Doktorsvörn í íþrótta- og heilsufræði: Rúna Sif Stefánsdóttir
Aðalbygging
Hátíðarsalur
Tengsl milli hlutlægs mælds svefns og hugrænna þátta hjá íslenskum unglingum
Streymi: https://livestream.com/hi/doktorsvornrunasifstefansdottir
Rúna Sif Stefánsdóttir ver doktorsritgerð sína í íþrótta- og heilsufræði við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda, Háskóla Íslands.
Vörnin fer fram miðvikudaginn 9. mars kl. 13.00 í Hátíðarsal Háskóla Íslands og verður einnig streymt.
Andmælendur eru dr. Børge Sivertsen Senior Researcher við Norwegian Institute of Public Health og dr. Kathleen Ries Merikangas Senior Investigator við National Institute of Mental Health í Bandaríkjunum.
Aðalleiðbeinandi var dr. Erlingur S. Jóhannsson prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og meðleiðbeinandi dr. Robert Brychta vísindamaður við National Institutes of Health í Bandaríkjunum.
Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Hilde S. Gundersen dósent við Western Norway University of Applied Sciences.
Dr. Ársæll Arnarsson, forseti Deildar heilsueflingar, íþrótta og tómstunda, stjórnar athöfninni.
Öll velkomin.
Um verkefnið:
Doktorsverkefnið er partur af verkefninu Heilsuhegðun ungra Íslendinga er það er langtímarannsókn á stöðu heilbrigðisþátta ungra Íslendinga og tengsl þeirra við svefn, hreyfingu og skólaumhverfi. Rannsóknir undanfarið hafa sýnt að að nægur svefn á unglingsárum er lífsnauðsynlegur, og að stuttur og ófullnægjandi svefn getur haft áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Enn fremur hefur verið sýnt fram á að stuttur svefn getur haft neikvæð áhrif á námsárangur og hugræna virkni. Þrátt fyrir sterkar vísbendingar um skaðleg áhrif ófullnægjandi svefns á heilsuna skortir rannsóknir sem mæla svefn hlutlægt (við frjálsar aðstæður). Því var meginmarkmið þessarar doktorsritgerðar að nota hlutlæga mælikvarða til að mæla svefn íslenskra ungmenna á aldrinum 15 til 17 ára, við skólaskiptin úr grunnskóla yfir í framhaldsskóla, og að skoða hvort svefnmynstur þeirra tengist námsárangri og hugrænum þáttum.
Rannsóknarúrtakið kom frá sex grunnskólum í Reykjavík. Gögnum var safnað vorið 2015, þegar nemendur voru í klára 10. Bekk og svo tveimur árum síðar en þá voru nemendur á öðru ári í framhaldsskóla. Hægt var að tengja gögn hjá 145 nemendum á báðum tímapunktum. Svefn var mældur í eina viku með actigraph hreyfimæli sem var staðsettur á úlnliði. Í fyrri gagnasöfnun árið 2015 var meðaleinkunn í samræmdum prófum í íslensku, stærðfræði og ensku notuð sem mælikvarði á námsárangur. Tveimur árum seinna var hugræn virkni mæld með n-back minnisprófi og Posner cue-target athyglisprófi.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru að íslensk ungmenni fara að meðaltali seint í rúmið (00:43 við 15 ára aldur, 01:12 við 17 aldur) og heildar svefntími er stuttur (6,6 ± 0,7 klst /nótt 15 ára og 6,2 ± 0,7 klst./nótt 17 ára). Enn fremur er breytileiki í svefni hár á báðum tímapunktum. Þegar heildarbreyting á svefni frá 15 til 17 ára aldurs er skoðuð, sést að svefnlengd nemanda minnkar, svefnbreytileiki á nóttu eykst og nemendur fara að meðaltali að sofa 29 mínútum seinna. Við fyrri gagnasöfnun, árið 2015 fundust neikvæð tengsl á milli svefnlengdar, háttatíma og einkunna á samræmdu prófi sem gefur til kynna að nemendur sem fara fyrr að sofa og eru með minni breytileika í svefni fá hærri meðaleinkunn á prófunum. Svipað fannst í seinni gagnasöfnun árið 2017, en þar sást að styttri tími í rúminu nóttina fyrir hugræna prófið tengdist slakari árangri, en þó aðeins á mest krefjandi minnisprófinu. Niðurstöðurnar gefa til að kynna að íslenskt ungmenni fara of seint að sofa, sofa stutt og mikill breytileiki er í svefn ungmenna bæði við 15 og 17 ára aldur. Einnig sýna niðurstöður við 15 ára aldur að svefngæði og háttatími hafa áhrif á einkunnir og svefn virðist einnig hafa áhrif á hugræna þætti hjá 17 ára unglingum.
Um doktorsefni:
Rúna Sif Stefánsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1989. Hún lauk kennaraprófi í líffræðikennslu (B.Ed) frá St. John´s University, New York, árið 2012 og MPH í Lýðheilsuvísindum frá Háskóla Íslands. Rúna er aðjunkt við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Foreldrar Rúnu eru Erla Gunnarsdóttir íþróttafræðingur og Stefán Stefánsson dúklagninga- og veggfóðrarameistari. Eiginmaður Rúnu er Pablo Punyed knattspyrnumaður og nemi og búa þau í Grafarvogi ásamt dóttir sinni, Elísabet Erlu (2019). Helstu áhugamál Rúnu eru svefn, hreyfing, útivist, matur, ferðalög og nýtur hún sín best í faðmi fjölskyldu og vina.
Tengsl milli hlutlægs mælds svefns og hugrænna þátta hjá íslenskum unglingum Rúna Sif Stefánsdóttir ver doktorsverkefni sitt. Vörnin fer fram miðvikudaginn 9. mars kl. 13.00 í Hátíðarsal Háskóla Íslands og verður einnig streymt.