Doktorsvörn í ferðamálafræði - Elva Björg Einarsdóttir
Aðalbygging
Hátíðarsalur
Doktorsefni:
Elva Björg Einarsdóttir
Heiti ritgerðar:
Hugsað með staðarmyndun í V-Barð á Íslandi
Andmælendur:
Dr. Phillip Vannini, prófessor við Deild samskipta og menningar, við Royal Roads University, Kanada. Dr. Jundan Jasmine Zhang, sérfræðingur hjá Miðstöð fyrir náttúrutúlkun, Swedish University of Agricultural Sciences, Svíþjóð
Leiðbeinandi:
Dr. Katrín Anna Lund, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Dr. Gunnar Þór Jóhannesson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Outi Rantala, prófessor við Félagsvísindadeild Háskólans í Lapplandi, Finnlandi
Doktorsvörn stýrir:
Dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor og deildarforseti Líf-og umhverfisvísindadeildar HÍ
Ágrip:
Staðir eru hreyfanlegir og verðandi, þeir eru síbreytilegir og kvikir. Ásýnd staða á jaðrinum hefur á stundum viljað taka á sig aðra mynd og ímynd þeirra verið tengd við stöðnun og einsleitni. Í ritgerðinni skoða ég Vestur-Barðastrandarsýslu (V-Barð) á Íslandi út frá hugmyndinni um það hvernig staðir verða til í sífelldum breytileika og hreyfingu og þar er V-Barð engin undantekning. Ég skoða V-Barð út frá mismunandi sjónarhornum á forsendum efnislegrar tengslahyggju, en hún gengur út frá því að manneskjan sé einungis hluti af stærri heild og að þar skipti tengsl höfuðmáli. Þannig skoða ég V-Barð út frá tengslum fólks og náttúru, út frá hreyfanleika staðarins og ferðamennsku. Niðurstöður mínar sýna fram á að staðir á jaðrinum eru engu síður kvikir og síbreytilegir en staðir nær miðjunni. Aðferðafræði efnislegrar tengslahyggju gerir ráð fyrir mismunandi aðferðum til að hlusta og skoða staði út frá og hugsa um þá. Í ritgerðinni birtist V-Barð sem marglaga og margradda staður þar sem ólíkar sögur meira-en-mennskra radda koma saman og móta staðinn. V-Barð er því óreiðukenndur staður tengsla líkt og aðrir staðir, sem býr jafnframt yfir valdi þessara tengsla sem ætti að taka tillit til í mótun staðarins til framtíðar eða í rannsóknum á honum.
Um doktorsefnið:
Elva Björg Einarsdóttir er dóttir hjónanna Bríetar Böðvarsdóttur og Einars Guðmundssonar, fædd að heimili þeirra á Seftjörn á Barðaströnd árið 1966. Árið 2016 gaf hún út bókina Barðastrandarhreppur – göngubók, um það að ganga um gömlu sveitina sína, einnig kort og vefsíðu, www.bardastrandarhreppur.net. Elva Björg hefur unnið við kennslu í grunnskóla og háskóla og sem verkefnastjóri við Háskóla Íslands, lengst af við Kennslumiðstöð Háskóla Íslands. Nú sinnir hún starfi verkefnastjóra Vettvangsakademíu á Hofstöðum í Mývatnssveit. Elva Björg er með BA-gráðu í guðfræði, kennsluréttindi frá Kennaraháskóla Íslands og MA-gráðu í mannfræði. Rannsókn hennar í ferðamálafræði er hluti af rannsóknarverkefninu Hreyfanleiki á jaðrinum (MoM) sem fékk styrk frá Rannís 2020-2023. Auk þess hefur Elva Björg verið hluti af þremur öðrum rannsóknarteymum á námstímanum, Intra living in the Anthropocene (ILA), One by walking og Critical tourism studies (CTS). Eiginmaður Elvu Bjargar er Hannes Björnsson sálfræðingur, dæturnar eru Jónína Sigrún, Ragnhildur Helga og Þuríður og barnabörnin Heiðar, Jenný, Kjartan, Krummi og Lóa.
Doktorsefnið: Elva Björg Einarsdóttir