Skip to main content

Doktorsvörn í jarðfræði - Jan Prikryl

Doktorsvörn í jarðfræði - Jan Prikryl - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
30. maí 2018 14:00 til 16:00
Hvar 

Askja

Stofa 132

Nánar 
Viðburðurinn fer fram á ensku
Allir velkomnir

Doktorsefni: Jan Prikryl

Heiti ritgerðar: Efnaskipti vatns og bergs og binding CO2 og H2S í jarðhitakerfum: tilraunir og líkanreikningar (e. Fluid-rock interaction and H2S and CO2 mineralization in geothermal systems: experiments and geochemical modeling)

Andmælendur: Dr. Alasdair Skelton, prófessor við Háskólann í Stokkhólmi, Svíþjóð.
Dr. Orlando Vaselli, dósent við Háskólann í Flórens, Ítalíu.

Leiðbeinandi: Dr. Andri Stefánsson, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands.

Einnig í doktorsnefnd: Dr. Sigurður R. Gíslason, vísindamaður á Jarðvísindastofnun Háskólans.
Dr. Bergur Sigfússon, fagstjóri umhverfis og auðlindastrauma hjá Orkuveitu Reykjavíkur

Doktorsvörn stýrir: Dr. Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor og deildarforseti Jarðvísindadeildar Háskóla Íslands.

Ágrip

Efnaskipti vatns og bergs eru mikilvæg ferli í náttúrunni, sem og í margs konar iðnaði. Slíkum efnahvörfum má beita til þess að binda útblástursgös frá iðnaði, svo sem CO2 og H2S, varanlega í bergi í jarðhitakerfum. Til að rannsaka jarðefnafræði slíkrar bindingar voru tilraunir gerðar á rannsóknarstofu og framgangur efnahvarfa reiknaður.

Rannsóknin var í þremur liðum: (1) leysing frumsteinda og glers við gegnumflæði vökva, og voru þá lausnir efnagreindar og föst efni myndgreind; (2) óhlutfallsbundin ummyndun frumstæðra steinda í CO2-ríkum lausnum, og voru þá lausnir efnagreindar, steindir greindar til tegundar og magns, og samsætuhlutföll mæld; (3) steinrenning CO2 og H2S við gegnumflæði vökva, og voru þá lausnir efnagreindar og steindir greindar til tegundar og magns.

Helstu niðurstöður eru að binding CO2 og H2S í jarðhitakerfum ætti að vera möguleg út frá jarðefnafræðilegu sjónarmiði. Miðað við mældan bindingarhraða, bindast ~0,2-0,5 t af CO2 og ~0,03-0,05 t af H2S árlega á rúmmeter. Þetta bendir til þess, að dæling CO2 og H2S niður í jarðhitakerfi kunni að vera fær leið til að gera orkuvinnslu með jarðvarma kolefnishlutlausa.

Um doktorsefnið

Jan Prikryl er fæddur 1987 í Tékklandi. Hann útskrifaðist með BS próf 2010 og MS próf 2012 bæði í jarðfræði frá Háskólanum í Masaryk, Brno, Tékklandi. Jan er giftur Margréti Rán Kjærnested.

Viðburður á Facebook

Jan Prikryl

Doktorsvörn í jarðfræði - Jan Prikryl