Doktorsvörn í jarðeðlisfræði - Joaquín M.C. Belart
Aðalbygging
Hátíðarsalur
Doktorsefni: Joaquín M.C. Belart
Heiti ritgerðar: Afkoma íslenskra jökla, breytileiki og tengsl við loftslag
Andmælendur:
Dr. Francisco Navarro, prófessor við Tækniháskólinn í Madrid, Spáni.
Dr. Beata Csatho, prófessor, við Buffalo Háskóla, New York fylki, Bandaríkjunum.
Leiðbeinendur: Dr. Eyjólfur Magnússon, rannsóknarsérfræðingur við Jarðvísindastofnun Háskólans og Dr. Etienne Berthier, prófessor við Laboratoire d’Etudes en Géophysique et Océanographie Spatiales, Université de Toulouse, Frakklandi.
Einnig í doktorsnefnd:
Finnur Pálsson, verkfræðingur við Jarðvísindastofnun Háskólans.
Dr. Guðfinna Aðalgeirsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands.
Dr. Simon Gascoin, rannsóknarsérfræðingur hjá CNRS, Frakklandi.
Doktorsvörn stýrir: Dr. Andri Stefánsson, prófessor og varadeildarforseti Jarðvísindadeildar Háskóla Íslands
Ágrip
Viðfangsefni doktorsverkefnis er nýting fjarkönnunargagna við gerð hæðarkorta af jöklum og hvernig eigi að nýta þau til að fá sem nákvæmasta mælinga á afkomu jökla á tímabilum sem spanna allt frá árstíð til áratuga. Auk þess eru vensl afkomu og veðurfars eru greind.
Til að kanna notagildi fjarkönnunargagna við rannsóknir á árstíðabundinni afkomu jökla voru yfirborðshæðarkort af Drangajökli unnin eftir háupplausnarljósmyndum frá Pléiades og WorldView-2 gervitunglunum við upphaf, miðbik og lok vetursins 2014–2015. Mælingar á eðlismassa vetrarsnjós að vori voru nýttar til að skorða betur vetrarafkomu jökulsins auk þess sem niðurstöðurnar voru bornar saman við mælda snjóþykkt í afkomumælistöðum. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna ótvírætt að oft er hægt að nýta myndir frá áðurnefndum gervitunglum við mælingu vetrarákomu jökla í stað þess að leggja í kostnaðarsama og erfiða mælileiðangra.
Gríðarmikið safn loftmynda er til af íslenskum jöklum allt aftur til ársins 1945. Síðan þá hafa þeir flestir verið myndaðir á 5 til 20 ára fresti. Einnig hefur verulegu magni gervihnattaljósmynda sem nýtast til vinnslu hæðarkorta af jöklum verið aflað eftir 2000 auk hæðarkorta eftir leysimælingum úr flugvél af flestum jöklum landsins frá 2008 til 2013. Þessi yfirgripsmiklu gögn gera mögulega vinnslu 70 ára afkomusögu margra jökla. Gögn af Eyjafjallajökli (~70 km2) voru nýtt til að þróa hálfsjálfvirka úrvinnslulínu (flæðilína úrvinnsluþátta) sem byggist á opnum hugbúnaðarlausnum. Úrvinnsla þeirra gagna skilaði ítarlegri sögu um hæðarbreytingar, afkomu og umfang Eyjafjallajökuls sem bæði veðurfar og eldgos hafa stjórnað. Útfrá afkomuröðinni var bestað línulegt fall sem lýsir venslum ársafkomu við sumarhita og vetrarúrkomu auk leiðréttingarliðs vegna breytilegs umfangs jökulsins. Þetta fall sýnir að stór þáttur breytileika afkomu jökulsins má skýra með breytileika í þessum veðurfarsþáttum. Það gerir einnig kleift að meta hversu næm afkoma jökulsins er fyrir breytingum í þeim.
Úrvinnslulínan var síðan notuð til að setja saman afkomusögu 14 íslenska jökla á um 70 ára tímabili. Jöklar í öllum landsfjórðungum sem og á miðhálendinu voru rannsakaðir. Meðaltal og staðalfrávik afkomu jöklanna á hverju tímabili fyrir sig var -0.44±0.16 m v.g. ár-1 (metrar vatnsígildis á ári) 1945–1960, 0.00±0.21 m v.g. ár–1 1960–1980, 0.11±0.25 m v.g. ár–1 1980–1994, –1.01±0.50 m v.g. ár–1 1994–2004, –1.27±0.56 m v.g. ár–1 2004–2010 og –0.14±0.51 m v.g. ár–1 2010–2015. Jöklar við suður og vesturströndina sýna breytilegasta afkomu frá einu tímabili til annars, ólíkt jöklum í norðri og norðvestri þar sem þessi breytileiki er mun minni. Þessi rannsókn eykur mjög við þekkingu okkar á íslenskum jöklum áður en mikil hlýnun varð á tíunda áratug síðustu aldar sem og hvernig afkomu íslenskra jökla breyttist í kjölfarið.
Um doktorsefnið
Joaquín M.C. Belart er fæddur 1989 og ólst upp í Jaén í Andalúsíuhéraði á Spáni. Hann stuntaði B.Sc. nám í landmælingum við Háskólann í Jaén frá 2007-2011 og lauk síðan frá sama skóla M.Sc. prófi í landmælingaverkfræði sumarið 2013. Að mastersnámi loknu vann Joaquín sem rannsóknarmaður í jöklafræði við Jarðvísindastofnun Háskólans. Haustið 2015 hóf hann nám til sameiginlegrar Ph.D. gráðu frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Toulouse III – Paul Sabatier.
Um er að ræða sameiginlega doktorsgráðu á milli Háskóla Íslands og University of Toulouse III – Paul Sabatier, Frakklandi.
Verkefnið var fjármagnað af Rannsóknasjóð Háskóla Íslands og kostnaður við ferðir á milli háskólanna var fjármagnaður af Jules Verne Research Fund.
Joaquín M.C. Belart