Skip to main content

Doktorsvörn í ferðamálafræði - Barbara Olga Hild

Photo by Anna Shvets
Hvenær 
5. september 2025 14:00 til 16:00
Hvar 

Askja

Stofa N-132

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Streymi

Doktorsefni:
Barbara Olga Hild

Heiti ritgerðar:
Öryggi ferðamanna í ævintýraferðamennsku. Hæfni leiðsögumanna og áhættustýring á norðurslóðum.

Andmælendur:
Dr. Bjørn Ivar Kruke, dósent við Háskólann í Stavanger, Noregi.
Dr. TA Loeffler, prófessor við Memorial-háskólann í Kanada.

Leiðbeinandi:
Dr. Gunnar Þór Jóhannesson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Are Kristoffer Sydnes, prófessor við The Arctic University of Norway, Noregi.
Dr. Patrick T. Maher, prófessor við Nipissing-háskólann í Kanada.
Sigmund Andersen, lektor við The Arctic University of Norway, Noregi.

Doktorsvörn stýrir:
Dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands.

Ágrip:
Vinsældir ævintýraferðamennsku á norðurslóðum hafa aukist hratt undanfarin ár. Samhliða þessari aukningu þá hefur tíðni slysa aukist og um leið orðið meira álag á staðbundna viðbragðsþjónustu viðkomandi svæða. Þessi rannsókn skoðar tengslin á milli hlutverks og hæfni leiðsögumanna í ævintýraferðamennsku og getu þeirra til að tryggja öryggi á vettvangi. Í verkefninu er þjálfun leiðsögumanna, öryggisvenjur, áhættustjórnun og hlutverk leitar- og björgunaraðila rannsökuð með áherslu á Ísland, Svalbarða og Grænland. Niðurstöður byggja á fjögurra ára rannsóknarvinnu sem fólst í viðtölum, greiningu gagna og samvinnu við hagsmunaaðila. Niðurstöður sýna að reyndir leiðsögumenn treysta á ígrundun í starfi og sífellda hæfniþróun. Þekking þeirra er þó oft vannmetin af stjórnvöldum og sumum ferðaþjónustuaðilum, sem takmarkar tækifæri til að nýta hana í stefnumótun og áhættustjórnun. Rannsóknin undirstrikar mikilvægi þess að brúa bilið milli fræða og framkvæmdar og hvetur til að þekking leiðsögumanna verði nýtt í ákvarðanatökuferlum. Með því að samþætta rannsóknasvið ferðaþjónustu, öryggismála og menntunar sýnir rannsóknin að öryggi á norðurslóðum er margþætt og krefst þverfaglegrar nálgunar. Hún stuðlar að dýpri skilningi á öryggishæfni í leiðsögn á heimskautasvæðunum og kallar eftir yfirgripsmeiri og staðbundnari þjálfunaráætlunum. Framtíðarannsóknir ættu að kanna langtímaáhrif menntunar leiðsögumanna, trú þeirra á eigin getu og árangur samstarfs hagsmunaaðila. Einnig ber að nýta aðferðaðfræði og þekkingu frumbyggja til að tryggja menningarlega viðeigandi og nýstárlegar aðferðir í leiðsögukennslu og áhættustjórnun. Að lokum veitir þessi rannsókn kerfisbundna sýn á þekkingu leiðsögumanna og hvetur hagsmunaaðila til að leggja til við að skapa, nýta og miðla þessari þekkingu til að auka öryggi og seiglu í ævintýraferðamennsku á norðurslóðum.

Um doktorsefnið:

Ferill Barböru nær yfir vítt svið eins og gerð útivistaáætlana fyrir skóla, þróun öryggisnámskeiða, kennslu við leiðsöguskóla á norðurslóðum, leiðsögn á afskekktum heimskautasvæðum og öryggisstjórnun í vísindaleiðöngrum. Sem lykilþátt í að byggja upp dýpri skilning og þekkingu á öryggi ferðamanna þar sem staðarþekking skiptir lykilmáli hefur Barbara búið og starfað í ólíkum löndum en má þar nefna þrjú ár í Kína, þrjú ár í Bandaríkjunum, fjögur ár á Svalbarða og í yfir tvö ár á Grænlandi. Í ágúst 2020 hóf Barbara doktorsnám sitt þar sem hún rannsakaði öryggi og áhættustjórnun á norðurslóðum samhliða störfum sínum fyrir leiðsöguskóla á Grænlandi, bandarísku vísindastofnunina (U.S. National Science Foundation) og þátttöku í ýmsum leiðangursverkefnum. Reynsla hennar sem leiðsögumaður og kennari hefur veitt henni mikilvægan skilning á einstökum áskorunum sem fylgja vinnu á heimskautasvæðum. Undanfarin ár hefur rannsóknarvinna hennar beinst að áhættustjórnun í ævintýraferðaþjónustu og útinámi, með áherslu á þjálfun leiðsögumanna, staðbundna þekkingu, þátttöku samfélaga og viðbragðsáætlanir við neyðaraðstæðum í krefjandi umhverfi. Hluti af rannsóknum hennar fór fram sem gestadoktorsnemi við Arctic Safety Centre á Svalbarða. Árið 2021 lauk hún háskólanámskeiði í Safety Management and Emergency Preparedness and Response in the Arctic við UNIS á Svalbarða. Barbara er einnig með diplómapróf í Arctic Nature Guiding frá The Arctic University of Norway (UiT) frá árinu 2018 og diplómapróf í íslensku sem annað tungumál frá Háskóla Íslands (2017). Áður lauk hún meistaraprófi í menntunarfræðum (2016) og BA-prófi í blaðamennsku (2013), bæði í Póllandi. Samhliða rannsóknum sínum elur Barbara upp tvö yndisleg börn á Norðurlandi.

Doktorsefnið Barbara Olga Hild

Doktorsvörn í ferðamálafræði - Barbara Olga Hild