæmdar um 250 opnar hjartaaðgerðir hér á landi. Auk þess voru könnuð tengsl bráðs nýrnaskaða og annarra fylgikvilla eftir opnar hjartaaðgerðir, einkum gáttatifs. Einnig voru tengsl bráðs nýrnaskaða og langtíma skerðingar á nýrnastarfsemi rannsökuð, þar með talið þörf á nýrnaskilunarmeðferð, sem og langtímalifun sjúklinga. Að lokum var sérstaklega lagt mat á hvaða áhrif bati á nýrnastarfsemi hefur á langtímahorfur sjúklinga sem hljóta bráðan nýrnaskaða eftir hjartaaðgerð.

Við rannsóknirnar, sem birtast í  fimm greinum, var stuðst við gagnagrunna með ítarlegum upplýsingum um alla sjúklinga sem gengust undir hjartaaðgerðir á Íslandi á árabilinu 2001 til 2015, en einnig var gengið út frá dánarmeinaskrá, skrá yfir sjúklinga sem fengu nýrnaskilun á Íslandi og upplýsingum um nýrnastarfsemi sjúklinga, bæði fyrir og eftir aðgerð. Þannig var hægt að leggja mat á tíðni og spá fyrir um áhættuþætti bráðs nýrnaskaða.

Rannsóknirnar leiddu í ljós að tíðni bráðs nýrnaskaða eftir hjartaaðgerð er heldur lægri hér á landi en í nágrannalöndum. Bráður nýrnaskaði tengdist hins vegar verri lifun sjúklinga eftir aðgerð, sem meðal annars speglast í hærri tíðni ýmissa fylgikvilla og aukinni þörf á nýrnaskilunarmeðferð. Auk þess var tíðni gáttatifs, sem er algengasti fylgikvilli hjartaaðgerða, marktækt aukin hjá sjúklingum með bráðan nýrnaskaða. Meirihluti sjúklinga með nýrnaskaða virtist hins vegar endurheimta nýrnastarfsemi í kjölfar aðgerðar og þeir lifðu marktækt lengur en sjúklingar með viðvarandi nýrnaskaða. Engu að síður er ákjósanlegast að fyrirbyggja þennan tíða og oft hættulega fylgikvilla.

Um doktorsefnið
Sólveig Helgadóttir fæddist árið 1985 í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi af náttúrufræði- og nýmálabraut Menntaskólans við Hamrahlíð árið 2004 og kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2010. Sólveig hóf doktorsnám við Læknadeild Háskóla Íslands árið 2014 og frá árinu 2015 hefur hún einnig lagt stund á sérnám í svæfingar- og gjörgæslulækningum við Háskólasjúkrahúsið í Uppsölum. Sólveig er dóttir Helga H. Jónssonar, fyrrverandi fréttamanns, og Helgu Jónsdóttur, stjórnarkonu í ESA, eftirlitsstofnunar EFTA. Eiginmaður Sólveigar er Bóas Hallgrímsson háskólanemi og eiga þau börnin Daníel Loka og Helgu Maríu.