Doktorsvörn í félagsfræði - Hjördís Sigursteinsdóttir
Aðalbygging
Hátíðasalur
Hjördís Sigursteinsdóttir ver doktorsritgerð sína
„Heilsa og líðan starfsfólks íslenskra sveitarfélaga í kjölfar efnahagshrunsins 2008.”
Andmælendur eru Dr. Helga Kristín Hallgrímsdóttir dósent við University of Victoria í Kanada og Dr. Álfgeir Logi Kristjánsson lektor við West Virginia University í Bandaríkjunum.
Leiðbeinandi er Dr. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir aðstoðarrektor vísinda og prófessor í félagsfræði í Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands. Í doktorsnefnd sátu auk hennar Dr. Guðbjörg Andrea Jónsdóttir forstöðumaður Félagsvísindastofnunar, Dr. Þorgerður Einarsdóttir prófessor í kynjafræði í Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og Asbjørn Grimsmo vísindamaður hjá Work Research Institute í Oslo og Akershus University College of Applied Sciences.
Dr. Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, prófessor í náms- og starfsráðgjöf í Félags- og mannvísindadeild og deildarforseti Félags- og mannvísindadeildar, stjórnar athöfninni.
Athöfnin er öllum opin.
Ágrip
Flestum er vel í minni fall íslensku bankanna á haustdögum 2008 og þær afleiðingar sem það hafði á almenning sem og fyrirtæki/stofnanir í landinu. Starfsfólk íslenskra sveitarfélaga hefur verið talið búa við mikið starfsöryggi og því var fróðlegt að skoða breytingar á starfsaðstæðum þessa hóps árin eftir fall bankanna og vinnutengda heilsu þeirra og líðan. Rannsóknin náði til 20 sveitarfélaga með 2000 íbúa eða fleiri á tímabilinu 2010-2013. Sjónum var beint að tveimur starfshópum innan sveitarfélaganna, annars vegar starfsfólki skólanna og hins vegar starfsfólki elliheimila og sambýla.
Niðurstöðurnar sýna að álagið jókst einkum á milli áranna 2010 og 2011, en þó einnig á milli áranna 2011 og 2013. Á þessu tímabili fjölgaði einnig þeim sem voru frá vinnu vegna veikinda og þeim sem leitaðu til læknis vegna heilsubrests sem rekja mátti til aðstæðna í vinnunni. Það sama gilti um starfsfólk sem hafði orðið fyrir einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustaðnum annað hvort af hálfu samstarfsfólks, yfirmanna eða skjólstæðinga og/eða aðstandenda þeirra. Niðurstöðurnar sýna að áðurnefnd einkenni jukust mest á vinnustöðum þar sem uppsagnir höfðu átt sér stað. Í ljósi þessa er mikilvægt að stjórnendur hafi í huga möguleg langtíma neikvæð áhrif samdráttar í starfsmannahaldi á starfsaðstæður og líðan fólks á tímum kreppu og aðhaldsaðgerða.
Um doktorsefnið
Hjördís Sigursteinsdóttir er fædd 20. febrúar 1967 á Akureyri. Hún lauk MA prófi í félagsfræði í Háskóla Íslands og er nú aðjunkt við Viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri. Hjördís á fjögur börn og eitt barnabarn.
Hjördís Sigursteinsdóttir er fædd 20. febrúar 1967 á Akureyri. Hún lauk MA prófi í félagsfræði í Háskóla Íslands og er nú aðjunkt við Viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri. Hjördís á fjögur börn og eitt barnabarn.