Doktorsvörn í guðfræði: Jón Ásgeir Sigurvinsson
Aðalbygging
Hátíðasalur
Mánudaginn 4. mars fer fram doktorsvörn við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Þá ver Jón Ásgeir Sigurvinsson doktorsritgerð sína í guðfræði sem nefnist Sálmur Hiskía konungs sem ákall þjóðar og sáðkorn vonar. Textafræðileg greining á Jes 38.9-20. Andmælendur verða Göran Ivar Martin Eidevall og Maria Häusl.
Rúnar Már Þorsteinsson, forseti Guðfræði- og trúarbragðafræðideild, stjórnar athöfninni sem fram fer í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.
Um rannsóknina
Hinn svokallaði þakkarsálmur Hiskía konungs í 38. Kafla Jesajabókar hefur löngum þótt afar erfiður
viðfangs, ekki síst vegna meints bágborins varðveisluástands hans, sem hefur orðið tilefni til umfangsmikilla breytinga á textanum á grundvelli textarýni. Í rannsókninni er gerð tilraun til málfræðilegrar og bókmenntalegrar greiningar og túlkunar á byggingu sálmsins, merkingar og innra hlutverks einstakra hluta hans og tengsla þeirra hvers við annan, sem og tilgangs sálmsins í bókmenntalegu og sögulegu samhengi sínu, á grundvelli aðferðafræði við ritskýringu ljóðatexta G.t. sem Hubert Irsigler hefur sett fram á breiðum grunni málfræðilegrar og bókmenntafræðilegrar ritskýringar. Greiningin á byggingu sálmsins og því hvernig hann er felldur inn í bókmenntalegt samhengi sitt leiðir í ljós að hann er fyrst og fremst tjáning harms og framsetning bænar útlaganna í Babýlon á 6. öld f. Kr. en virkar um leið sem hvatning fyrir þá bæn og næring fyrir vonina um bænheyrslu og traustið á Jahwe með fordæminu sem bænheyrsla Hiskía og traust hans á fyrirheiti Jahwes setur.
Doktorsefnið
Jón Ásgeir Sigurvinsson lauk embættisprófi frá guðfræðideild Háskóla Íslands árið 1999. Hann fór til doktorsnáms í gamlatestamentisfræðum við Albert-Ludwigs-Universität í Freiburg im Breisgau með styrk frá DAAD og dvaldi þar við nám undir leiðsögn Huberts Irsigler frá árinu 2000 til 2003. Hann fékk styrk frá Rannís árið 2003 til þess að vinna að doktorsrannsókninni. Jón Ásgeir hefur starfað við þýðingar og kennslu en er sem stendur settur sóknarprestur í Borgar- og Stafholtsprestaköllum.
Jón Ásgeir Sigurvinsson.