Doktorsvörn í félagsráðgjöf - Jóna Margrét Ólafsdóttir
Streymt frá Háskólanum í Lapplandi
Föstudaginn 23. október nk. ver Jóna Margrét Ólafsdóttir doktorsritgerð sína í félagsráðgjöf.
Heiti ritgerðar: Addiction within families – The impact of substance use disorder on the family system (Fjölskyldur og fíkn: áhrif vímuefnaröskunar á fjölskyldukerfi).
Doktorsritgerð Jónu Margrétar er til sameiginlegrar doktorsgráðu við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands og Félagsvísindadeild Háskólans í Lapplandi.Vörnin fer fram við Háskólann í Lapplandi en henni verður streymt: https://connect.eoppimispalvelut.fi/vaitos2
Athöfnin hefst kl. 11:00 að íslenskum tíma og er öllum opin.
Andmælendi: Dr. Eydís Sveinbjarnardóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs og dósent við Háskólann á
Akureyri.
Doktorsvörn stýrir: Dr. Tarja Orjasniemi, dósent við Háskólann í Lapplandi.
Leiðbeinendur: Dr. Steinunn Hrafnsdóttir, prófessor við
Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands og dr. Tarja Orjasniemi, dósent við Félagsvísindadeild Háskólans í Lapplandi
Einnig í doktorsnefnd: Dr. Katja Forssén, prófessor við
Félagsráðgjafardeild Háskólans í Turku í Finnlandi.
Ágrip
Niðurstöður doktorsritgerðar Jónu Margrétar Ólafsdóttur sýna að fjölskyldumeðlimir sem búa með einstaklingi með vímuefnaröskun geta upplifað aukið þunglyndi, kvíða og streitu. Jafnframt upplifa þeir minni samheldni innan fjölskyldunnar og samskipti milli fjölskyldumeðlima en fjölskyldumeðlimir sem ekki búa við vímuefnaröskun í fjölskyldum. Jóna Margrét bendir á að skilja þarf að vímuefnaröskun einstaklings í fjölskyldum hefur mismunandi áhrif á undirkerfi fjölskyldunnar - maka, foreldra, systkini og börn - og að hafa þurfi í huga ólíkar þarfir hvers og eins og skoða hlutina frá mismunandi sjónarhornum. Þar af leiðandi verður að beita fjölbreyttum aðferðum í fjölskyldumeðferð og vinnu með fjölskyldunum. Þó einungis einn fjölskyldumeðlimur þjáist af vímuefnaröskun þá hefur hún áhrif á allt fjölskyldukerfið og því er mikilvægt að veita heildræna meðferð fyrir alla fjölskylduna.
Um doktorsefnið
Jóna Margrét Ólafsdóttir er fædd 19. október 1969 í Reykjavík. Hún lauk meistaranámi í félagsráðgjöf 2007 frá Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands og lauk mastersnámi í áfengis- og vímuefnaráðgjöf 2017 frá NAADAC samtökum áfengis- og vímuefnaráðgjafa í Bandaríkjunum.
Jóna Margrét starfar sem aðjunkt við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands.Hún sinnir einnig ráðgjöf og meðferð fyrir einstaklinga með áfengis- og vímuefnavanda og fjölskyldur þeirra á eigin stofu. Hægt er að hafa samband við Jónu varðandi doktorsverkefnið í netfangið jona@hi.is.
Föstudaginn 23. október nk. ver Jóna Margrét Ólafsdóttir doktorsritgerð sína í félagsráðgjöf, Addiction within families – The impact of substance use disorder on the family system (Fjölskyldur og fíkn: áhrif vímuefnaröskunar á fjölskyldukerfi). Doktorsritgerð hennar er til sameiginlegrar doktorsgráðu við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands og Félagsvísindadeild Háskólans í Lapplandi.