Doktorsvörn í læknavísindum - Guðný Stella Guðnadóttir
Aðalbygging
Hátíðasalur
Guðný Stella Guðnadóttir doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Þegar slembirannsóknum sleppir. Áhrif fjölveikinda, aldurs og kyns á meðferð kransæðasjúkdóma. Beyond Randomized Clinical Trials. Multi-morbidity, Age and Gender Impact on the Treatment of Coronary Artery Disease.
Andmælendur eru dr. Joakim Alfredsson, dósent við Háskólann í Linköping, og dr. Pálmi V. Jónsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands.
Umsjónarkennari var dr. Karl K. Andersen, prófessor við Læknadeild, og leiðbeinandi var dr. Þórarinn Guðnason, hjartalæknir. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Inga Sigurrós Þráinsdóttir hjartalæknir, Bo Lagerqvist yfirlæknir við sjúkrahúsið í Uppsölum og Stefan K.James prófessor.
Engilbert Sigurðsson, prófessor og deildarforseti við Læknadeild Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 9:00.
Ágrip af rannsókn
Konur, fjölveikir aldraðir og aðrir minnihlutahópar með kransæðasjúkdóma bera oft skarðan hlut frá borði við framkvæmd slembirannsókna. Tilgangur þessarar doktorsrannsóknar var að rannsaka nokkra slíka hópa með gögnum úr gæðaskránni SWEDEHEART. Á Íslandi var sjaldnar þrætt í gegnum úlnliðsslagæð en í Svíþjóð og fylgikvillar eftir kransæðavíkkanir voru algengari hér á landi árið 2007. Konur með brátt kransæðaheilkenni höfðu tvöfaldar líkur á fylgikvillum eftir kransæðavíkkanir miðað við karla. Konur með þrengingu í einni kransæð fóru síður í kransæðavíkkun en karlar. Í hópnum með þrengingar í þremur kransæðum og/eða í höfuðstofni, fóru konur oftar í kransæðavíkkun en var sjaldnar vísað í opna kransæðaaðgerð. Enginn kynjamunur var á þrjátíu daga dánartíðni. Fjölveikir hrumir einstaklingar sem voru sjötugir eða eldri með með hjartavöðvadrep með ST hækkun á hjartarafriti (STEMI) sem fengu ífarandi meðferð höfðu lægri dánartíðni og minni líkur á að fá samsettan klínískan endapunkt miðað við þá sem fengu lyfjameðferð. Þetta er í samræmi við niðurstöður slembirannsókna á yngri og hraustari einstaklingum. Nær allir háaldraðir einstaklingar á tíræðisaldri sem fóru í kransæðaþræðingu í Svíþjóð á níu ára tímabili voru rannsakaðir og nær allir höfðu einhver kransæðaþrengsl og meirihluti þeirra hafði þrengsl í fleiri en einni æð. Kransæðavíkkanir hjá einstaklingum á tíræðisaldri voru nánast eingöngu framkvæmdar vegna bráðra ábendinga og fylgikvillar voru ekki langt frá fylgikvillum yngri einstaklinga. Mikilvægt er að sýna fram á að meðferðir sem sannað hafa gild sitt í slemirannsóknum á tiltölulega hraustu miðaldra fólki með kransæðasjúkdóma hafi einnig góð áhrif hjá þeim sem eru eldri og veikari.
Um doktorsefnið
Guðný Stella Guðnadóttir er fædd árið 1979 í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut Menntaskólans við Reykjavík árið 1999, kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2005, sérnámi í lyflækningum 2014 og sérnámi í öldrunarlækningum árið 2016. Frá árinu 2011 hefur hún starfað við háskólasjúkrahúsið í Gautaborg í Svíþjóð. Guðný Stella er dóttir Guðna Friðriks Gunnarssonar, sölumanns, og Ingveldar Haraldsdóttur hjúkrunarfræðings. Eiginmaður Guðnýjar Stellu er Helgi Guðmundsson atferlisfræðingur og eiga þau drengina Skarphéðin Gunnar og Hafþór Kristberg.
Guðný Stella Guðnadóttir