Doktorsvörn í íslenskum bókmenntum: Ásta Kristín Benediktsdóttir
Askja
Stofa 132
Föstudaginn 1. nóvember 2019 fer fram doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og School of English, Drama and Film við University College í Dublin. Þá ver Ásta Kristín Benediktsdóttir doktorsritgerð sína í íslenskum bókmenntum sem nefnist Facing the Heartbeat of the World. Elías Mar, Queer Performativity and Queer Modernism. Vörnin fer fram í stofu 132 í Öskju og hefst kl. 13.
Andmælendur verða Heike Bauer, prófessor við Birkbeck, Háskólanum í Lundúnum, og Dag Heede, lektor við Háskólann í Suður-Danmörku.
Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Bergljótar Kristjánsdóttur, prófessors í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands, og Anne Mulhall, lektors við University College í Dublin. Aðrir í doktorsnefnd voru Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emerita við Háskóla Íslands, og Sharae Deckard, lektor við University College í Dublin.
Torfi Tulinius, forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnar athöfninni.
Um rannsóknina
Í ritgerðinni er fjallað um rithöfundinn Elías Mar (1924-2007) og samkynja langanir í skáldverkum hans frá fimmta áratug 20. aldar, skáldsögunum Eftir örstuttan leik (1946), Man eg þig löngum (1949) og Vögguvísu (1950) auk ýmissa útgefinna og óútgefinna texta frá fyrstu höfundarárum Elíasar. Verkin eru greind frá hinsegin sjónarhorni og sett í sögulegt samhengi auk þess sem þau eru notuð til að varpa ljósi á líf Elíasar sem tvíkynhneigðs rithöfundar á þessum árum. Færð eru rök fyrir því að ritun og útgáfa bókanna hafi haft veruleg áhrif á mótun sjálfsmyndar Elíasar og að í augum hans og sögupersóna hans hafi listræn reynsla og tjáning verið mikilvægur hluti af því að vera hinsegin. Hluti af ritgerðinni er söguleg rannsókn á því hvernig kynvilla eða samkynhneigð varð hluti af opinberri orðræðu á Íslandi á fyrri hluta 20. aldar og hver hlutur Elíasar var í því ferli. Hann lagði mikla áherslu á að skrifa „aktúelar“ bækur sem tækjust á virkan hátt á við samtímann og í ritgerðinni er því haldið fram að líta megi á þetta viðhorf og birtingarmyndir þess í verkunum sem hinsegin módernisma – viðbragð Elíasar við því að vera í kynferðislegri jaðarstöðu á Íslandi um miðja 20. öld.
Doktorsefnið
Ásta Kristín Benediktsdóttir (f. 1982) er íslenskufræðingur með MA í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands (2010). Hún starfar nú sem stundakennari við sama skóla, prófarkalesari og sjálfstætt starfandi fræðimaður hjá ReykjavíkurAkademíunni.
Ásta Kristín Benediktsdóttir. (Mynd: Bettina Vass Photography)