Doktorsvörn í læknavísindum - Anna Bryndís Einarsdóttir
Aðalbygging
Hátíðasalur
Fimmtudaginn 15. desember ver Anna Bryndís Einarsdóttir, taugalæknir, doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Súrefnismælingar í augnbotnum í Alzheimer sjúkdómi, vægri vitrænni skerðingu og heila- og mænusiggi. Retinal oximetry in Alzheimer´s disease, Mild Cognitive Impairment and Multiple Sclerosis.
Andmælendur eru dr. Doreen Schmidl, lektor, við Medical University of Vienna, og dr. Stefán B. Sigurðsson, prófessor emeritus við Háskólann á Akureyri.
Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Sveinn Hákon Harðarson. Auk hans sátu í doktorsnefnd dr. Haukur Hjaltason, prófessor, dr. Jakob Grauslund, prófessor, dr. Jón Snædal, yfirlæknir og dr. Ólöf Birna Ólafsdóttir, lektor.
Dr. Þórarinn Guðjónsson, prófessor og forseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13.00.
Vörninni verður streymt: https://livestream.com/hi/doktorsvornannabryndiseinarsdottir
Ágrip
Sjónhimnan er hluti af miðtaugakerfinu og myndgreining á sjónhimnu nýtur vaxandi vinsælda til greiningar og rannsókna á miðtaugakerfissjúkdómum. Súrefnismælingar á sjónhimnu byggjast á litrófsgreiningu á blóðrauða í slagæðlingum og bláæðlingum sjónhimnu. Sjónhimnan er eini staður líkamans þar sem sjá má miðtaugakerfisvef og slagæðablóð með berum augum og mynda með sýnilegu ljósi. Þetta gefur einstætt tækifæri til rannsókna og greiningar á miðtaugakerfissjúkdómum. Meginmarkmið þessa verkefnis er að meta hvort greina megi breytingar í súrefnisbúskap sjónhimnu í sjúklingum með Alzheimer sjúkdóm, væga vitræna skerðingu eða heila- og mænusigg í samanburði við heilbrigða einstaklinga af sama kyni og aldri.
Súrefnismælingar í sjónhimnu voru framkvæmdar hjá sjúklingum með Alzheimer sjúkdóm, væga vitræna skerðingu og heila- og mænusigg og bornar saman við heilbrigða einstaklinga.
Niðurstöður rannsóknanna sýna að súrefnismettun í slagæðlingum og bláæðlingum var marktækt hærri hjá sjúklingum með Alzheimer sjúkdóm, væga vitræna skerðingu og heila- og mænusigg miðað við heilbrigða. Út frá niðurstöðum má álykta að súrefnismettun í sjónhimnu er óeðlileg í sjúklingum með Alzheimer sjúkdóm, væga vitræna skerðingu og heila- og mænusigg. Hjá sjúklingum með heila- og mænusigg má einnig skilja á milli þeirra augna sem hafa fengið sjóntaugabólgu og hins augans í sama sjúklingi. Þessar niðurstöður benda til þess að súrefnismælingar í sjónhimnu hafi hugsanlegt hlutverk í greiningu og rannsóknum á þessum miðtaugakerfissjúkdómum.
English abstract
Retinal imaging is gaining interest in diagnosing central nervous system (CNS) diseases and evaluating disease progression. Retinal oximetry uses spectrophotometric imaging to measure oxygen saturation in retinal arterioles and venules. The retina is embryologically related to the CNS. Ocular fundus imaging, including retinal oximetry, provides a unique opportunity for imaging CNS tissue and circulation, i.e., retina and retinal blood vessels, using visible light. The thesis aims to evaluate whether retinal oxygen metabolism is affected in patients with Alzheimer´s disease, mild cognitive impairment, and multiple sclerosis.
Retinal oximetry was performed on patients with Alzheimer´s disease, mild cognitive impairment and multiple sclerosis and compared to a healthy cohort.
The results show that retinal oxygen metabolism is affected in patients with Alzheimer´s disease, mild cognitive impairment and multiple sclerosis. Retinal oximetry imaging may have a role in diagnostics in Alzheimer´s disease, mild cognitive impairment, and multiple sclerosis, perhaps in a multimodal imaging approach. It also opens a new and exciting field of research into the pathophysiology of these CNS diseases.
Um doktorsefnið
Anna Bryndís Einarsdóttir er fædd árið 1984 í Bandaríkjunum. Hún lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2004 og útskrifaðist úr læknadeild Háskóla Íslands árið 2010. Hún lauk sérnámi í taugalæknisfræði við Odense Universitetshospital í Danmörku árið 2019, þar sem hún vann einnig hluta af doktorsverkefninu. Anna Bryndís hefur starfað sem sérfræðilæknir á Taugalækningadeild Landspítala frá árinu 2019 og frá 2021 sem settur yfirlæknir. Foreldrar hennar eru Bryndís Þórðardóttir félagsráðgjafi og dr. Einar Stefánsson prófessor og augnlæknir. Anna Bryndís er í sambúð með dr. Reyni Smára Atlasyni umhverfis- og auðlindafræðingi og eiga þau tvö börn, Lóu og Björn.
Anna Bryndís Einarsdóttir ver doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands fimmtudaginn 15. desember.